GEIR OG INGIBJÖRG BRUGÐUST
Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa verið uppteknir við það í fjölmiðlum að undanförnu að finna leiðir til að gera sem minnst úr pólitískri ábyrgð á þjóðarþrengingum okkar Íslendinga. Að sjálfsögðu verða pólitískir hönnuðir og leiðsögumenn í spilavítinu Íslandi að horfast í augu við eigin gjörðir. Því miður er Íslandi nú þannig lýst í erlendum fjölmiðlum; sem landi sem gert var að einum allsherjar vogunarsjóði.
Núverandi ríkisstjórn ber ábyrgð
Ábyrgðin liggur hjá fyrri ríkisstjórnum og hún liggur líka hjá núverandi ríkisstjórn, sem hefur þverskallast við að reisa múra til varnar almannahag. Öllum slíkum hugmyndum hefur verið sópað út af borðinu. Þess í stað hafa oddvitar stjórnarflokkanna stigið upp í næstu þotu til að taka þátt í því að sannfæra sparifjáreigendur um allan heim um að allt væri í lukkunnar velstandi í íslenskum bönkum - óhætt að treysta þeim með heilt þjóðfélag að bakhjarli. Í mars sl. sagði Ingibjörg Sólrún, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, að áhyggjur af íslenskum bönkum væru fullkomlega ástæðulausar, „... denne frygt er helt ubegrundet" og Geir Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins var á sama tíma í New York að tala í svipuðum dúr.
Geir og vel geymda leyndarmálið
Reyndar gaf Geir í skyn að bankarnir stæðu geysilega vel vegna þess að þeir störfuðu eftir leynilegri formúlu sem ekki yrði gefin upp! Eða hvernig á að skilja viðtalið sem bandaríska sjónvarpsstöðin CNN átti við hann og Morgunblaðið sagði frá 15. mars?: „Geir H. Haarde forsætisráðherra kom fram í þættinum World Business Today á fréttastöðinni CNN í gærkvöldi. Þar var hann m.a. spurður að því hvort íslensku bankarnir gætu staðist núverandi hættuástand. Sagðist Geir þá hafa fullt traust á bönkunum, undirstöður íslensks efnahags væru traustar og helstu stærðir í reikningum bankanna einnig. „En það er vel geymt leyndarmál," bætti hann svo við."
Nú hefur leyndarmálið verið afhjúpað.