GETTÓ Í PALESTÍNU
Þorpið Qalqiliya er í Palestínu, eða hvað? Að nafninu til er þetta rétt. Í reynd er þorpið meira og meira að líkjast gettói. Qalqiliya er verið að umlykja rafmagnsgirðingum og múr, hinum illræmda kynþáttamúr. Til stendur að þorpið eða gettóið verði opið þrisvar á dag í innan við klukkutíma í hvert skipti! Qalqiliya var kröftugt samfélag sem þjónaði sveitunum umhverfis. Sú þjónusta er nú smám saman að veslast upp. Sveitafólkinu er gert ómögulegt að komast leiðar sinnar með vörur á markaðinn í bænum eða sækja þangað þjónustu. Jafnvel sjúkrabíl með konu í barnsnauð er vísað frá varðhliðunum utan opnunartíma.
Enda þótt girðingin umlyki ekki enn allt þorpið er Qalqiliya þegar aðskilin sveitunum í kring; þeim sveitum sem Ísraelsmenn ætla að hafa af Palestínumönnum. Við ferðafélagarnir, Eiríkur Jónsson, Borgþór Kjærnested og Qussay Odeh, hjálparhella okkar hér á svæðinu, sem getið er í fyrri pistlum hér á síðunni, komum að einu hliðinu við Qalqiliya þar sem bændur biðu eftir því að hliðin yrðu opnuð svo þeir kæmust yfir á akrana sína. Ungt fólk í ísraelskum hermannaklæðum, vopnað vélbyssum, gaf skipanir til bændanna, sem margir hverjir voru við aldur og hafa ræktað þetta land alla sína ævi. Við verðum að þrauka, sagði gamall maður við okkur með tárin í augunum, í þann mund sem ísraelskur hermaður setti fjóra fingur upp í loftið til merkis um að hann og þrír aðrir Palestínumenn skyldu nú stíga fram og láta skoða skilríki sín og fá úr því skorið hvort þeir fengju leyfi til að fara í gegnum hliðið.
Dagleg niðurlæging
Bændur bíða þess við gettóhlið að komast inn á akra sína. Þetta er frá þorpinu sem nefnt er í upphafi greinarinnar.
Allir sem ætla í gegnum hliðin yfir í sveitirnar umhverfis bæinn þurfa að sína leyfisbréf. Passa til að fara yfir til Ísrarel fá hins vegar mun færri. Til að fá slíkt leyfi þurfa menn að hafa náð 35 ára aldri og hafa stofnað fjölskyldu. Félagsmálaráðherra Palestínu, Ghassan Khalib, sem við hittum að máli í gær, sagði að Ísraelsmenn bæru fyrir sig að múrar og eftirlit væru til að koma í veg fyrir ofbeldi af hálfu Palestínumanna. Þetta er að sjálfsögðu út í hött, sagði hann, því þessar aðfarir væru til þess fallnar að skapa reiði á meðal landsmanna og "radikalisera" þá. Fólkið væri niðurlægt á degi hverjum á alla lund og nú væri verulega farið að þrengja að palestínsku samfélagi með vaxandi fátækt og atvinnuleysi.
Palestína sundurlimuð
Þess má geta að á Vesturbakkanum eru 703 girðingar, varðstöðvar og lokanir með hliðum. Þetta gengur þannig fyrir sig að Palestínumenn, sem á annað borð hafa leyfi til að fara út fyrir eigin svæði, verða að skilja farartæki sín eftir við hliðin og koma sér síðan áleiðis með farartæki sem þeir taka á leigu handan hliðsins. Þetta skýrir stóra leigubílaflota við hliðin. Stundum kostar þetta mikla bið; jafnvel upp í 20 tíma, allt eftir því hvernig liggur á hliðarvörðunum (lengst höfum við þurft að bíða í hálfan annan tíma) eða þegar ísraelska ríkisstjórnin fyrirskipar sérstakar tafir. Þannig hefur Gaza svæðið verið algerlega lokað í dag og í gær. Það segir sig sjálft að við þessar aðstæður er öll atvinnustarfsemi eyðilögð. Það er líka greinilega tilgangurinn: Að gera lífið svo óbærilegt að fólk flýi land.
Ísraelar eru greinilega að reyna að reka okkur úr landi, var okkur sagt í höfuðstöðvum verkalýðshreyfingarinnar á mánudag, og í því skyni er verið að reyna að þröngva okkur aftur til miðalda. Þannig grípur fólk stundum til þess örþrifaráðs að fara yfir fjöllin til að komast hjá eftirlitshersveitunum og þá stundum ríðandi á asna líkt og menn gerðu fyrr á tíð. Einmitt þetta gerði forseti palestínska alþýðusambandsins nýlega þegar hann nauðsynlega þurfti að komast á fund Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga í Brussel; hann fór ríðandi á asna frá Nablus!
Þegar raunveruleikinn verður áþreifanlegur
Þeir sem fylgst hafa með málefnum Palestínu þekkja þessar staðreyndir.
Allt þetta ferli verður að skoða í stóru samhengi. Þannig segja læknar okkur að krónískir sjúkdómar hrjái 25-30% landsmanna og séu hlutfallslega algengari en nokkurs staðar í heiminum, andlegir sjúkdómar séu algengir og andlegt álag hafi auk þess gríðarleg áhrif á allt heilsufar fólks.
