Gabriel Garcia Màrquez beinir orðum til Bush
Hinn heimsfrægi rithöfundur Gabriel Garcia Màrquez hefur ritað George Bush Bandaríkjaforseta áhrifamikið bréf sem ég birti hér í lauslegri endursögn Gunnars Grettissonar en þannig vill þýðandinn í hógværð láta orða snörun textans yfir á íslensku. Gabriel Garcia Màrquez hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1982. Hann er fæddur í Kolumbíu 6. mars árið 1928, lögfræðingur að mennt, stundaði blaðamennsku heima og heiman (Róm, París, Mexíkó og víðar) en bókmenntastörf hóf hann á fimmta áratugnum, fyrst sem smásagnahöfundur og síðar skáldsagnahöfundur. Ekki leikur nokkur vafi á að Gabriel Garcia Màrquez er einhver áhrifamesti rithöfundur heims og þykja orð hans jafnan vega þungt í þjóðfélagsumræðu. Ekki þarf frekar vitnanna við því eftrifarandi bréf ber þessu vott.
Bréf frá Gabriel Garcia Màrquez til Bush:
Hvernig er tilfinningin? Hvernig líður manni að sjá hryllinginn æða af stað heima í garðinum hjá sér en ekki hjá nágrannanum? Hvernig líður manni með ugg í brjósti, skelfingunni sem ærandi hávaði fæðir af sér, taumlausum hrópum, byggingum sem breytast í rústir og þessum hræðilega ódaun sem nær alla leið niður í botn á lungunum og hinum saklausu sem fara hjá með augun blóði drifin og rykug? Hvernig þraukar maður af einn dag í húsi þínu óöryggið vegna þess sem yfir dynur? Hvernig kemst maður út úr því ástandi sem er taugaáfall? Í losti reikuðu þeir sem lifðu af í Hiroshima 6. ágúst 1945. Ekkert var uppistandandi í borginni eftir að bandaríska flugvélin Enola Gay hafði látið sprengjuna falla. Á fáeinum sekúndum dóu 80.000 karlar, konur og börn. Önnur tvöhundruð og fimmtíu þúsund dóu á næstu árum vegna geislunar. Reyndar var þetta fjarlægt stríð og enn var sjónvarpið ekki komið til sögunnar.
Hvernig er líðanin þegar hryllingurinn sem hinar hræðilegu myndir sjónvarps segja þér að þetta sem gerðist hinn örlagaríka dag 11. september gerðist ekki í fjarlægu landi, heldur í þínu föðurlandi? Annan 11. september, raunar fyrir 28 árum síðan dó forseti sem hét Salvador Allende þegar hann leitaðist við að verjast stjórnarbyltingu sem þínir herstjórar höfðu skipulagt. Einnig þá voru tímar hryllings en þetta átti sér stað langt frá þínum landamærum í lítt þekktu lýðveldi í Suður-Ameríku. Mannlæpurnar í þínum ranni, sem þóttust lýðræðissinnar og þú,- þið voruð hvorki áhyggjufullir né daprir þegar hermenn þínir fóru um með blóðugum brandi til þess að sýna hvað það væri sem þið vilduð.
Veistu að á árabilinu milli 1824 og 1994 hefur land þitt staðið fyrir 73 innrásum í löndum hinnar latnesku Ameríku? Fórnarlömbin hafa verið Puerto Rico, Mexíkó,
Níkaragúa, Panama, Haiti, Kolombia, Kúba, Honduras, Dóminíska lýðveldið,
Jómfrúreyjar, El Salvador, Guatemala og Grenada. Það er nærri því öld sem stjórn þín hefur átt í stríði. Frá byrjun 20. aldar er varla nokkurt stríð sem herstjórar þínir í Pentagon hafa ekki átt beina aðild að. Það er ljóst að sprengjurnar hafa alltaf fallið utan þinna landamæra og er Perluhöfn þar eina undantekningin þegar japanski flugherinn gerði sprengjuárás á sjöunda flota Bandaríkjanna. Raunar var hryllingurinn alltaf fjarri.
Þegar tvíburaturnarnir hrundu huldir rykskýi, þegar þú horfðir á myndirnar í sjónvarpi og hlustaðir á skelfingarópin, af því að þennan morgun varst þú á Manhattan hugsaðir þú þá eitt andartak um það sem bændur í Víetnam máttu þola mörg löng ár? Á Manhattan féll fólk til jarðar úr mikilli hæð úr skýjakljúfunum rétt eins og leikbrúður í sorgarleik. Í Víetnam glumdu við skelfingaróp fólks vegna þess að óslökkvandi napalm hélt áfram óstöðvandi að brenna hold fórnarlamba og dauðinn var skelfilegur, eins skelfilegur og dauði þeirra sem stukku í örvæntingu út í hyldýpið.
Flugher þinn hefur komið því til leiðar að í Júgóslavíu er ekki ein verksmiðja uppistandandi né heldur brú. Í Írak var fjöldi þeirra sem létust 500.000. Hálf milljón manns lét lífið í herförinni sem nefnd hefur verið ,,Eyðimerkurstormur”. Hversu margt fólk hefur látist, blætt út, er limlest, hefur brunnið, burthrakið frá heimilum sínum og í stöðum fjarlægum og framandi á borð við efrirfarandi lönd: Víetnam, Írak, Íran, Afganistan, Líbíu, Angola,
Sómalíu, Kongo, Níkaragva, Dóminíska lýðveldið, Kambódíu, Júgoslavíu og
Súdan. Er upptalningin ekki endalaus? Í öllum þessum löndum hafa sprengjurnar sem sprungu verið framleiddar í þínu landi og það voru synir lands þíns sem vörpuðu þeim og þeir voru á mála hjá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna til þess eins að þú gætir haldið áfram með þinn AMERICAN WAY OF LIFE. Það er næstum því öld sem land þitt hefur átt í stríði við allan heiminn. Og það skrýtna er að stjórn þín hefur ávallt sleppt lausum hinum skelfilegu riddurum opinberunarbókarinnar í nafni frelsis og lýðræðis. Reyndar þyrftir þú að vita að fyrir margar þjóðir heims (á þessari reikistjörnu deyja daglega 24.000 manns úr hungri eða ólæknandi sjúkdómum) eru Bandaríkin ekki tákn frelsis, heldur tákn skelfilegs fjarlægs óvinar sem sáir hvar sem hann kemur fræjum stríðs, hungursneyðar, ótta og eyðileggingar. Stríð hafa alltaf verið þér fjarlæg, en þeim sem þar búa eru þetta raunverulegar og nálægar þjáningar, stríð þar sem byggingar hrynja undan sprengjunum og fólk hlýtur hræðilegan dauðdaga. Níutíu prósent fórnarlamba eru óbreyttir borgarar, konur , gamalmenni og börn. Og svo eru það hliðarverkanirnar. Hvernig líður þér þegar skelfingin knýr dyra hjá þér þó að það sé aðeins einn dag? Hvað hugsar maður þegar fórnarlömbin í New York eru ritarar, starfsmenn í kauphöllinni eða ræstitæknar sem alltaf hafa borgað skattana sína og hafa ekki drepið svo mikið sem flugu? Hvernig skynjar maður þá hryllinginn? Hvernig skynjar maður hryllinginn þarna hjá þér yankee vitandi það að langt stríð frá 11. september er komið heim til þín til að vera?