FRÉTTAMANNAFUNDUR Í ANKARA
Dagurinn í dag hefur verið annasamur hjá mér og sex félögum mínum í Ankara í Tyrklandi en hingað erum við komin til að tala máli Kúrda og mannréttinda almennt.
Dómsmálaráðherra Tyrklands hefur ekki svarað erindi um að hitta okkur að máli en slíka beiðni sendi ég honum hinn 21. janúar. Í bréfinu var vakin athygli einangrunarvist Öclans, leiðtoga Kúrda, en honum hefur verið haldið í einangrunarfangelsi í tuttugu ár, síðustu árin án nokkurra heimsókna.
Í dag hittum við annan tveggja formanna HDP flokksins, Lýðræðisfylkingarinnar, sem er flokkur Kúrda, Pervin Buldan og annan tveggja varaformanna, Hisyar Özsoy. (Sjá mynd að ofan.)
Við hittum einnig fulltrúa mannréttindasamtaka og verkalýðshreyfingar og var fróðlegt en jafnframt óhugnanlegt að hlýða á mál þeirra. Rúmlega fjórðungur úr milljón landsmanna situr innan fangelsismúra af pólitískum ástæðum en alls hafa um 800 þúsund einsataklingar verið sviptir fresli sínu eða það fresli takmarkað. Þannig kom á daginn að það fólk sem fór með okkur um í dag þurfi sumt hvert að tilkynna yfirvöldum um ferðir sínar, sumir vikulega, aðrir daglega og enn aðrir tvisvar á dag.
Ofsóknir á hendur verkalýðsfélögum eru kerfisbundnar og allir þeir sem undirrita áskorun um að hefja að nýju friðarferli milli stjórnvalda og Kúrda eiga fangelsisvist yfir höfði sér.
Enda þótt gagnrýnum fjölmiðlum hafi flestum verið lokað komu allnokkrir þeirra á fréttamannafund sem við efndum til í dag. Sjónvarpað var beint frá fundinum á tveimur miðlum að minnsta kosti en auk þess voru tekin upp viðtöl.
Á morgun höldum við til Diyarbakir í suð-austanverðu Tyrklandi en á þá borg er líta Kúrdar sem höfuðborg sína í Tyrklandi. Þar mun fjölga í sendinefnd okkar um tvo.
Þar munum við hitta fulltrúa mannréttindasamtaka, verkalýðssamtaka og stjórnmálasamtaka á morgun og fimmtudag. Á dagskrá okkar er að hitta Leylu Güven sem nú nálgast hundraðasta dag sinn í svelti til að mótmæla einangrun Öcalans og pólitískum fangelsunum í landinu. Leyla er einn helsti leiðtogi Kúrda og hefur verið í forystu fyrir mótmælasvelti sem breiðst hefur út í fangelsum í Tyrklandi á meðal Kúrda en einnig annars staðar í heiminum eins og ég hef áður greint frá.
Vaxandi spenna ríkir vegna mótmælasveltisins og eru ráðgerðir fjöldafundir í Diyarbakir á föstudag. Þann dag förum við til Istanbúl til frekari fundahalda.