Gagnrýni á RÚV
Sjónvarpinu hefur oft verið legið á hálsi fyrir að leyfa svokallaða kostun en það hugtak er haft um dagskrárgerð sem að meira eða minna leyti er kostað af fyrirtækjum. Sú hætta er jafnan fyrir hendi að sá sem kostar efnið hafi jafnframt áhrif á umfjöllun og efnistök viðkomandi þáttar. Þar með eru peningarnir farnir að stýra dagskrárgerðinni, nokkuð sem flestir vilja forðast alla vega þeir sem er umhugað um frjálsa fjölmiðlun. Auglýsingasjónvarp á að mínum dómi að bjóða upp á afmarkaða auglýsingatíma en hvergi blanda auglýsingum og þáttagerð saman. Í dag birtist hér á síðunni bréf frá Ólínu sem lesendum þessarar síðu er góðkunn. Hún er venju samkvæmt ómyrk í máli og gagnrýnir m.a. sjónvarpsþátt sem sýndur var í gærkvöldi í RÚV undir heitinu Á ferð og flugi um Suður-Afríku. Ólína segir að þarna hafi verið um að ræða "langa auglýsingamynd í dagskrárefnislíki". Þetta eru þung orð. Svo þung reyndar að niðurstaða Ólínu er að Sjónvarpinu sé ekki við bjargandi og ekkert um annað að gera en að skilja það frá RÚV og selja síðan með húð og hári. Ekki skrifa ég upp á þetta. Því fer fjarri. En hinu er ég sammála Ólínu um að á Ríkisútvarpinu hvílir mikil ábyrgð. Og mér finnst full ástæða fyrir forsvarsmenn RÚV að svara gagnrýni af því tagi sem hér kemur fram. Það er hins vegar aðeins eitt svar sem myndi skiljast: Að hætta þegar í stað hvers kyns kostun á sjónvarpsefni. Þessari kröfu er hér með komið á framfæri. Fylgst verður með viðbrögðunum. Mér segir hugur um að ef ekkert verður að gert muni mótmæli gegn kostun verða meiri og háværari en nú er.