GÆTI REKIÐ MANN FYRIR AÐ HAFA ÁSKRIFT AÐ STÖÐ 2
Í DV má lesa að sölumaður hjá bílaumboði hafi verið rekinn fyrir að kaupa sér bíl frá öðru umboði, eða með öðrum orðum, frá samkeppnisaðila. "Ég var kallaður inn á teppið hjá forstjóranum og hreinlega rekinn fyrir að hafa keypt mér bíl sem annað umboð flytur inn," segir sölumaðurinn fyrrverandi í samtali við DV. Getur það verið að starfsmenn RÚV verði reknir fyrir að hafa áskrift að Stöð 2 eftir að ríkisstjórnin hefur hlutafélagavætt þá ágætu stofnun? Ekki svo að skilja að ég sé beint trúaður á að svo verði, en það er rétt að halda því til haga að allt aðrar reglur og hefðir eru hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga hvað varðar rétt starfsmanna en hjá fyrirtækjum á markaði. Útvarpsstjórinn nýi, Páll Magnússon, talar mikið og ákaft fyrir því að RÚV verði gert að hlutafélagi en það gerir hann nánast einráðan yfir mannahaldi í stofnuninni og mun hann geta rekið og ráðið starfsmenn að vild – þess vegna fyrir að hafa áskrift að Stöð 2.