Fríhöfn í þágu þjóðar
Birtist í Mbl. 28.04.2003
Keflavíkurflugvöllur er stærsta hliðið að landi okkar. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur alla tíð lagt áherslu á að þessi mikilvægi hluti af samgöngukerfi þjóðarinnar verði í almannaeign og lúti almannastjórn. Þingmenn flokksins töldu mjög óráðlega lagabreytingu sem núverandi ríkisstjórn gekkst fyrir um að gera flughöfnina í Keflavík að hlutafélagi. Væru menn á þeim buxum að markaðsvæða flughöfnina, bæri fremur að líta til þátta í innra starfi. Þar skyldu menn þó láta stjórnast af almannahagsmunum fremur en þröngum hagsmunum einstakra viðskiptafyrirtækja.
Fríhafnarverslunin, sem er í sameiginlegri eigu þjóðarinnar, veitir mjög góða þjónustu og ekki nóg með það, hún skilar okkur, eigendunum, miklum arði. Á síðasta ári nam velta Fríhafnarverslunarinnar þremur og hálfum milljarði króna og arðurinn nam hvorki meira né minna en 896 milljónum. Rétt rúmur hálfur milljarður af þeirri upphæð var látinn renna til Flughafnarinnar til rekstrar og niðurgreiðslu skulda, en eftir stóðu 386 milljónir króna. Munar um minna.Vandséð er að nokkur rök mæli með því að einkaaðilum séu afhentir þessir fjármunir almennings.
Fríhafnarsvæðið er ekki eins og hvert annað verslunarsvæði í landinu og sá sem höndlar þar með áfengi og annan ámóta varning er ekki eins og hver annar verslunareigandi. Hann hefur forgang umfram aðra. Eðlilegast er að slíkur aðili starfi á vegum okkar allra. Af hálfu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs stendur ekki til að taka þennan verslunarrekstur úr höndum ríkisins þótt því fari fjarri að við séum að amast út í annan verslunarreksur á svæðinu. Mikilvægt er að taka af öll tvímæli um þetta í ljósi blaðafrétta að undanförnu um að allir flokkar vilji Fríhafnarverslunina feiga og munu svör sem bárust frá VG hafa þótt orka tvímælis hvað þetta varðar. Svo kann að vera og er rétt að afstaða okkar komi skýrt fram nú fyrir kosningar.
Það er mikilvægt að þeir sem starfa við Fríhöfnina fái fast land undir fætur og að hætt verði að hringla með áform sem varða framtíð þeirra. Við viljum að um verkaskiptingu innan Fríhafnarinnar gildi skýrar reglur. Við mótun þeirra munum við beita okkur í þágu Fríhafnarverslunarinnar og starfsfólks hennar.
Ögmundur Jónasson og Kolbeinn Proppé