FRÉTTABLAÐINU FLETT
Á leið minni til Marseille í Suður-Frakklandi, hafði ég íslensku blöðin til að fletta og lesa. Í öllum blöðunum gat að finna tilefni – stór og smá – til umhugsunar. Ég ætla að staðnæmast við nokkur slík úr Fréttablaðinu.
Á forsíðu fimmtudagsútgáfu Fréttablaðsins var okkur sagt frá því að eignir Símans hafi þrefaldast eftir söluna frá í sumar „í höndum nýrra eigenda.“ Við vitum að sjálfsögðu sem er, að fyrirtækið hefur ekki tekið nein slík stökk fram á við. Það er einvörðungu braskgildið sem hefur vaxið. Okkur er sagt frá nýjum skuldum fyrirtækisins og að skuldaaukningin nemi tugmilljörðum. En að sama skapi hafi verið braskað af miklum krafti og sé niðurstaðan sem sé þreföldun eigna.
Almenningur hlýtur að hugsa sitt. Þvílík himnasending þessi gullgæs hafi verið fyrir fjárfestingabraskarana. Það er segin saga að fái þeir verðmæta eign í hendur er leiðin greið til að margfalda hana kunni þeir á annað borð eitthvað fyrir sér á fjármálamarkaði. Stundum spyr ég sjálfan mig hvort braskararnir láti nokkurn tíma raunverulegar krónur og aura af hendi rakna. Getur verið að það séu aðeins lífeyrisþegar landsins sem blæði reiðufé? Er ekki hinn mannskapurinn fyrst og fremst að færa pappír á milli skúffanna? Fyrir ábyrgðarmenn lífeyrissjóðanna er þetta hrollvekjandi hugsun. Hún sækir á mig.
Á síðu 8 í fimmtudagsblaði Fréttablaðsins hittum við fyrir Steinunni Valdísi, borgarstjóra – ekki í frétt, heldur í auglýsingu! Í auglýsingu frá Reykjavíkurborg býður Steinunn Valdís upp á kaffi – „það er heitt á könnunni“, segir þar. Útsvarsgreiðendur í Reykjavík borga sem sagt kaffisopann hjá viðmælendum þessa kandidats í prófkjöri Samfylkingarinnar þegar hugsanlegir kjósendur koma til skrafs og ráðagerða í aðskiljanlegum hverfum borgarinnar. Er þetta rétt? Nei, mér finnst þetta aldeilis fráleitt og dæmi um mikið dómgreindarleysi.
Reyndar er milljónaausturinn í prófkjörsbaráttuna hrikalegur og spurningar vakna um hver borgi brúsann. Borgar Björn Ingi, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sem vill verða efstur hjá Framsókn í Reykjavík, sjálfur fyrir öll flettiskiltin og heilsíðuauglýsingarnar, geimskotin á netsíðurnar, eða eru það einhverjir aðrir sem borga? Eiga kjósendur ekki rétt á því að fá vitneskju um þetta? Er verið er að kjósa menn til áhrifa í stjórnmálum sem hugsanlega gerast, í gegnum kosningabaráttu sína, eign fjármálamanna?
Á síðu 12 í Fréttablaðinu segir frá fyrirlestri Ólafs Ragnars, forseta, hjá Sagnfræðingafélaginu um íslensku útrásina. Þar mærir forsetinn íslenska kapitalista og hrósar þeim í hástert. Útrásin byggir á „siðviti Íslendinga“, segir forseti Íslands. Hvaða siðvit er hér verið að tala um? Hvar var siðvitið þegar farið var suður eftir Balkanskaganum, reyndar með forsetann í för, að sölsa undir sig eignir fátækra Austur-Evrópuþjóða? Er það sama siðvitið, sem við fengum í gegnum fjölmiðlana að kynnast í veislum íslenskra peningabraskara í London nú um áramótin? Þegar spillingin var upp á sitt besta í Nígeríu herforingjaeinræðisins komust þarlendir menn ekki með tærnar þar sem Íslendingar hafa nú hælana.
Mér fannst notalegt að komast í vitalið við hana Ingibjörgu Ögmundsdóttur á síðu 32. Í fréttinni segir: „Hún segist „alltaf kjósa vinstri menn.“ „Ég er aldrei í neinum vafa um hvað ég á að kjósa. Ég er vinstra megin og kýs ekki Íhaldið“, segir hún ákveðið og má Samfylkingin því gera ráð fyrir atkvæði hennar í næstu kosningum.“ Það síðasta kom frá ómerktum blaðamanni Fréttablaðsins, ekki Ingibjörgu. Ég veit ekki hvað hún kýs en ég þykist vita að blaðamaðurinn, sem skrifaði þessa frétt kjósi Samfylkinguna en ekki VG, eina flokkinn á Íslandi sem skilgreinir sig sem vinstri flokk!