Stöðugt er hamrað á því að þetta og hitt sé verið að gera í nafni Sameinuðu þjóðanna. Yfirleitt er þá verið að vísa í samþykktir Öryggisráðsins. Þar sitja fulltrúar 15 ríkja, 5 gamalgróinna hervelda og síðan er ákveðin dreifing á mismunandi heimssvæði. Í þessum félagsskap hefur Bandaríkjunum oftar en ekki tekist að þröngva fram sínum vilja. Þannig tókst að knýja fram vilja til árásar á Írak í árslok 1990 og í kjölfarið fá samþykkt í Öryggisráðinu viðskiptabann á landið. Ramsey Clark, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur rakið hvernig þessum ákvörðunum var þröngvað fram með hótunum og mútum ( sjá bókina The Fire This Time eftir Ramsey Clark og Calling the Shots: How Washington Dominates Today´s UN, eftir Phyllis Bennis). Það segir sína sögu að þegar ákvörðun um árásina á Írak var tekin á fyrri hluta árs 2003 þótti málstaðurinn svo slæmur að ekki tókst Bandaríkjastjórn að þröngva Öryggisráðinu að samþykkja þá gjörð.
En hvað þá með raunverulegan meirihlutavilja hjá Sameinuðu þjóðunum? Hann hefur alla tíð verið algerlega á móti hernaðarofbeldi Bandaríkjanna! Í nóvember 1998, eftir að öllum var orðið löngu ljóst að viðskiptabannið á Írak hafði leitt til dauða mörg hundruð þúsund manna, einkum barna og veikburða fólks, þannig að nánast allar stofnanir Sameinuðu þjóðanna börðust gegn banninu, svo sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, og hver stjórnandi mannúðarhjálpar á vegum SÞ í Írak á fætur öðrum sagði af sér í mótmælaskyni, var borin fram ályktunartillaga á Allsherjarþingi SÞ þar sem hvatt var til að ríki beiti ekki einhliða þvingunaraðgerðum ef þær stríði gegn grundvallarmannrréttindum og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Tillögunni var augljóslega beint gegn viðskiptabanninu á Írak.
Í fyrsta lið tillögunnar er efnisinnihald hennar skilgreint í þá veru sem að ofan greinir. Þennan lið tillögunnar birti ég hér á ensku en þar er hvatningin skilgreind: ,,Urges all States to refrain from adopting or implementing any unilateral measures not in accordance with international law and the Charter of the United Nations, in particular those of a coercive nature with all all their extraterritorial effects, which create obstacles to trade relations among States, thus impeding the full realization of the rights set forth in the Universal Declaration of Human Rights Resolution and other international human rights instruments, in particular the right of individuals and peoples to development.``
Þetta var ályktunartillaga sem var ekki bindandi en viljayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna engu að síður. Hún var samþykkt. 104 ríki greiddu atkvæði með tillögunni, 44 voru andvíg og 10 sátu hjá. Á meðal þeirra ríkja sem greiddu atkvæði gegn þessari tillögu var Ísland.