Fara í efni

FRAMSÓKNARFRÉTTIR Í RÚV


Að undanförnu höfum við fylgst með RÚV og öðrum fjölmiðlum höndla upplýsingafrumskóginn. Í dag kom fram fréttatilkynning frá Vinstrihreyfingunni grænu framboði um þá mismunun sem er við lýði gagnavart dreifbýlinu varðandi menntun á framhaldsskólasviði. Sjá HÉR.
Við í VG töldum að við hefðum undirbúið vel grundað sjónarmið með rökstuddum upplýsingum. Viðbrögðin voru hins vegar ekki eftir því.
Ekki hreyfði fréttastofa RÚV við málinu. Allan daginn glumdi hins vegar sem fyrsta frétt sú yfirlýsing ráðherra Framsóknarflokksins hve visatvæn stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar væri! Þau virkja ár sem fylla lónin af aur á stuttum tíma og kalla það endurnýjanlega og vistvæna orku. Þau láta sigla með hráefnið frá Ástralíu á olíuknúðum skipum og kalla það vistvæna flutninga, og á olíuknúðum skipum er afurðin svo flutt á markað, sennilega er það mjög vistvænt líka. Og síðan erum við neydd til þess að hlusta andmælalaust á umhverfisráðherra stjórnmálaflokks sem hafnaði úrskurði sérfræðinga um að Kárahnjúkaverndun stæðist ekki umhverfismat – já, það var umhverfisráðherra Framsóknarflokksins sem hafnaði úrskurði umhverfissérfræðinga til þess að geta þjónað Alcoa-álsamsteypunni! Umhverfisráðherra þessa flokks er fenginn til að segja okkur hversu vistvæn ríkisstjórnin hafi verið á undanförnum árum!!!
VG fékk ekki inni hjá RÚV með sínar áherslur í menntamálum landsbyggðarinnar. Fréttastofan var svo upptekin að segja frá vistvænum áherslum Framsóknarflokksins. Auðvitað eru takmörk fyrir því hvað  fólk hefur lengi þolinmæði fyrir fréttastofu sem kallar á Halldór Ásgrímsson í viðtal og setur í fréttatíma – þá væntanlega sem sérstaklega fréttnæmt - það mat hans að Framsóknarflokkurinn eigi eftir að sækja í sig veðrið en VG að dala, enda sé VG loftbóla sem eigi eftir að springa! Hvenær á að ræða við alla hina diplómatana? Er búið að leita til Svavars Gestssonar? Það stendur að sjálfsögðu ekkert til. Nei, fyrst er það Halldór Ásgrímsson, síðan kemur Jónína Bjartmarz sem segir að stóriðjustefna Framsóknarflokksins sé framlag til vistvænni veraldar! Gott ef ekki heyrðist í varaformanni Sjálfstæðisflokksins úttala sig um hve mikilvægt væri að Framsókn styrkti sig fyrir kosningar! Á sama tíma og þessu vindur fram er hafnað að kynna hugmyndir VG um að jafna beri menntunarkostnað landsbyggðar og þéttbýlis.
Fréttastofa sem setur framlag Framsóknarflokksins til umhverfisverndar í heiminum sem fyrstu frétt en strikar út frétt um vanda landsbyggðarinnar varðandi menntun unglinga á framhaldsskólastigi er ekki að sinna fréttamennsku. Hún er á einhverju allt öðru róli. Hún er fyrst og síðast að sinna Framsóknarflokknum.