GEGN EINELTI: HÉR MÁ SKRIFA UNDIR...
Það var gott ráð að ráða Árna Guðmundsson, fyrrum félgsmálafrömuð í Hafnarfirði, formann starfsmannafélagsins þar og síðar kennara við Kennaráháskóla Íslands, sem framkvæmdastjóra átaks gegn einelti. Talsvert vantar enn í þessa upptalningu á vegtyllum Árna Guðmundssonar, svo sem þá að hann var stjórnarmaður í BSRB um langt árabil. Þaðan þekki ég hann og einnig af starfi hans í átakshópi gegn áfengisauglýsingum; óbilandi, aldrei gefst hann upp, alltaf óhræddur.
Annars átti þessi pistill ekki að fjalla sérstaklega um Árna Guðmundsson, heldur um átak gegn einelti. Nú er byrjuð enn ein vakningarherferðin. Ég vona að sjálfsögðu að þær þurfi ekki að verða óendanlega margar þessar herferðir - en þó nægilega margar að okkur takist að kveða niður einelti og síðan halda samfélaginu nægilega upplýstu til að halda meininu niðri!
Einelti er þjóðfélagsmein. Mjög alvarlegt mein. Hvar þarf átakið að fara fram svo það megi verða upprætt? Svarið er þetta: Alls staðar. Á heimilinu, í skólanum, á vinnustaðnum, í æskulýðssamtökunum, íþróttafélaginu og verkalýðsfélaginu. Kenna þarf börnum frá æsku að líta á önnur börn sem jafningja og innræta þeim það besta úr siðfræðiboðskap allra alda: Komdu eins fram við önnur börn og þú vilt að þau geri við þig; taktu þá sem þú veist að eiga undir högg að sækja í félagslegu tilliti inn í vinahópinn þinn!
Og munum að ekki er það alltaf svo að hópurinn leggist á hinn veika, eins og hýenur á veikburða dýr. Stundum tekur grimm múghyggjan stefnuna á hinn sterka, ofsækir hann og brýtur hann niður. Um þetta hef ég séð fjölmörg dæmi. Undanfarinn er að hópurinn skynjar að viðkomandi einstaklingur er við það að missa fótanna. Stórmannlegt? Nei, enda viljum við ekki svona framferði. Og þess vegna skrifum við undir hvatningu Árna Guðmundssonar og félaga um að við sammælumst öll um að uppræta einelti.
Einelti er vont fyrir þann sem fyrir eineltinu verður en einnig hinn sem niðurlægir sjálfan sig með því að vera þátttakandi í einelti.
Sjá slóðina: www.gegneinelti.is