GÆFULJÓS YFIR HAFNARFIRÐI
Ekki er séð fyrir endann á því ferli sem þáverandi ríkisstjórn setti af stað með því að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga með því skilyrði að einkaaðili keypti hlutinn. Þar með var Fl group og aðrir fjárfestar komnir inn að orkulindum landsins. Á sama tíma og þetta gerðist var Orkuveita Reykjavíkur hlaupin í einkavæðingargírinn og forstjórar þar komnir með Enron/græðgis-vírusinn í blóð og merg.
Undir forystu Svandísar Svavarsdóttur, oddvita VG í Reykjavík, hefur verið unnið að því að vinda ofan af ruglinu og hillir nú undir betri lausnir en til þessa hefur borið upp á sjóndeildarhringinn. Í Hafnarfirði hefur félagshyggjan einnig verið að taka við sér þótt áhersla skuli lögð á að þar á bæ hefur VG ætíð haldið vöku sinni. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir hefur þar staðið í stafni og er ástæða til að þakka henni og samherjum fyrir varðstöðuna um almannahag.
Hafnfirðingar hafa nú sagt að þeir vilji öðlast hlut í Orkuveitu Reykjavíkur og ganga þar með til samstarfs við OR í orkumálum. Með þessu eru Hafnfirðingar að leggja áherslu á að þeir vilji að orkumál verði algerlega á hendi opinberra aðila og er það pólitísk afstaða sem VG og Samfylking sameinast um. Þetta er að mínum dómi mikilvæg ákvörðun og vonandi vegvísir inn í framtíðina.
Vonandi mun Samfylkingin í Hafnarfirði íhuga stuðning við tillögur sem Guðrún Ágústa hefur borið fram fyrir hönd VG í Hafnarfirði um umfangsmiklar úrbætur á sviði velferðar-, skipulags- og umhverfismála. Samfylkingin í Hafnarfirði hefur nú samþykkt að flestar þessar tillögur fari til skoðunar i nefndum og ráðum bæjarins og verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála.
Sjá HÉR tillögur VG í Hafnarfirði.