Fara í efni

GERUM ÍSLAND HEILT Á NÝ – KVÓTANN HEIM


Birtist í Morgunblaðinu 03.01.20.
Þegar kvótakerfinu var komið á í sjávarútvegi var skýringin sú að stýra þyrfti fiskveiðum með því að úthluta aflaheimildum og þannig vernda sjávarauðlindina svo sókn í hana yrði ekki meiri en svo að fiskistofnarnir þyldu veiðarnar. Þetta var árið 1983.

Næsta skrefið sem var stigið, og átti það eftir að reynast afdrifaríkt, var þegar aflaheimildir voru gerðar framseljanlegar. Skýringin var sögð sú að þannig mætti stuðla að hagkvæmum rekstri í sjávarútvegi, hinir burðugu tækju yfir hina veikari og eftir stæðu öflugri fyrirtæki en ella. Þegar upp væri staðið myndi þetta gagnast sjávarbyggðum og efnahagslífi landsmanna almennt. Þetta var árið 1990.

Þegar farið var að veðsetja fiskiskip á grundvelli aflaheimilda þeirra (óveidds kvóta) var það látið viðgangast þrátt fyrir landslög sem sögðu skýrt að sjávarauðlindin væri í eigu þjóðarinnar: “Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar,” segir í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða. Veðsetning á kvóta færðist jafnt og þétt í aukana í aðdraganda hrunsins og var þar eflaust orsakavaldur. Pólitískir handlangarar kerfisins leyfðu því þannig að gerast að sameign þjóðarinnar væri fénýtt í þágu einkahagsmuna.

Afleiðingar þessara kerfisbreytinga hafa verið gríðarlegar: Þær hafa skekið þjóðfélagið og valdið illvígari deilum en nokkurt annað málefni. Um það er þó ekki deilt, nefnilega að fátt, ef þá nokkuð, hafi valdið eins djúpstæðum ágreiningi í íslensku samfélagi og kvótakerfið og þá ekki síst framsalið og veðsetning kvótans.

Hvers vegna?

Í fyrsta lagi hefur kerfið haft í för með sér gríðarlega byggðaröskun. 

Í öðru lagi hefur meint samlegð leitt til samþjöppunar og einokunar á kostnað lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Kenningin um öflugri fyrirtæki og öflugri sjávarútveg reyndist verri í framkvæmd en menn ætluðu og samfélaginu dýrkeypt þegar upp var staðið. 

Í þriðja lagi hefur auður (að hluta til uppdiktaður, byggður á væntingum) verið fluttur upp á land og til útlanda í rekstur og fjárfestingar sem engu skilaði til baka til raunverulegra eigenda í íslenskum sjávarbyggðum. Þarna hófst útrásin, þarna var byrjað að blása út bóluhagkerfið sem síðan sprakk í andlit þjóðarinnar.

Svo vorum það við sem vildum frekar Bogesen en Radcliffe; við sem sögðum að þrátt fyrir allt væri betra að hafa eignarhaldið í návígi. Bogesen þekkti þó allavega hana Sölku Völku og sína heimabyggð enda sýndi reynslan að hann skilaði arðinum þar, innan þúsund metra radíuss, á meðan umgjörð kauphallanna í London og New York umlykur veröldina alla. Í þeim höllum er öllum nákvæmlega sama um barnaskólann á Flateyri.

Nú þarf að rétta af þessa skekkju sem kvótakerfið innleiddi með framsali sínu og veðsetningu, bjögun byggðanna og misskiptingu auðæfanna.

Ná þarf að ná kvótanum til baka. Við þurfum að gera Ísland heilt á ný. Það gerum við með því ná kvótanum út úr heimi braskaranna, þannig að lögin um eignarhald þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum verði ekki bara orðin tóm. 
Þetta þarf að verða mál málanna á nýbyrjuðu ári.