GAGNSÆI EÐA HNÝSNI?
Birtist í Fréttablaðinu 23.12.19.
Auglýst hefur verið starf útvarpsstjóra.
Umsóknir nema tugum. Fjölmiðlar velta vöngum, vel meðvitaðir um að tal og skrif um kost og löst á fólki er vinsælt umfjöllunarefni; hægt að gera sér mat úr slíku lengi vel.
En stjórn Ríkisútvarpsins eyðileggur þennan leik og vill leggja það í mat umsækjenda sjálfra hvort nöfn þeirra skuli birt.
Þá er okkur sagt að nafnleynd um umsækjendur til opinberra starfa stríði gegn gagngsæi og komi í veg fyrir aðhald gagnvart hinu opinbera. Ekki verður annað skilið en umboðsmaður Alþingis sé kominn í þessa liðssveit.
Vissulega getur það verið rétt að nafnleynd sé misnotuð, til dæmis ef hunsa á hæfa umsækjendur. Þá er eðlilegt, og meira að segja bráðnauðsynlegt, að öllum sé kunnugt um að þeir hafi boðið fram starfskrafta sína. Öllum megi þá ljóst vera að gengið hafi verið framhjá þeim.
Ef umsækajndi hins vegar óskar sjálfur nafnleyndar þá á að virða þá ósk. Þá eru líka fallin út aðhaldsrökin. Hæfir umsækjendur sækja iðulega ekki um starf sem óljóst er hvort þeir fengju, vilja ekki að komist í hámæli að svo stöddu að þeir gætu hugsað sér til hreyfings á núverendi vinnustað. Slíkt er skiljanlegt og ber að virða.
Ætla má að nafnleynd, sé hennar óskað, kalli þannig á fleiri hæfa umsækjendur. Rök fyrir nafnbirtingu eru þá að engu orðin.
Eftir stendur þá bara eitt, forvitni og hnýsni.