Fara í efni

GEIR OG INGIBJÖRG MEÐ NÝJA SÉRRÉTTINDAÚTGÁFU

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 26.11.08.
Það var lítil reisn yfir því af hálfu oddvita ríkisstjórnarflokkanna að velja Þjóðmenningarhús Íslands til að kynna nýja sérréttindaútgáfu af eftirlaunalögunum illræmdu. Allar götur frá því ríkisstjórnin var mynduð hefur verið beðið eftir því að ríkisstjórnin stæði við fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um breytingu á þessum lögum. En aldrei kom frumvarpið. Í 20 mánuði hefur þjóðin beðið eftir því að ríkisstjórnin mannaði sig upp í að afnema eigin sérréttindi. Nú þegar lagabreytingin er kynnt kemur fram að ráðherrarnir tíma ekki að draga úr eigin forréttindum meira en svo að áfram verða þeir með 4% réttindaávinnslu á ári! Þingmenn lækka úr 3% í 2,375% ávinnslu en sjálfum sér ætla ráðherrarnir helmingi meiri lífeyrisávinnslu en best gerist hjá almennum starfsmönnum ríkisins! Þeir starfsmenn sem eru í gömlu B-deild LSR hafa um 2% ávinnslu á ári en hjá þeim sem eru í A-deildinni (allar nýráðningar frá 1. janúar 1997) er ávinnslan 1,9%. Í flestum öðrum lífeyrissjóðum er ávinnslan enn minni.

Ósannindi í Þjóðmenningarhúsi

Samkvæmt Morgunblaðinu sagði formaður Samfylkingarinnar á viðhafnarfréttamannafundinum í Þjóðmenningarhúsinu: „Kannski verða uppi kröfur um að ganga enn lengra. En þarna er verið að nema úr lögum nánast allt það sem mestum deilum olli. Við erum að breyta öllu því sem deilt var um 2003."

Þetta er ósatt. Þegar þingmálið kom til umræðu á Alþingi 11. desember 2003 sagði ég m.a.: „Ég spyr: Nú, þegar við endurskoðum lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra, hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að halda með þennan hóp, alþingismenn, ráðherra og hæstaréttardómara, inn í lífeyrissjóði sem þessum aðilum standa opnir? Hvers vegna getur þetta fólk ekki verið á lífeyriskjörum sambærilegum þeim sem aðrir búa við?" Um þetta snerist deilan af minni hálfu og hefur alla tíð gert. Á þessu byggðist gagnrýnin einnig utan veggja Alþingis.

Fróðlegt að fylgjast með nafnakalli

Það er ömurlegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin skuli hafa legið yfir því í 20 mánuði samfleytt að reyna að finna út hve lítið hún komist upp með að skerða eigin sérréttindi því nákvæmlega það hefur nú fengist staðfest að „vinnan" gekk út á. Og í ofanálag á breytingin ekki að eiga sér stað fyrr en í júlí á næsta ári!

Fróðlegt verður að fylgjast með nafnakallinu þar sem sérhver þingmaður verður látinn greiða atkvæði um breytingu á frumvarpi ríkisstjórnarinnar í þá átt að allir sem sérréttindalögin taka til færist yfir í almenna deild lífeyrisþega starfsmanna ríkisins. Slíka breytingartillögu mun ég flytja.

Höfundur er þingflokksformaður VG.