FRÍHÖFNIN BOÐIN ÚT – AÐFERÐAFRÆÐIN ALLTAF EINS - SVÍNVIRKAR SOFI ÞJÓÐIN SEM BARN Í VÖGGU
Undir aldarlokin síðustu og á fyrstu árum hinnar 21. aldar voru frjálshyggjumenn og Verzlunarráð eins og Viðskiptaráðið hét þá, iðið við að flytja inn kennimenn sem töluðu fyrir einkavæðingu. Þeir lögðu línurnar um hvernig ætti að bera sig að við að einkavæða innviði Íslands.
Boðorð dr. Piries
Í bók minni Rauða þræðinum fjalla ég talsvert um þetta skeið fyrir og eftir síðustu aldamót og þessa sendiherra gróðahyggjunnar. Í bókinni staðnæmist ég meðal annars við einn slíkan frá Adam Smith stofnuninni í London, en hann setti mönnum fyrir eins og kennurum er tamt. Í Rauða þræðinum segir:
«Með síðari skipunum kom doktor Pirie, skemmtilegur furðufugl en þó varla meiri furðufugl en gestgjafar hans. Hann setti ábendingar sínar fram sem boðorð og þótti mér það alltaf vel við hæfi í kynningu á kreddum peningafrjálshyggjunnar. Doktorinn var eins konar Móses markaðshyggjunnar og kenndu tólf boðorð hans að fara bæri gætilega að fólki, gera þetta allt saman rólega og í mörgum skrefum þar til skyndilega, viti menn, allt væri um garð gengið. Einkavæðing í höfn.” (Rauði þráðurinn bls. 27.)
Raforkan skýrt dæmi
Eitt kunnasta dæmið um aðferðafræði dr. Pirie er raforkan en í rúma tvo áratugi hefur hún verið á vinnsluborði Evrópusambandsins. Formúlan er þessi: Framleiðsla og sala á raforku skuli bútuð niður í viðráðanlegar markaðseiningar. Þannig skal búið í haginn fyrir einkavæðingu síðar meir. Á einhverju stigi skuli einingarnar gerðar að hlutafélögum, þar með er þeim komið undan samfélagsábyrgð og inn á markað sem lýtur lögmálum markaðsfyrirtækja. Þá eru þau líka kominn inn undir vængi markaðskerfis ESB og hægt að byrja að kæra fyrirtækin fyrir „markaðsmisnotkun“ og „óeðlilegan“ ríkisstuðning ef einhvers staðar skyldi finnast félagsleg taug í starfsemi þeirra. Af þessu eru Íslendingar þegar farnir að fá nasasjón því nýtilkomnir milliliðir á raforkumarkaði eru farnir að hafa uppi slíkan málflutning. Fleiri svið mætti að sjálfsögðu nefna um áhrif markaðsvæðigar. Þannig má til dæmis öllum ljóst vera hvernig búið er að leika póstþjónustuna.
En þessari vegferð ESB til uppstokkunar á raforkunni er engan veginn lokið þótt öll grunnvinnan sé langt komin. Samtökin Orkan okkar hafa verið ötul í baráttu gegn gróðavæðingu orkunnar, unnið mikið rannsóknar- og upplýsingastarf og hér á síðunni hafa reglulega birst skrif um þessa þróun og nefni ég þar sérstaklega greinar Kára sem kafað hefur í þessi mál dýpra en flestir aðrir og á fyrir vikið lof skilið.
Flugvellir Íslands settir á höggstokkinn árið 2019
En nú að Leifsstöð. Um aldamótin var félagið Isavia stofnað til utanumhalds um flugvelli Íslands og flugþjónustu almennt. Í anda ríkjandi hugmynda var Isavia við stofnun gerð að hlutafélagi. Þrátt fyrir hlutfélagavæðinguna voru hinir félagslegu þræðir engu að síður jafnan til staðar. Innlendi flugreksturinn var þyngri en millilandaþjónustan sem ofvöxtur hljóp í um og upp úr hruni. Gullmulningsvélin í Keflavík gat í þrengingum innlendu flugvallanna átölulaust komið þeim til bjargar með stuðningi ef því var að skipta. Sú leið var í það minnsta fær. Þetta þýddi hins vegar að einkavæðingin var ekki borðleggjandi. Hvaða fjárfestir vildi hafa Hornafjörð og Ísafjörð á sínu baki í slæmu ári?
Þetta er ástæðan fyrir því að árið 2019 var ákveðið að sundra starfsemi Isavia - undir hennar þaki að vísu en nú í sjálfstæðum rekstrareiningum : Fríhöfnin (sem áður hafði verið gerð að sérféagi), flugumferðarþjónustan og síðan innanlandsflugið. Flughafnarverslunin ákjósanleg markaðsvara, flugumferðarþjónustan sennilega líka þegar fram í sækir enda fjölþjóðlegir fjárfestar að ná henni undir sig víða, en innanlandsflugið í það minnsta enn um sinn ætlað að vera á ábyrgð skattborgarans.
