GETUR ÞAÐ VERIÐ …?
Ég nefndi það um daginn hér á heimasíðunni að enda þótt landfræðilegar skorður væru reistar við landakaupum aðila utan EES (ekki EES þegna því miður) þá dygðu skilyrðin engan veginn enda þyrfti oft ekki að kaupa stór svæði til að komast yfir mikil verðmæti. Kveikjan að pistli mínum þá var ágætur leiðari Fréttablaðsins um landsölumál: https://www.ogmundur.is/is/greinar/frettabladid-og-samstodin-fjalla-um-landsolu
En í ljósi þeirrar fullyrðingar að ekki þurfi alltaf mikið land til að komast yfir mikil verðmæti spyr ég hvort það geti verið að í landi Horns sem selt hefur verið út fyrir landsteinana séu gríðarmiklar vatnsuppsprettur?
Hreint drykkjavatn er að vísu ekki eins verðmætt og svört olía upp úr eyðimörk Arabíuskagans - ennþá.
Framtíðin vinnur hins vegar með íslenska lindarvatninu.
Nýleg skrif: https://www.ogmundur.is/is/greinar/enn-er-island-selt
Þetta var spurningin.
Eftir stendur það sem verður staðhæft: Um það bil tvo kilómetra ofan við jörðina Horn sem seld var er jörðin Indriðastaðir. Þar eru landeigendur danskir og hefur staðið í stríði þar um aðgengi að vatni. Það er ekki eina dæmið um það sem koma skal – því miður.
Er þetta ekki nokkuð sem fjölmiðlar verða að kanna?
Og kannski í framhaldinu stjórnvöld líka – ef ekki væri til of mikils mælst?