Fara í efni

FUNDAÐ Í AÞENU: EFNAHAGSÞRENGINGAR, NIÐURSKURÐUR OG VÍMUEFNAVARNIR

Pomp - Evrráð
Pomp - Evrráð

Í vikunni sótti ég áhugaverðan fund í Aþenu í Grikklandi. Fundurinn var á vegum svokallaðs Pompidou hóps Evrópuráðsins en það er samstarfsvettvangur 47 ríkja - ekki einvörðungu Evrópuríkja þó að evrópsk séu þau flest  -  um vímuefni og vímuefnarannsóknir.
Sjá: http://www.coe.int/t/dg3/pompidou/default_en.asp

 Í ljósi efnahagsþrenginga víða um lönd horfir þessi hópur, sem samanstendur einkum af stefnumótandi  sérfræðingum, til ríkja sem hafa þurft að skera útgjöld sín niður og leikur þá forvitni á að vita hvernig tekið hefur verið á heilbrigðismálum og vímuefnavörnum sérstaklega þegar niðurskurðarsveðjunni hefur verið beitt og í framhaldi hvaða lærdóma megi af þessu draga.

Það var engin tilviljun að kreppulandið Grikkland varð fyrir valinu sem fundarstaður og ekki var það heldur einskær tilviljun að ég sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra á Ísland í kjölfar efnahagshruns, var beðinn að um flytja erindi um efnahagsþrengingar og niðurskurð.

Fundurinn var hinn áhugaverðasti. Nokkur erindi voru flutt, farið yfir lög, reglur og sáttmála sem snúa að réttindum fíkniefnaneytenda. Spurt var hvort einstaklingur sem ánetjast hefur eiturlyfjum eigi  rétt á sömu heilbrigðisþjónustu og annað fólk. Og enn fremur, þegar forgangsraða þarf í heilbrigðisþjónustunni, hafa vímuefnaneytendur sömu réttarstöðu og aðrir? Svarið var afdráttarlaust. Innan  heilbrigðisþjónustunnar standa allir jafnir. Mannréttindin eru allra manna. Kaldhamraður veruleikinn kennir engu að síður að þessara spurninga er spurt og að þeim þarf að svara.


Sérstaklega fróðlegt var að heimsækja hjálparmiðstöðvar í Aþenu annars vegar þar sem unnið var grasrótarstarf - m.a.  á götum úti -  og hins vegar eins konar stjórn- og samhæfingarstöð fyrir slíka starfsemi. Okkur lék m.a.  forvitni á að vita hver væri menntun og bakgrunnur starfsmanna. Í ljós kom að starfsfólkið hafði góða menntun og sjálfboðaliðar sem þarna voru virkjaðir, voru flestir í námi sem tengdist viðfangsefninu svo sem sálarfræði og  ýmsum greinum félagsfræðinnar.  Einnig voru fyrrum vímuefnaneytendur þátttakendur í  þessu starfi.
En - og það er stóra ennið - til að ná góðum tengslum við fíkniefnaneytendur, þá var okkur sagt að ekki væri nóg að hafa góða þekkingu og menntum, menn urðu að búa yfir ósviknum áhuga og virðingu fyrir viðfangsefninu. Menn höfðu lært að starfa samkvæmt mottói sem frá hinum þurfandi var sprottið: We don´t care what you know, but we know when you care.

Önnur saga af vettvangi: Gríska lögreglan er sökuð um að sýna starfi hjálparsveita lítinn skilning, hvað þá fíklunum sjálfum. Bandarískt rannsóknarteymi vildi ganga úr skugga um hvort þetta væri rétt, fór til Grikklands og út á götur Aþenu. Og viti menn, teymið var handtekið og látið berhátta á lögreglustöðinni. Þegar menn þar á bæ höfðu áttað sig á hvað gerst hafði, hófust miklar afsakanir þar sem lögreglan reyndi  að vinda ofan af mistökunum. En hver voru viðbrögð grasrótarsamtakanna, reiði, hefndarhugur? Nei, stungið var upp á því að halda námskeið fyrir lögregluna! Með öðrum orðum, í stað þess að reiðast og hneykslast var horfst í augu við þennan veruleika og reynt að finna leiðir til betrumbóta , láta þetta verða til góðs!

Eftirminnilegur var Maríus. Fyrrum fíkill sem kominn var með eyðniveiruna. Hann sagði okkur frá sinni „endurreisn". Hann hafði gengið langa þrautagöngu þar til hann komst í tæri við grasrótarsamtökin sem við heimsóttum. Í stað þess að lesa yfir honum og skipa honum fyrir eins og jafnan hafði verið viðkvæðið,  var honum gerð grein fyrir því að valið væri hans og ekki nokkurs annars. „Þannig frelsaðist ég", sagði Maríus, eða öllu heldur var ég „ leystur úr ánauð"; með því að gera mig meðvitaðan um eigið val,  gat ég nú  farið að vinna með sjálfan mig. Þessi einstaklingur sótti seinni hluta námskeiðsins og tók þátt í umræðunni um stefnumótun. Hann sagði að fyrir sig væri þetta mikil upplifun. Hann hefði farið í ótal viðtöl við blöð og útvarpsstöðvar um eigið hlutskipti. Aldrei fyrr hefði sér verið sýnd sú virðing að leita hjá sér ráða af hálfu stefnumótandi aðila.

Þetta þótti mér m.a. vera meðmæli með starfi Pompidou hópsins sem að mínu mati vinnur mjög merkilegt starf. Þótti mér gott til þess að vita að fulltrúi íslenskra heilbrigðisyfirvalda stóð þarna vaktina, Rafn Jónsson, sem hefur með þennan málaflokk að gera hjá Embættti Landlæknis. Hafði hann margt athyglisvert fram að færa á fundinum og kemur auk þess án efa hlaðinn upplýsingum að ógleymdum góðum tengslum við marga helstu sérfæðinga á sviði vímuefnavarna í Evrópu.

Síðar set ég inn nánari tengingar inn á framangreindan fund.