Fara í efni

GAGNRÝNUM FRAMSÓKN Á RÉTTUM FORSENDUM

Sigmundur XB
Sigmundur XB

Ég hef efasemdir um loforð Framsóknar um skuldamálin, skattamálin, verðtrygginguna, launamál, velferð, örorku, tryggingagjald, lánasjóð námsmanna, Íbúðalánasjóð ... ekki um málefnin heldur þegar lofað er upp í ermina. Allt á að verða gott, öllum lofað gulli og grænum skógum og síðan allt svikið, jafnvel framkvæmt þvert á það sem lofað var. Þetta þekkjum við allt frá fyrri tíð. Að vísu skal það nefnt  - svo Framsókn njóti sannmælis  - að sumt efndi hún , eins og stóriðjuáformin, sem nú hafa skilað okkur nær dauðu Lagarfljóti.
Síðan koma boðendur nýrra sjónarmiða sem hafa að kjörorði að menn eigi bara að setjast niður og spjalla saman um hagstjórnina - helst á netinu segir eitt framboðið -  þá verði framtíðin skínandi björt og ekkert vesen, en því miður vanti alveg hagstjórn á Íslandi. Hún muni koma út úr spjallinu.

HA?
Það var 200 milljarða halli á ríkissjóði eftir eitt mesta hrun sem nokkur þjóð hefur orðið að þola, atvinnuleysi var komið upp í 11%. Nú hins vegar  er búið að helminga atvinnuleysið, ná jöfnuði í ríkisrekstrinum og búa í haginn fyrir uppbyggingu komandi ára. Engin hagstjórn? Ekkert vesen? Jú, þetta hefur verið heilmikið vesen og óneitanlega kallað á hagstjórn, eða hvað? Heldur fólk að þetta hafi gerst af sjálfu sér?

Framboðin komi heiðarlega fram
Nú þarf að tala hreint út og spyrja hvað frambjóðendur raunverulega hyggist fyrir. Hvers konar skattastefnu ætla flokkar að fylgja, hvers konar atvinnustefnu, stóriðju eða þeirri stefnu sem við höfum fylgt? Hvað með auðlindirnar, hvað með beina lýðræðið, hvað með náttúruverndina? Við hljótum að gera kröfu um að öll framboðin komi heiðarlega fram.
En það þarf líka að koma heiðarlega fram gagnvart frambjóðendum. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni , ekkert síður en öðrum. Nú er að nýju hafin herferð gegn honum til að gera menntun hans tortryggilega. Sigmundur Davíð vakti athygli og aðdáun margra þar á meðal mína þegar hann flutti okkur hugmyndir sínar um skiptlagsfræði sem hann meðal annars hafði aflað í námi sínu í þessum fræðum í Oxford.

Ekki sæmandi kosningabarátta
Mig skiptir engu máli - og kemur það ekkert við - hvort hann hafi lokið við ritgerð sína eða ekki enda hef ég alltaf lagt meira upp úr innihaldi náms en formlegum prófgráðum. Spurningin í mínum huga er hverrar þekkingar og færni menn afla sér í námi. Það hafði Sigmundur Davíð sannanlega gert. Og það sem meira er, hann hafði komið þekkingu sinni á framfæri við almenning og þannig miðlað námi sínu á uppbyggilegan hátt, meira en margir prófgráðumenn  geta státað af. Síðan er það hitt að algengt er að menn ljúki prófritgerðum löngu eftir að rannsóknarvinnan er innt af hendi. Sjálfur var ég á sínum tíma í dorktorsnámi í sagnfræði en ákvað að ljúka því ekki. En menntunin gagnaðist mér engu að síður.
Þetta er umræða um umbúðir en ekki innihald. En þetta fjallar líka um ósæmilegar og ósanngjarnar aðfarir sem ekki eru sæmandi í kosningabaráttu.