GEÐHJÁLP / OKKAR MÁL
Nýlega birtist fylgirit með Morgunblaðinu undir sama heiti og fyrirsögnin hér að ofan. Það fór vel á því að birta þetta rit með Morgunblaðinu því að öllum öðrum fjölmiðlum ólöstuðum hefur Morgunblaðið sinnt þessum málaflokki betur og af mikilli staðfestu um langt árabil. Þar á heiðurinn án efa fyrst og fremst Styrmir Gunnarsson ritstjóri, en hann hefur verið einn ötulasti baráttumaður fyrir hagsmunum geðsjúkra hér á landi. Í viðtali sem birtist við Styrmi í þessu riti segir hann eftirfarandi um stefnu Morgunblaðsins: "Við höfum almennt lagt okkur fram um að breyta afstöðu fólks til þessara sjúkdóma, draga úr fordómum og stuðla að opnari umræðu." Þetta hefur Morgunblaðinu tekist og á lof skilið.
Ekki ætla ég að rekja efni umrædds blaðs en þar kemur margt fróðlegt fram. Sigursteinn Másson, formaður Geðhjálpar, fylgir ritinu úr hlaði á sinn ritfæra hátt.
Í blaðinu kemur fram - reyndar haft eftir Styrmi Gunnarssyni - að fátækt sé vaxandi orsök geðsjúkdóma. Við þetta hljótum við að staldra. Hvers vegna? Vegna þess að þegar við vitum að við getum með gjörðum okkar læknað sjúkdóma þá eigum við að sjálfsögðu að gera það. Nógu slæmir eru þeir sjúkdómar sem við getum ekki læknað. En þegar allt kemur til alls þá er fátæktin af mannavöldum; hún er fyrst og fremst skipulagsvandi og þess vegna á okkar ábyrgð.
Í blaði Geðhjálpar eru svör þingmanna við spurningum sem að þeim var beint. Eftirfarandi eru mín svör ásamt þeim spurningum sem að mér var beint.
Hvernig telur þú að búið sé að geðsjúkum á Íslandi? Því fer fjarri að nægilega vel sé búið að geðsjúku fólki hér á landi. Þetta held ég að eigi við nánast hvernig sem á málin er litið. Hér eru langir biðlistar og þarf fólk iðulega að bíða mánuðum saman eftir því einu að fá viðtal hjá lækni. Ég kann ekki að dæma um það sem gerist inni á sjúkrastofnunum þótt eflaust sé varasamt að alhæfa í því efni enda læknar og hjúkrunarfólk misjafnlega gert fólk og áherslur og hefðir eflaust mismunandi í einstökum stofnunum. Hins vegar er því ekki að leyna að fáar stéttir þurfa að axla eins ríka ábyrgð og fólk sem sinnir læknis- og hjúkrunarstarfi á geðheilbrigðissviði því sjúklingurinn er yfirleitt í afar veikri stöðu til að svara fyrir sig ef honum finnst "kerfið" ekki taka sér rétt. Þegar á heildina er litið er þó afbragðs gott fólk starfandi við geðhjúkrun. Ég tel að þeir valkostir sem hafa boðist í seinni tíð utan hins hefðbundna kerfis og yfirleitt í framhaldi af meðferð innan þess séu mjög æskilegir. Þar vísa ég til dæmis til klúbbsins Geysis sem byggir á sjálfshjálparhugsjón en inni í mjög samfélagslega ábyrgum farvegi. Ég nefni að sjálfsögðu einnig Geðhjálp sem sinnt hefur mjög mikilvægu stuðningshlutverki fyrir geðsjúka auk þess sem Geðhjálp hefur veitt stjórnvöldum mikilvægt aðhald.
Hvað þarf helst að bæta? Það þarf að bæta margt. Í fyrsta lagi á að sjálfsögðu að útrýma öllum biðlistum. Biðlistar í geðheilbrigðiskerfinu eru hreint og klárt mannréttindabrot, bæði gagnvart þeim einstaklingi sem í hlut á og iðulega einnig gagnvart aðstandendum hans. Í öðru lagi þarf að vera nægjanlegt rými inni á heilbrigðisstofnunum fyrir alla þá sem þar þurfa á aðhlynningu og lækningu að halda. Í þriðja lagi þarf miklu meira samstarf þeirra aðila sem halda um öryggisnetið í samfélaginu og koma að málefnum einstaklingsins þegar heilsan bregst eða félagslegar aðstæður krefjast þess. Fyrir síðustu þingkosningar lagði Vinstrihreyfingin - grænt framboð ríka áherslu á slíkt samstarf; að mynduð yrðu teymi félagsráðgjafa, sálfræðinga og hjúkrunarfólks og annarra aðila, ef því væri að skipta, og þannig komið í veg fyrir að hver væri að sinna sínu afmarkaða verkefni í sínu skoti. Það gengur auðvitað ekki að einhverjar markalínur milli ráðuneyta eða stofnana komi niður á fólki sem þarf á margþættri þjónustu að halda.
Er málaflokkurinn afskiptur að þínu mati? Á meðan biðlistar á geðheilbrigðissviði eru fyrir hendi þá verður ekki annað sagt en málaflokkurinn sé afskiptur. Ég sagði í umræðu á Alþingi um þessi mál að Íslendingar hefðu ekki þolinmæði til að bíða meira en 20 sekúndur á rauðu ljósi í umferðinni. Ef biðin væri lengri risi samstundis bylgja mótmæla og menn krefðust mislægra gagnamóta fyrir milljarða. Við létum það hins vegar viðgangast að geðsjúkt fólk væri látið vera hjálparþurfi á biðlistum mánuðum saman og síðan væru úrræði af skornum skammti. Auðvitað ætti að mynda þjóðarsátt um að engin mislæg gatnamót verði gerð í landinu fyrr en þessari gölnu forgangsröð hefur verið breytt og biðlistum útrýmt.
Hvernig breytum við hugarfari þjóðarinnar í garð geðsjúkra, og er þörf á því? Með opinni umræðu frá blautu barnsbeini. þessi mál á að ræða í skólum og uppeldisstofnunum landsins, í fjölmiðlum, verkalýðshreyfingu, á Alþingi – alls staðar. Ef menn þekkja staðreyndirnar í þessu sem öðru þá útrýmum við fordómum. Enda er merking hugtaksins sú að hinn fordómafulli felli dóma og komist að niðurstöðu áður en hann þekkir málavöxtu. Ef þetta er rétt – sem ég efast ekki um – þá er að ganga í málið og upplýsa alla um málavöxtu. Það hefur Geðhjálp gert ágætlega. Vissulega er þetta ekki auðvelt verk í hröðu og krefjandi samfélagi. En dropinn holar steininn.