Fara í efni

FRUMKVÖÐLASTARF Í FERÐAÞJÓNUSTU


Það er ánægjulegt að ferðast um landið og sjá hve mjög ferðaþjónustan hefur verið að sækja í sig veðrið á undanförnum árum. Þrátt fyrir mótbyr vegna stóriðjustefnu stjórnvalda, sem skapað hefur ferðaþjónustunni mjög óhagstæð skilyrði hafa frumkvöðlar á því sviði seiglast áfram og bjóða nú upp á margvíslega þjónustu sem ekki var til staðar fyrir aðeins fáeinum árum. Þá hafa söfn og veitingastaðir tekið miklum framförum. Menn vita sem er að ef menn ætla að pluma sig verða þeir að geta boðið upp á það besta. Nýlega fór ég í nokkurra daga ferð um norð-vestanvert landið en á því svæði er að finna fjölmörg afar vönduð söfn og og sýningar. Má þar nefna Byggðasafnið að Reykjum í Hrútafirði, Selasetrið á Hvammstanga, Heimilis- og hannyrðasafnið á Blönduósi, Vesturfarasetrið á Hofsósi, Síldarminjasafnið á Siglufirði, Byggðsafnið í Glaumbæ að ógleymdum sjálfum Hólastað, höfuðstað Norðlendinga um aldir. En í ár er einmitt minnst 900 ára afmælis biskupsstólsins. Fleiri mætti nefna.
Þá er boðið upp á margvíslega afþreyingu og standa Skagfirðingar þar framarlega, ef ekki fremstir í flokki með fljótasiglingunum á jökulfljótunum sem þeir státa af. Fljótasiglingarnar eru stórkostleg upplifun. Um það get ég borið vitni.

Ótrúlegt er að hugsa til þess að allir stjórnmálaflokkar aðrir en VG skuli hafa verið (og eru enn?) tilbúnir að fórna þessum náttúruperlum sem skagafirsku jökulárnar svo sannarlega eru, á altari stóriðjunnar.
Eins og menn rekur eflaust minni til var Skagafjörðurinn einn viðkomustaður þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur þegar hún í fyrra fór í makalausa kynningarferð sína með fulltrúum álfyrirtækja til þess að falbjóða íslenskar náttúruperlur. Aðrir kostir urðu síðan fyrir valinu hjá álrisum að þessu sinni. Ekki var það ráðherra Framsóknarflokksins að þakka að Skagfirðingar sluppu undan álhramminum.
Þrátt fyrir þetta virtist ekkert slá á ál- og virkjunaráfergjuna hjá mörgum skagfirskum pólitíkusum og hagsmunaöflum. Er óhætt að fullyrða að ef ekki hefði notið við staðfastrar baráttu VG í Skagafirði væru vikjunaráformin í Jökulsánum komin vel á veg. Og þar með væri framtíð fljótasiglinganna í uppnámi. En a.m.k. vannst tímabundinn sigur og án efa hefur þessi einarða barátta minna ágætu VG félaga í Skagafirði fyrir verndun náttúruperla sinna stuðlað að hugarfarsbreytingu. Hvort hún nægir þegar VG er komið í minnihluta eins og því miður gerðist í nýafstöðnum kosningum í Skagafirði skal ósagt látið.

Myndin að ofan er frá Varmahlíð í Skagafirði þar sem Hestasport býður upp á gistingu í notalegum sumarhúsum með aðgangi að vel hlöðnum og vel heitum potti þar sem ferðalangurinn getur látið líða úr sér.