Gleymum ekki dauða Rachel Corey
Fáir atburðir hafa haft eins sterk áhrif á mig og morðið á Rachel Corey. Í gær var liðið eitt ár frá þeim atburði. Rachel reyndi að koma í veg fyrir að ísraelsk jarðýta eyðilegði hús Palestínumanna í bænum Rafah á Gaza svæðinu. Valtað var yfrir hana og lést hún af þeim sökum. Morðinginn gengur laus – sennilega með medalíu – enda að vinna sína vinnu. Rachel Corey var 23 ára gömul. Frásögn hennar hefur orðið mér umhugsunarefni og þá ekki síst sú staðhæfing að heimsbyggðin öll væri ábyrg fyrir að svipta palestínsk börn og unglinga æskunni.
Á þessari heimasíðu hefur verið fjallað ítarlega um þetta mál, m.a. 19. maí 2003. Þar var líka vikið að frásögn ungs Íslendings. Hún heitir Eva Líf Einarsdóttir. Frásögn hennar var áhrifarík. Knúinn áfram af frásögnum þressara ungu stúlkna skrifaði ég pistil undir fyrirsögninni, Látum auga heimsins hvíla Palestínu. Það þykir mér ekki hafa gengið nægilega eftir. Að vísu er oft talað flauelsmjúkri röddu af hálfu ráðamanna. En orð, mótmæli þeirra, eru hins vegar aldrei í samræmi við tilefnið.
Sjá þá frásögn sem hér er vitnað til: https://www.ogmundur.is/is/greinar/latum-auga-heimsins-hvila-a-palestinu=