Fara í efni

GAGNRÝNIN Á HEIMA HJÁ RÍKISSTJÓRN, EKKI SEÐLABANKA


Alltaf finnst mér hópsefjun jafn merkilegt fyrirbrigði. Óneitanlega ógnvekjandi því í hópsefjun étur hver upp eftir öðrum gagnrýnislaust.  Nú beinist sefjunin gegn Seðlabankanum og stjóranum þar, Davíð Oddssyni.  Allt illt á að vera honum að kenna.
Ekki verður sagt um mig að ég hafi verið sérstakur stuðningsmaður Davíðs Oddssonar í pólitík og efnahagsmálum í gegnum tíðina og gegn stefnu Seðlabankans er ég búinn að hamast svo lengi sem ég man eftir mér, eða allar götur frá því ég komst til pólitískrar meðvitundar. Ég hef nefninlega talið Seðlabankann ganga alltof langt í trú sinni á vextina sem læknistæki gegn þenslu í efnahagslífinu. Á þenslutímum hefur Seðlabankinn jafnan gripið til þess ráðs að hækka vexti  ótæpilega til að freista þess að slá á eftirspurn eftir lánsfjármagni og þar með umsvifum í þjóðfélaginu.
Sá hængur hefur verið á þessu ráðslagi að ekki hefur verið látið sitja við að hækka vexti  á nýjum lánum heldur hafa vextir verið hækkaðir  á öllum lánastabbanum, á lánunum sem tekin voru í gær og í fyrra og fyrir tuttugu árum. Þetta hafa bankarnir gert með sína verðtryggingu og breytilegu vexti sem þeir hafa getað fært upp og niður að eigin geðþótta.
Hvað skal þá til bragðs taka? Í mínum huga er verkefnið að finna leið til að slá á þensluna án þess að refsa öllum gömlu lántakendunum. Og tækið sem þá mætti hugsa sér? Það tæki heitir skynsemi. Ég hef jafnan talað fyrir því að leggja orku í að ræða við þjóðina á skynsemisnótum. Þjóðin hefur sýnt að hún tekur rökum, sérstaklega við erfiðar aðstæður. Þjóðarsáttin svokallaða  frá 1990 er til marks um það. Ekki svo að skilja að Seðlabankinn hafi ekki reynt að beita þessu úrræði en þá helst gagnvart stjórnvöldum sem á undanförnum árum hafa verið vöruð við því að þenja upp hagkerfið einkum með stóriðjustefnu sinni. Við þessum ráðleggingum hefur verið daufheyrst og á það við um ríkisstjórnir undir forsæti Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og Geirs H. Haarde.
Nú er löngu hætt að reyna efna til þjóðarsáttar á Íslandi. Nú er það einfaldlega hundsað þegar fulltrúar launafólks brydda upp á slíku. Það er helst að Morgunblaðið sýni slíku áhuga! Efnahagsúrræði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar felast hins vegar  í því að skamma erlenda álitsgjafa og Seðlabankann, ekki bara fyrir vaxtastefnu bankans heldur líka fyrir spár sem hann hefur leyft sér að setja fram. Þá er talað af talsverðri vanþekkingu en jafnframt ótrúlegum hroka og rembingi um nauðsyn þess að fá fagmenn til starfa hjá bankanum  og er svo að skilja að þá muni allt lagast.
Af þessu tilefni er ástæða til að nefna eftirfarandi:
1) Hjá Seðlabankanum starfa herskarar  prýðilegra sérfræðinga sem vinna að rannsóknum, skýrslugerð, spám og  stefnumótun bankans.
2) Sú vaxtastefna  sem Seðlabankinn fylgir er ákvörðuð með forskrift í lögum sem Alþingi setti. Með breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands frá 2001, voru úrræði hans takmörkuð stórlega frá því sem áður var og nánast einskorðuð við vaxtabreytingar. Þetta var samþykkt af sömu aðilum og nú margir hverjir virðast ekki vilja kannast við sömu forskrift.
3) Ástæða er til að gera  skýran greinarmun annars vegar, á nagginu sem við heyrum nú þessa dagana og virðist oftar en ekki illa ígrundað, og hins vegar málefnalegri gagnrýni sem á undanförnum árum hefur stundum verið sett fram á stefnu Seðlabankans, þau lög sem hann starfar samkvæmt, hvernig staðið var að einkavæðingu fjármálakerfsins samhliða opnun sem fylgdi alþjóðavæðingunni og síðan aðhaldsleysi í kjölfarið. Sú gagnrýni á að mínum dómi fyllilega rétt á sér. 

Sú spurning gerist áleitin hvort ekki væri athugandi að stjórnmálamenn, fræðimenn og fjölmiðlamenn hefji sig upp úr múgsefjunarfarinu og beini gagnrýni sinni þangað sem hún á heima: Til ráðherranna sem allt annað vilja hugsa um en sitt eigið land og flögra nú út og suður á einkaþotum til að horfa á íþróttaleiki, spjalla um viðskipti í Kína, um Afganistan og NATÓ við Condolezzu Rice eða ávarpa ameríska háskólastúdenta einsog mér skilst Geir forsætisráðherra sé að gera þessa dagana.