Gerir maður svona?
Birtist í Mbl
Á Þorláksmessu birtust fréttir í fjölmiðlum um lokanir á geðdeildum sjúkrahúsanna yfir hátíðarnar. Í Morgunblaðinu sagði Tómas Zöega, yfirlæknir á geðdeild Landspítalans, að lokanir þar yrðu ekki minni en um fyrri jól og í framhaldi var í fréttinni eftirfarandi tíundað: 6 deildum yrði lokað, þar af væru tvær móttökudeildir og barnageðdeild. Alls væri um að ræða 62 pláss. Í fréttaumfjöllun fjölmiðla var sagt að ekki væri um annað að ræða en að loka tímabundið vegna peningaskorts. Þetta staðfesti Þórunn Pálsdóttir, hjúkrunarforstjóri Landspítalans, í viðtali í DV sem einnig birtist á Þorláksmessu. Hún sagði að geðheilbrigðissviðinu væri svo naumt skammtað að „…ef þessum deildum væri ekki lokað nú yrði að loka heilli deild á ársgrundvelli.“
Orð Þórunnar
Þórunn Pálsdóttir var ómyrk í máli í umræddu viðtali og ber að líta á orð hennar til viðvörunar. Hún segir að sífellt sígi á ógæfuhliðna og hvetur til umhugsunar um hvert stefni. Þórunn segir geðheilbrigðisþjónustu hér á landi hafa staðið mjög framarlega „…en nú virðast þau mál vera að taka aðra stefnu.“ Hún vitnar í fækkun rúma í Arnarholti og í fækkun rúma á Sjúkrahúsi Reykjavíkur samkvæmt samkomulagi yfirvalda frá því í haust. Þá hefði einnig verið gert samkomulag um að færa auknar byrðar af bráðaþjónustu fyrir geðsjúka yfir á Landspítalann án þess að sjúkrahúsinu væru tryggðir fjármunir til að rísa undir nýjum skuldbindingum. „Það er uggvænlegt,“ er síðan haft eftir Þórunni Pálsdóttur, „að það eina sem skuli standa í þessu umrædda samkomulagi séu aðgerðir gagnvart geðsjúkum. Þetta finnst mér vera gangandi fordómar. Ef þeim skilaboðum er komið út í þjóðfélagið að það sé neikvætt að leita til geðheilbrigðisþjónustunnar og hún sé lægra sett í virðingarstiganum en önnur hjúkrunarþjónusta þá fjölgar sjálfsvígum þar sem þeir einstaklingar, sem eru hjálparþurfi hafa engan stað til þess að leita á eftir aðstoð. Þetta er spurning um virðingu fyrir sjálfsímynd og manngildi.“
Talað af ábyrgð
Þetta eru alvarleg viðvörunarorð og það ber að þakka að þau skuli sögð. Það er alltof algengt að um óþægileg mál sé þagað af hálfu stjórnenda. Og eflaust er það oft þægilegri kostur að þegja. En þegar allt kemur til alls væri það engum til góðs og í rauninni fullkomið ábyrgðarleysi. Það er gott til þess að vita að innan heilbrigðisþjónustunnar sé að finna fólk sem talar opinskátt og tæpitungulaust og þannig af ábyrgð til samfélagsins um stöðu mála. Ef almenningur ekki þekkir raunveruleikann á hann ekki kost á því að mynda sér upplýsta skoðun og reyna síðan að hafa áhrif til úrbóta. Það er svo önnur saga að slíkt er hægara sagt en gert og má til marks um það benda á eftirtektarvert bréf sem birt er frá Ólöfu Björnsdóttur í Velvakanda Morgunblaðsins á aðfangadag. Ólöf er mánuðum saman búin að reyna að krefja yfirvöld sagna um hvað vaki fyrir þeim með fjársveltistefnu gagnvart fötluðum nú síðast í svokölluðum bandormi sem er heiti yfir lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum. „Hver eru rökin fyrir þeirri upphæð sem ætlað er til málefna fatlaðra í bandorminum?“ spyr Ólöf í niðurlagi greinar sinnar. Hún fær engin svör.
Veislusalir mikilvægari en geðsjúkir
En gjörðir segja stundum meira en orð. Fjárframlög til endurnýjunar á húsakynnum sendiráða voru samþykkt umyrðalaust af ríkisstjórninni og stuðningsliði hennar á Alþingi nú fyrir hátíðarnar, fjárframlög sem nema hundruðum milljóna króna. Ef endurnýja þarf marmaragólfin á veislusölunum skortir ekki skilninginn. Þegar hins vegar um er að ræða lokun geðdeilda sjúkrahúsanna vefst það fyrir mönnum að reiða fram féð. Jafnvel þótt það kalli fram eftirfarandi viðbrögð frá Geðhjálp í ályktun sem þau virtu samtök sendu frá sér og voru birt í blöðum á Þorláksmessu: „Það er ekki líðandi að geðsjúkir og aðstandendur þeirra geti ekki notið friðar og öryggis um jólahátíðina. Þetta er sá tími ársins sem reynist mörgum erfiður og leggst oft sérstaklega þungt á fólk sem er veikt andlega.“ Og þessu til áréttingar má nefna að haft er eftir þeim forsvarsmönnum Landspítalans sem vitnað var til hér að framan að „samkvæmt reynslunni“ aukist jafnan álag á geðdeildunum eftir jólahátíðina. Og samkvæmt reynslunni væntanlega einnig þurfa þeir sem vísað var út af geðdeildunum nú um hátíðarnar og engin heimili eiga til að hverfa til að fara á hótel eða leita til Hjálpræðishersins sem væntanlega yrði hlutskipti hinna heppnu. Í umræddri DV frétt kom einmitt fram að þangað væri förinni heitið hjá ýmsum þeim sem væri gert að fara út af geðdeildunum vegna lokana yfir hátíðarnar.
Og nú er tími til að spyrja
Var það ekki vegna skattlagnigar á blaðburðarbörnum DV sem forsætisráðherra var svo brugðið yfir ranglæti heimsins að hann greip fram fyrir hendur á fjármálaráðherra ríkisstjórnar sinnar með þeim orðum að svona gerði maður ekki? En hvað um niðurskurð til fatlaðra og hvað um lokanir geðdeilda, hvað um að senda veikt fólk til síns heima þvert á mótmæli Geðhjálpar og forsvarsmanna sjúkrahúsanna, hvað um að vísa fólki út úr velferðarstofnunum samfélagsins og inn í vinalaus hótelherbergi, er það í lagi, gerir maður svona? Eflaust kann forsætisráðherrann og ríkisstjórnin svar við því. Það væri fróðlegt að fá að heyra það svar og ekki síður rökstuðninginn.