GLEYMDI EINUM
Í gær fjallaði ég um helstu samstarfsmenn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra um breytingar á lögum um útvarpsrekstur í landinu. Þetta er frjálshyggjuvængur Sjálfstæðisflokksins, þeir Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar þingsins og Birgir Ármannsson, varaforseti Alþingis. Þessir samstarfsmenn menntamálaráðherra styðja frumvarp hennar þótt þeir vilji reyndar ganga skrefi lengra en ráðherra, láta ekki staðar numið við hlutafélagavæðingu heldur selja Ríkisútvarpið hið allra fyrsta. Þar skilja hins vegar leiðir með þessum mönnum og Páli Magnússyni, útvarpsstjóra. Hann er þó einn harðdrægasti stuðningsmaður menntamálaráðherra um að hlutafélagavæða RÚV. Auðvitað átti ég að heiðra Pál með ljósmynd í hópnum frá í gær um áhuga á hlutafélagavæðingu útvarpsins því enginn gengur harðar fram en hann við að ýta á hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag ræðst hann á Þorstein Pálsson ritstjóra Fréttablaðsins fyrir að gagnrýna áform ríkisstjórnarinnar. Útvarpsstjóri bregst ekki við röksemdafærslu ritstjóra Fréttablaðsins, sem að mínu mati er mjög vel ígrunduð. Nei, Páll Magnússon reynir að afgreiða Þorstein Pálsson út af borðinu með því að brigsla honum um að ganga erinda atvinnurekanda síns! Greinin heitir enda Samræmd hagsmunagæsla. Þetta eru nákvæmlega sömu viðbrögð og komu frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra við gagnrýni ritstjóra Fréttablaðsins. Er þetta sæmandi? Ekki þykir mér það. Hefur þetta fólk engin rök til að tefla fram? Ætlar ríkisstjórnin að ráðast í breytingar á þessari gamalgrónu menningarstofnun á grundvelli sjónarmiða sem ekki þola rökræðu?
HÉR mun ég setja leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu um RÚV.Eftirfarandi er síðan grein Páls Magnússonar útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins í Morgunblaðinu í dag.
Páll Magnússon
Samræmd hagsmunagæslaÞAÐ rekur nú hver forystugreinin aðra í dagblöðum 365 miðla, Fréttablaðinu og DV, þar sem frumvarpi til nýrra laga um Ríkisútvarpið er fundið flest til foráttu.
ÞAÐ rekur nú hver forystugreinin aðra í dagblöðum 365 miðla, Fréttablaðinu og DV, þar sem frumvarpi til nýrra laga um Ríkisútvarpið er fundið flest til foráttu. Kveður svo rammt að þessu að annar leiðarahöfundurinn er farinn að vitna í hinn og bráðum mun hinn trúlega fara að vitna í annan - og svo báðir í sjálfan sig. Og ekki nóg með það: fréttahluti þessara blaða - sem raunar verður æ erfiðara fyrir lesandann að greina frá skoðanahlutanum í þessu máli - er stútfullur af hinum neikvæðari umsögnum um þetta frumvarp á meðan hinar jákvæðari liggja óbættar hjá garði. NFS, sem líka tilheyrir auðvitað 365 miðlum, stígur svo dansinn með systkinum sínum - gerir m.a. skoðanir ritstjóra Fréttablaðsins að sérstöku fréttaefni hjá sér og sækir viðbrögð við þeim.
Og hver skyldi nú vera skýringin á þessu samræmda göngulagi? Af hverju marséra nú allir miðlarnir í takt í fjölmiðlasamsteypunni í Skaftahlíð? Svar: Þeim þykir hagsmunum eigandans ógnað.
Forstjóri 365 miðla, Ari Edwald, útskýrði þetta af fullum heiðarleika og einlægni á hádegisverðarfundi Heimdallar fyrir skömmu. Hann sagði efnislega að ef RÚV yrði gert kleift að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri myndi það skekkja samkeppnisstöðuna á þessum markaði. Með öðrum orðum: Það er beinn hagur eiganda 365 miðla að RÚV sé rekið með óskilvirkum og óhagkvæmum hætti. Í því ljósi verður að skoða þennan málflutning. Hagsmunir skattgreiðenda, eða almennings, skipta augljóslega minna máli í þessu samhengi.
Og miðlar 365 hlýða kallinu, sem kannski er mannlegt en ekkert sérstaklega stórmannlegt - og allra síst trúverðugt.
Höfundur er útvarpsstjóri.