Landránsbyggðir
Samkvæmt svokölluðu Oslóar-samkomulagi var ákveðið að skipta Palestínu upp í svæði, í fyrsta lagi þéttbýliskjarna þar sem Palestínumenn önnuðust gæslu, í öðru lagi svæði í nánasta umhverfi við þéttbýlið þar sem báðir aðilar sinntu löggæslu og síðan sveitahéruð þar sem Ísraelar hefðu gæslu með höndum. Ísraelar eru hins vegar alls staðar með krumlurnar og völd sín til sveita hafa þeir notað til að greiða götu landnemabyggða, sem nær væri að kalla landránsbyggðir. Út um alla Palestínu, bæði á Vesturbakkanum og á Gaza eru fjölmennar nýbyggðir gyðinga á landi sem ísraelskir landræningjar hafa sölsað undir sig. Yfirleitt á fjallatoppum setja þeir sig niður, fyrst koma þeir með gáma sem þeir hafast við í á meðan unnið er að uppbyggingu og síðan setjast þeir að í húsum sínum. Inn á þessi svæði eru lagðar hraðbrautir sem Palestínumönnum er meinað að ferðast um. Nábýlið við landránsmennina getur verið hættulegt en þeim er heimilað að bera vopn, öðrum ekki.
Við komum á þriðjudag til þorpsins Bet Feruk, skammt frá Nablus. Þorpið er aðskilið Nablus með girðingum og varðturnum.
Sú stefna Ísraela að sundurlima landið og loka fólk inni í gettóum grefur undan allri efnahagsstarfsemi, sem áður segir, eyðlieggur heilbrigðiskerfið með því að torvelda fólki að leita lækninga og það sem ekki má gleymast, rústar menntakerfi landsmanna, sérstaklega til sveita. Í þessu litla þorpi komu kennararnir frá Nablus. Á síðustu árum komust þeir ekki til kennslu í þorpinu í 60 til 90 skóladaga, það er að segja samanlagt í þrjá mánuði af skólatímanum!
Frá árinu 1993 hefur landránsbyggðunum fjölgað um helming. Sharon forsætisráherra segist nú fyrirskipa lokun slíkra byggða á Gaza svæðinu og í fréttum hefur mátt sjá hermenn þar kljást við landránsmenn. Þessi skipun nær þó aðeins til afmarkaðra svæða því ekki stendur til að afhenda Palestínumönnum land neins staðar sem liggur að öðru ríki eða að sjó eins og á Gaza. Slík svæði eru annað hvort rökuð, eins og það er kallað, þegar bókstaflega allt á svæðinu er eyðilagt eða komið upp nýbyggðum gyðinga.
Í Jerusalem Post í gær er grein eftir einn helsta forsvarsmann landránsmanna, Pinchas Wallerstein. Grein hans var fróðleg lesning því þar má sjá tilfinngahitann að baki landránsstefnunni. Sharon var sagður fremja grimmilegt mannréttindabrot á landnemum. Fráleitt er annað, segir greinarhöfundur, en að jarðýtustefna "bulldozing tactics" Sharons verði borin undir þjóðaratkvæði. Það er krafa um mannréttindi.
Í þessu sama blaði er fjöldi greina og frásagna sem skýra hvers vegna ríkisstjórnin í Ísrael kemst upp með ofbeldið gagnvart Palestínumönnum. Þar er t.d. grein um fráfall Susan Sontag, hins heimsfræga rithöfundar, sem var gyðingur og hafði verið sæmd heiðursviðurkenningu í Jerúsalem skömmu fyrir dauða sinn. Við það tækifæri hafði hún gagnrýnt stefnu ísraelskra yfirvalda. Í þessari blaðagrein er síðan vitnað í aðra rithöfunda, þar á meðal Cynthiu Ozick sem einnig er gyðingur.
Þriðja greinin í þessu blaði, sem mér þótti vera merkileg og lýsandi, fjallaði um svokallað "birthright" prógram, sem byggir á því að gera ungu fólki víðs vegar að úr heiminum kleift að koma til Ísraels í tíu daga og fræðast um land og þjóð. Grein þessi er skrifuð af Michael Freund, fyrrum aðstoðarmanni Netanyahu,fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels. Greinin er lýsandi fyrir þann anda sem svífur yfir vötnunum í ísraelsku samfélagi: Geysilegur áróður fyrir Zíonisma og réttmæti hans. Eftirfarandi eru glefsur á ensku þar sem sagt er að þátttakendur hafi komið víða að. "But they were all bound together by a common thread, by a rejuvenated committment and sense of Jewish destiny...And anyone pessimistic about the future of our people could not help but be reassured."
Til eru réttsýnir og hugrakkir Ísraelar
Ég hlakka til að hitta hér ísraelska gyðinga sem eru á öðru máli en því sem felst í harðlínustefnunni sem stjórnin rekur. Það er óhuggulegt að verða vitni að því þegar heilaþvegið fólk, iðulega óharnaðir unglingar í hernum, framkvæmir illvirki eins og Ísraelar óumdeilanlega fremja á Palestínumönnum. Það þarf hins vegar hugrakkt fólk til að synda gegn straumnum í ísraelsku samfélagi hvað þetta varðar. Sem betur fer er það fólk til. Margir kröftugustu andstæðingar Zíonismans eru einmitt gyðingar sem gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinda ofan af þeirri öfugþróun sem nú á sér stað í Ísrael.