Í anda boðorðanna
Þetta gerbreytti stöðunni. Nú þótti ófært með öllu að millifæra á milli rekstrareininga og í heimi fjárfestinganna fékk nú margur maðurinn vatn í munninn. En þeir sem stýrðu för voru ekki búnir að gleyma orðum dr. Pirie um að, «fara bæri gætilega að fólki, gera þetta allt saman rólega og í mörgum skrefum þar til skyndilega ... allt væri um garð gengið.» Minnugir boðorðanna sögðu stjórnmálamennirnir þess vegna,.. jú, jú við erum á leiðinni inn á markað til sölu eða útvistunar en við hvorki seljum né útvistum núna - það er að segja ekki alveg strax!
Sjá til dæmis hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/ekki-stefna-ad-selja-leifsstod-ad-svo-stoddu-en
Það var hins vegar svo að strax eftir hlutafélagavæðinguna var farið að tala um sölu eða útvistun, sbr. þessi skrif okkar Kolbeins Proppé (frá 2003 en á þeim tíma var VG mjög á vaktinni varðandi einkavæðingu innviðanna: https://www.ogmundur.is/is/greinar/frihofn-i-thagu-thjodar)
Ekki allir sáttir
Eftir að greint var frá uppskiptingu Isavia (til dæmis hér: https://www.visir.is/g/2019191119059) kom í ljós að uppi voru efasemdir. Hið furðulega er að fram kom í fjölmiðlum að eina efasemdarröddin um uppskiptinguna kom frá fulltrúa Framsóknarflokksins í stjórn Isavia. Hann lagðist gegn málinu í stjórn og leitaði stuðnings frá oddvitum stjórnarflokkanna. Í kjölfarið spurði ég hvers vegna enginn væri í markinu til að gæta hagsmuna almennings því nú var mér orðið ljóst að einnig VG var orðið þessu fylgjandi: https://www.ogmundur.is/is/greinar/isavia-er-enginn-i-markinu.
Heinemann í stað heimamanns
Við þessu bárust engin svör og nú kemur á daginn að útboð á rekstri Fríhafnarinnar, sem hófst fyrir um það bil ári síðan, hefur fært þessa gullgerðarvél í hendur þýskum/alþjóðlegum aðila. https://www.visir.is/g/20242652603d/rekstur-fri-hafnarinnar-seldur-ur-landi
Einhver snurða er enn á þræði vegna kærumála en gjörðin er söm. Heimamenn færa Heinemann gullgæsina og virðist það kalla á litla athygli fjölmiðla með undantekningu þó sbr. þessa úttekt en hér er að finna nokkra tengla sem vísa á fyrri umfjöllun um þetta efni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/varad-vid-ad-afhenda-fjarfestum-leifsstod
Svo er það konfektmolinn
Það þarf náttúrlega alltaf að fylgja eitthvert smá nammi með kaffinu að veislumáltíð lokinni. Isavia segir að einu megi menn treysta, nefnilega að Íslendingar muni finna áþreifanlega fyrir því að flugstöðin sé íslensk!
Auðvitað er þetta blekking sem við áður höfum fengið að kynnast. Til dæmis þegar Kaffitári var hent út svo og Optical studio, íslenskum frumkvöðli í gleraugnaþjónustu (afgreitt á staðnum meðan þú beiðst! ), þrengt að íslenska fyrirtækinu Epal, Arion banka vísað á dyr og erlendur banki látinn taka við, svo nokkur dæmi séu rifjuð upp um hvað gerðist eftir síðustu loforð um “íslenska Leifsstöð“.
Áfram veginn …
Unnið hefur verið markvisst að markaðsvæðingu Íslands. Nánast hvert sem litið er má sjá posavélarnar uppi á hendi milliliða sem spretta upp eins og gorkúlur. Þessari þróun er hins vegar stýrt á þann veg að henni vindi fram eins hljóðlega eins og unnt er og í anda boðorðanna 12 frá dr. Pirie um að „fara bæri gætilega að fólki, gera þetta allt saman rólega og í mörgum skrefum.“ Ekki megi vekja barnið sem sefur svo rótt.
Því miður er hætt við að ný ríkisstjórn, sem nú er í þann veginn að taka við, muni feta svipaða slóð og sú fyrri. Vandinn er sá að á Alþingi verður lítið um gagnrýnið aðhald eins og fyrri daginn reyndar.
Það aðhald verður því að koma utan úr þjóðfélaginu. Minnumst þess.
Á þessari síðu verður eftir sem áður haldið á lofti gagnrýnu aðhaldi og leyfi ég mér að hvetja lesendur að gerast áskrifendur að fréttabréfi sem ég sendi út nokkuð reglulega með efni af síðunni. Fréttabréfinu er fljóthent eftir að viðtakendur hafa sigtað út það sem þeim kann að þykja áhugavert að renna yfir:
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.