Gildir það líka í Framsókn, Geir?
Geir H Haarde, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sat undir nokkurri orrahríð eftir að hann skipaði
Skúffan í skrifborði Íhaldsins
Auðvitað trúir ekki nokkurt mannsbarn þessu tali. Sjálfstæðisflokkurinn er miðstýrður valdaflokkur sem refsar og umbunar á víxl eftir því hvernig menn makka. Í þessu sem öðru vill Framsóknarforystan ekki vera eftirbátur Íhaldsins. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins hefur nú um allangt árabil gengið á skóla Sjálfstæðisflokksins í pólitík og vinnubrögðum. Þykir hann ágætur nemandi. Að sögn mun hann lítið hafa þurft á sig að leggja til að læra vinnubrögðin en auk þess hefur hann samsamað stefnu Framsóknarflokksins svo rækilega stefnu Íhaldsins að iðulega er vísað til Framsóknar sem skúffu í skrifborði Sjálfstæðisflokksins.
Orðsending frá Sjálfstæðisflokknum
Í sumar var skotið orðsendingu niður í þessa skúffu. Davíð Oddsson úrskurðaði þá í fréttaviðtali að Kristinn H. Gunnarsson væri ekki lengur liðtækur sem handlangari í stjórnarmeirihlutanum. Hann væri nefnilega yfirleitt á móti öllu „eins og menn þekkja“. Eftir þessi ummæli vissi Halldór Ásgrímsson hvað til síns friðar heyrði. Kristni H Gunnarssyni hefur nú verið vísað á dyr í Framsóknarflokknum. Hann hefur bara ekki verið formlega rekinn úr þingflokknum, sagði Hjálmar Árnason, þingflokksformaður, en skýringin á því er einfaldlega sú að slíkt er ekki hægt að gera samkvæmt lögum flokksins.
Framsókn með sýnikennslu
Greinilegt er að í Framsóknarflokknum er ekkert svigrúm fyrir ólík sjónarmið. Þeir sem voga sér að ganga gegn skipunum flokksforystunnar eru einfaldlega reknir. Þau ummæli, að því aðeins nái menn frama í stjórnmálum að þeir þori að standa á sannfæringu sinni, eiga ekki við rök að styðjast. Alla vega ekki í Framsóknarflokknum. Flokkurinn hefur nú haldið sérstaka sýnikennslu í ólýðræðislegum vinnubrögðum. Fróðlegt væri að heyra Geir H. Haarde segja okkur hvort hann telji að kenning hans um að sannfæring sé ávísun á frama eigi við í öllum stjórnmálaflokkum – líka í Framsókn? Um Sjálfstæðisflokkinn spyr ég ekki.