FRJÁLSHYGGJAN KANNIST VIÐ KRÓGANN SINN
Helga Lára Hauksdóttir, Hafsteinn Þór Hauksson, Sigurður Kári ásamt undirrituðum. |
Ungir sjálfstæðismenn efndu til fundar í Valhöll hádeginu í gær um frumvarp Sigurðar Kára Kristjánssonar alþingismanns um að nema úr gildi heimild til að birta skattskrár opinberlega. Þetta hefur lengi verið baráttumál ungra sjálfstæðismanna og hef ég oft furðað mig á því af hve miklum ákafa málið er sótt. Á fundinum sannfærðist ég um að þeir líta á þetta sem mannréttindabrot enda segir í greinargerð flutningsmanna, sem auk Sigurðar Kára eru ellefu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að veigamestu rökin að baki frumvarpinu séu þau "að telja verði að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti gegn rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs. Fjárhagsmálefni einstaklinga eru meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi sem eðlilegt og sanngjarnt er að fari leynt. Ljóst má vera að með framlagningu álagningar- og skattskráa fer fram birting á upplýsingum sem gefa glögga mynd af tekjum nafngreindra einstaklinga…"
Að mínu mati væri það mikið skref aftur á bak ef skattskránum yrði lokað enda lít ég á það sem spurningu um mannréttindi að þjóðfélagið hafi allt upplýsingar um það hvernig verðmætunum er skipt. Auk þess tel ég að það hafi talsvert aðhaldsgildi gagnvart bíræfnustu skattsvikurunum – þeim sem velta hundruðum milljóna, jafnvel milljörðum – en telja síðan fram það sem tíðkast að kalla "vinnukonuútsvar". Árlega er þessi mannskapur afhjúpaður í tímaritinu Frjálsri verslun, sem birtir okkur upplýsingar um þessi efni unga íhaldinu til mikillar armæðu.
Leynd er að færast í aukana á mörgum sviðum þjóðlífsins. Á því leikur enginn vafi.
Opinberar stofnanir eru gerðar að hlutafélögum og þar með er lokað á upplýsingar til almennings um málefni sem þó varða samfélagið allt. Nægir að minna á Símann. Eftir að Landssíminn var gerður að hlutafélagi var byrjað að braska með eignir hans af miklum móð. Töpuðust um fimm hundruð milljónir í einu ævintýrinu. Upplýsingar fengust þó treglega og skýldu menn sér á bak við hlutafélagalög. Allt átti nú að heita viðskiptaleyndarmál. Líka launamál toppanna.
Þá eru launamál hjá hinu opinbera í síauknum mæli að verða felumál, einnig gagnvart stéttarfélögunum. BSRB hefur þurft að beita hörðu til að fá aðgang að upplýsingum sem lágu á opnu borði fyrir aðeins fáeinum árum. Í skjóli launaleyndar inni á vinnustöðum þrífst síðan misréttið.
Bankarnir neita að gefa upplýsingar sem eru almenns eðlis og hefði verið talið sjálfsagt að veita hér fyrr á tíð. Þeir eru líka svo ljónheppnir að hafa bankamálaráðherra sem fer að vilja þeirra í einu og öllu (sjá nánar hér) en í gær upplýsti ráðherrann að engin ástæða væri að ganga eftir upplýsingum sem Samtök banka og verðbréfasjóða hefðu skilgreint sem einkamál!.
Samningaviðræðum við erlend ríki er einnig haldið leyndum, sbr. GATS viðræðurnar ( sjá m.a. hér). Þetta nefni ég sem enn eitt dæmið um leynisamfélagið sem verið er að koma á fót.
Síðast en ekki síst þá vinna bankar og fjármálastofnanir að því leynt og ljóst að auðvelda eignamönnum að fela eignir sínar. Þegar Landsbankinn opnaði starfsstöð á Guernsey í Ermasundi var ekki farið í grafgötur með tilganginn eins og fram kom í viðtali við Halldór Kristjánsson, bankastjóra í viðtali við Morgunblaðið í ársbyrjun árið 2000. Þegar þá var komið sögu námu eignir í sjóðum Landsbankans á Guernsey um þremur milljörðum króna. Þess má geta að Guernsey er eitt þeirra skattleysissvæða sem lengi hefur verið á svörtum lista hjá OECD fyrir að neita að uppfylla lágmarkskröfur um góða viðskiptahætti. „[Við vildum breikka alþjóðlega þjónustu okkar og gefa kost á lögsögu, eins og Guernsey, sem sérhæfir sig í að veita hagstæð skattaleg skilyrði til rekstrar,“ sagði bankastjórinn í viðtalinu. Einnig sagði hann bankaleyndina mikilvæga enda þekktu Landsbankamenn það frá Íslandi „…að margir einstaklingar vilja ekki að aðrir viti eitt eða neitt um þeirra stærri mál, af eðlilegum ástæðum.“ ….. (Um þetta viðtal fjallaði ég á sínum tíma hér).
Af hálfu Sigurðar Kára Kristjánssonar, Hafsteins Þórs Haukssonar, formanns SUS og annarra Sjálfstæðismanna sem tóku til máls á fyrrnefndum Valhallarfundi, voru tíunduð margvísleg rök. Eftirlitsbragur væri á þessum málum, borgurum sigað hvern á annan, upplýsingar um tekjur manna væru persónuleg mál en ættu ekki að vera opinber, slíkt þjónaði hnýsni og lágkúrulegri forvitni og æli á öfund. Vitnað var í norska könnun sem sýndi að börn lágtekjufólks hefðu orðið fyrir einelti í skólum eftir að upplýst var um bágborinn efnahag fjölskyldna þeirra. Veigamest þóttu mér þau rök að alltof oft vildi brenna við að upplýsingar væru rangar og auk þess væru iðulega skýringar á tekjum sem aldrei birtust með hráum tölunum. Þess vegna væri fólki oft gert rangt til.
Auðvitað þurfa upplýsingar að vera réttar. Það er mikilvægt en engu að síður er það tæknilegt úrlausnarefni fyrst og fremst og hefur ekkert með þá grundvallarafstöðu að gera hvort upplýsingar af þessu tagi eigi að vera einkamál eða opinberar. Opinberar segi ég: Tekjuskiptingin í þjóðfélaginu, skipting sameiginlegra verðmæta á að vera öllum opin og varðandi litlu börnin í Noregi þá er fyrst og fremst áríðandi að draga úr fátækt þeirra. Ekki þegja um hana. Markaðssamfélagið elur af sér misskiptingu og ranglæti. Talsmenn slíks samfélags verða að hafa þrek til að horfast í augu við afleiðingar slíkrar samfélagsskipunar, horfast í augu við eigið afkvæmi. Aðstandendur frumvarpsins segja reyndar að þeir hafi engar skrúplur yfir tekjuskiptingunni í samfélaginu – en hvers vegna skyldu upplýsingar um slík efni þá teljast til "viðkvæmustu persónuupplýsinga."
Annars voru fundarmenn rökfastir og skemmtilegir og gerðu grein fyrir máli sínu á ítarlegri hátt en hér er fært til bókar. Aðkomumanni var vel tekið þrátt fyrir skoðanaágreining.
Hér er slóðin á þingmál Sigurðar Kára Kristjánssonar en þar er að finna í greinargerð ítarlegan og vel unninn rökstuðning hans fyrir þingmálinu. Vinnan er vönduð en málstaðurinn afleitur. Sjá HÉR.