Fara í efni

GEGN HAGSMUNUM SAMFÉLAGSINS

DV -
DV -

Birtist í DV 10.12.13.
Á Alþingi hefur verið upplýst að ein megin ástæðan fyrir því að ákveðið hefur verið að lögþvinga Orkuveitu Reykjavíkur til að aðskilja starfsemi sína í einingar ( sem „stunda vinnslu, framleiðslu og sölu raforku og heits vatns og gufu og rekstur grunnkerfa, svo sem dreifiveitu rafmagns, hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og gagnaveitu, auk annarrar starfsemi sem hefur sambærilega stöðu"),  sé sú að aðrar veitustofnanir í landinu séu þessa fýsandi.

Öllum skal gert jafn erfitt fyrir
Fyrst þær hafi verið þvingaðar inn í slíkt ferli þá skuli einnig hið sama gilda um OR. Með öðrum orðum, öllum, þar á meðal OR skuli gert að búa við sömu erfiðu aðstæðurnar!
Reykjavíkurborg, Akranes og Borgarbyggð andmæltu þessu lengi framan af en gáfust síðan upp og lyppuðust niður frammi fyrir ríkisvaldinu.

Treysta sér ekki til að láta reyna á undanþágu
En hvers vegna telja menn sig þurfa að gera þetta? Það er vegna þess að tilskipun Evrópusambandsins kveður á um slíkan aðskilnað og blátt bann við því að starfsemi sem flokkast undir samkeppnisrekstur sé á einhvern hátt niðurgreidd af starfsemi sem nýtur einkaleyfis.
Og vegna þess að Íslendingar hafi ekki leitað eftir undanþágu á sínum tíma frá tilskipun ESB hvað þetta varðar,  þá sé tómt mál um þetta að tala nú.

Endurskoða þarf allt regluverkið
Ég held hins vegar að þetta sé misskilningur og að rétt sé að láta á þetta reyna enda er ljóst að samkvæmt reglum ESB eru forsendur fyrir hendi til undanþágu. Og hvað varðar aðrar veitustofnanir en OR, þá þarf að endurskoða laga- og regluverk þeirra einnig. Það er einfaldlega fráleitt að starfsemi sem flokkast undir grunnþjónustu sé ekki rekin með hagsmuni samfélagsins eina að leiðarljósi en ekki ímyndaðs markaðar.

Samkeppni veitustofnana varð að martröð
Draumar um markaðsbúskap á sviði veitustofnana hafa reynst martraðir þegar til kastanna hefur komið og oftar en ekki leitt til hærra verðs og lakari þjónustu.
Þess má geta að ég hafði forgöngu um það í tíð síðustu ríkisstjórnar að taka upp áður samþykkta póst-tilskipun og láta tiltekin ákvæði hennar ekki koma til framkvæmdar þar sem þau hentuðu illa íslenskum veruleika. Áttum við þar samleið með Norðmönnum.

Lánardrottnar og langtímahagsmunir
Við umræðuna á Alþingi um OR frumvarpið kemur fram að lánardrottnar OR setji sig ekki upp á móti aðskilnaðinum! Gott og vel, við kunnum að vera þeim háð um stundarsakir en hér er verið að tala um skipulag til langrar framtíðar. Auk þess skilst mér að málin standi þannig að þeir setji sig ekki upp á móti breytingum fremur en að þeir séu þeim hlynntir.

Samlegð og markaður
Hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar mátti ekki sjá smáa stofnun án þess að vilja sameina hana annarri stærri  - allt vegna samlegðar - hér er hins vegar farið gagnstæða leið og öllu sundrað. Enda er takmarkið ekki að ná samlegðaráhrifum; takmarkið er ekki að þjóna notendum heldur búa í haginn fyrir markaðsvæðingu veitustofnana og í framhaldinu einkavæðingu raforkunnar og vatnsins. Það er fráleitt annað en að slíkar grunsemdir vakni í ljósi reynslunnar. Sporin hræða.

Aftur í nefnd
Sl. mánudag fór fram atkvæðagreisðla eftir aðra umræðu um frumvarp sem heimilar uppstokkun og aðskilnað en verði ekki frestað gildistöku lögþvingunarfrumvarpsins - eins og gert hefur verið þar til nú - er komið í gan ferli sem gengur þvert á hagsmuni neytenda. Þingflokkur VG sat hjá við atkvæðagreiðsluna í þeirri von að Atvinnuveganefnd Alþingis, sem hefur málið til umfjöllunar, endurskoði afstöðu sína og fallist á að fresta enn um sinn að lög sem þvinga OR til að fara inn í aðskilnaðarferli með starfsemi sína verði að veruleika.

Ögmundur Jónasson, alþingismaður