Fara í efni

FREISTINGIN OG KÁRAHNJÚKAR

Birtist í Morgunblaðinu 21. september 2006
Í magnaðri grein sem birtist í Morgunblaðinu nýlega eftir dr. Gunnar Kristjánsson prófast og prest á Reynivöllum í Kjós, Stríð streymir Jökla, dregur höfundur fram þá togstreitu sem iðulega hefur verið á milli manns og náttúru. Íslendingar hafi löngum litið á náttúruna sem afl sem þyrfti að sigrast á: "Iðnbyltingin fór framhjá okkur og framkvæmdir með stórfelldu inngripi inn í náttúrulegt umhverfi gerðust hér síðar en annars staðar í hinum vestræna heimi. Á meðan náttúruspjöll hafa fylgt iðnvæðingu og vaxandi ágangi á óspillt svæði annars staðar hefur tíminn unnið með lífríki Íslands. Engu að síður hafa Íslendingar eins og aðrar þjóðir haft tilhneigingu til að líta á náttúruna sem andstæðing sem þyrfti að sigrast á, beisla og gera sér undirgefinn."
Þrátt fyrir þetta hafi ætíð verið ríkur samhljómur milli manns og náttúru hér á landi, segir Gunnar Kristjánsson, og hafi skáldin blásið okkur í brjóst virðingu fyrir landinu: Bæði rómantísku skáldin á nítjándu öld og náttúruskáld tuttugustu aldar hafi "innprentað þjóðinni lotningu fyrir fagurri náttúru landsins og gildir þá einu hvort í hlut eiga viðkvæmar jurtir á víðavangi, tærar bergvatnsár eða beljandi jökulár, eldfjöll eða hvítir jökulskallar. Hvaðeina sem náttúran hefur uppá að bjóða opnar manninum leið til fegurðar og lífsnautnar..."

Gunnar segir að þessi tvö andstæðu viðhorf hafi í seinni tíð togast harkalega á. Það er sterk mynd sem prófasturinn á Reynivöllum dregur upp.
En hann kemur víðar við en hjá íslenskum skáldum. Hann horfir til heimspeki og trúarbragða og segir: "Hin gyðing-kristna menningarhefð hefur aldrei sagt skilið við leyndardóm óbyggðanna, þær eiga sér sinn sérstaka sess frá því löngu fyrir Krists burð. Ein kunnasta óbyggðasagan er um freistingu Jesú þegar andinn leiddi hann út í óbyggðina, þar sem freistarinn bauð honum allan heimsins auð. Hvers vegna ekki að láta undan, þiggja gott tilboð: peningar, eru þeir ekki mál málanna? "

Samlíkingin sem hér er dregin upp er ögrandi og togstreitan sem í henni felst sígild. Allir viðurkenna að verið er að fórna náttúruverðmætum við Kárahnjúka. Meintur efnahagslegur ávinningur er hins vegar sagður vera svo mikill að réttlætanlegt sé að láta freistast til þess að fórna náttúrunni. En er það svo, er ávinningur af þessum framkvæmdum?

Þeirri spurningu hefur aldrei verið svarað til hlítar. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar komu sér ætíð undan því að taka þátt í návígisumræðu um þessi efni þegar framkvæmdirnar voru ákveðnar.
Í umræðu innan Alþingis og utan var hins vegar véfengt að þjóðhagslegur ábati framkvæmdanna væri sá sem af væri látið. Fráleitt væri að einblína á stundarávinninginn af innspýtingu hundraða milljarða inn í hagkerfið. Það sem raunverulega skipti máli væri arðsemi framkvæmdanna, þ.e. þeim virðisauka sem sæti eftir í landinu af orkusölu til erlendra álrisa og hvað önnur ráðstöfun sama fjárfestingarfjár hefði leitt til í atvinnusköpun.

Margir hagfræðingar og glöggir einstaklingar komust á sínum tíma að þeirri niðurstöðu að svörin við þessum spurningum væru neikvæð. Framkvæmdirnar skiluðu ekki þjóðhagslegum ávinningi ef raunverulegur fjármagnskostnaður, þ.e. án niðurgreiðslu með ríkisábyrgð, og eðlileg ávöxtunarkrafa væri tekin með í reikninginn. Aukinheldur bættust við neikvæð hliðaráhrif, s.s. aukin einsleitni í útflutningi, almenn ruðningsáhrif á efnahagslífið á meðan framkvæmdum stæði og síðast en ekki síst skaði á náttúru landsins sem hvergi er metinn til verðs. Þessi varnaðarorð hafa gengið eftir og gott betur. Ógnvænleg þensla hefur orðið í þjóðfélaginu með tilheyrandi ruðningsáhrifum gagnvart annarri atvinnustarfsemi. Stýrivextir Seðlabankans eru nú 14%, verðbólga um 8% og viðskiptahallinn er nú meiri en dæmi eru um, nánast hvar sem litið er í heiminum. Þetta má að verulegu leyti rekja til stóriðjufjárfestinganna. Þekkingariðnaðurinn og margvísleg framleiðsla hrökklast úr landi vegna ruðningsáhrifa og tilraunir til að slá á þensluna, með því að skrúfa vexti upp úr öllu valdi, bitnar á heimilum ekki síður en innlendri atvinnustarfsemi.
Stundum er talað um aðkomu Alcoa að íslensku efnahagskerfi sem hina mestu guðsgjöf og hafa þá margir á tilfinningunni að álrisinn komi færandi hendi. Það er mikill misskilnigur því þá vill gleymast að langmestur hluti þess fjármagns sem nú hefur verið ráðstafað er lánsfé á ábyrgð Íslendinga.
En aftur að samlíkingum prófastsins á Reynivöllum. Ef það nú er svo, að fjárhagslegur ávinningur lántökunnar er lítill sem enginn, jafnvel neikvæður og að mun heppilegra hefði verið að beina atvinnuuppbyggingunni í annan farveg, þá hlýtur sú spurning að vakna hvort þeir sem voru reiðubúnir að fórna náttúru Austurlands vegna meints efnahagslegs ávinnings þurfi ekki að endurskoða afstöðu sína til þessara framkvæmda og almennt til virkjana í þágu stóriðju.
Kannski er það ekkert skrítið að stjórnvöld reyni að leyna upplýsingum um forsendur Kárahnjúkaframkvæmdanna og vilji sem minnsta umræðu um þær. Hún kann nefnilega að leiða í ljós að Alcoa sem bauð okkur mikla auðlegð fyrir að fórna náttúruperlum Austurlands hafi þegar allt kemur til alls haft okkur að ginningarfíflum.

Senn er áformað að fylla á Hálslón. Fyrirheit um auðlegð og velsæld eru hins vegar ekki í hendi.
Það var því ekki einu sinni svo, að verið væri að fórna náttúrunni fyrir stórkostlegan efnahagslegan ábata. Eins og stundum fyrr hafa menn látið glepjast - freistast af tálsýn. Ögmundur Jónasson,
höfundur er alþingismaður