Fara í efni

FULLVELDIÐ ER EKKI KAKA EÐA HVAÐ?

Í fréttum Ríkissjónvarpsins kom fram áhugi á því að Íslendingar leggi sæstreng til að tengja okkur raforkumarkaði Evrópu og einnig að við undirgöngumst forræði ACERs, efirlitsstofnunar Evrópusambandsins með raforkumarkaði. Og notabene, það er hann, markaðurinn sem sviptir okkur fullveldinu. ACER á að fylgjast með því að við hlítum í einu og öllu regluverki markaðarins. Í þessu samhengi á boðvald stofnunarinnar að taka til okkar. Í hennar orðabók er ekki að finna hugtakið fullveldi.

Fyrir fyrra sjónarmiðinu, mikilvægi sæstrengs, talaði forstjóri Landsnets í fréttatímanum og hinu síðara, að fullveldinu væri vel borgið undir væng ACERS, talaði  dósent í lögfræði við Háskólann í Reykjavík.

Íhugum röksemdir þeirra. .

Forstjóri Landsnets segir mikið öryggismál fyrir Íslendinga að vera tengdir Evrópumarkaði, hann nefndi Breta sérstaklega, ef slíkar hamfarir yrðu á Íslandi að raforkumannvirki eyðileggðust. Nokkuð kann að vera til í þessu en varla mjög mikið. Liltlar líkur eru á því að landið allt leggist í rúst í einu í svo hrikalegum hamförum sem þá væntanlega gengju yffir landið allt og þá spurning hvort mannfólkið yrði ekki horfið á undan mannvirkjunum. Spyr sá sem ekki veit. Getur verið að hér sé seilst nokkuð langt af hálfu þeirra sem eiga sér þann draum að komast á evrópskan raforkumarkað í kompaní við þau sem líta á orku sem hverja aðra vöru sem selja megi dýrt eða ódýrt aftir atvikum og aðstæðum. Í Evrópu er prísinn á þessari vöru dýrari en hér gerist. Það þýðir að íslenskur kaupandi yrði að greiða meira á sameiginlegu markaðstorgi raforkunnar en seljandinn gæti hins vegar fengið meira fyrir sinn snúð. Þar með er kominn enn einn hvatinn inn í orkuframleiðslukerfið, því meira sem virkjað er þeim mun betra. Svo er að heyra að Landsvirkjun og Landsnet vilji þennan kost. Gullfossi og Dynjanda er hins vegar lítið um hann gefið.    

Varðandi valdaafsal var reynt að sefa okkur og sagt að samþykkt þriðja orkupakkans myndi engan veginn skerða fullveldi okkar. Fullveldi væri einmitt í því fólgið að geta sem sjálfstætt ríki gert samninga við erlend ríki eða ríkjasamsteypur. Sumir virtust haldnir þeirri firru og ranghugsun, sagði lagaspesíalistinn, að fullveldi væri eins og kaka sem sneidd væri niður og gengi á fullveldið eftir því sem sneiðarnar væru borðaðar þannig að á endanum hyrfi það líkt og kakan gerði ofan í maga okkar. Er þetta nú ekki svoldið langsótt samlíking? Snýst ekki málið um hvað samningar ganga út á, hvert innihaldþeirra er? Ef við undirgöngumst valdheimildir ACER, raforkustofnunar Evrópusambandsins þá náttáurlega höldum við ekki því forræði sem við afsölum okkur í hennar hendur.

Ef til vill er kökukenningin því ekki alvitlaus, jafnvel þótt fullveldi sé ekki kaka.