Fara í efni

GÓÐ GREINARGERÐ STEFÁNS ÞORVALDAR

Stefán Þ Þórsson
Stefán Þ Þórsson
Stefán Þorvaldur Þórsson, landfræðingur, er ötull baráttumaður fyrir almannarétti í náttáurunni. Þegar mótmælt var ólögmætri gjalddöku við Kerið og Geysi síðasltiðið vor og sumar var Stefán Þorvaldur í hópi þeirra sem mótmæltu á vettvangi auk þess sem hann hefur skrifað fjölmargar blaðagreinar um efnið. Saman skrifuðum við eina slíka grein síðastliðið vor.
Stefán Þorvaldur hefur nú tekið saman greinargerð sem snýr að náttúrupassanum og hefur hann sent hana öllum þingmönnum. Greinargerð Stefáns Þorvaldar birti ég hér að neðan og hvet ég folk til að kynna sér hana:     

 

Kæri þingmaður.

Mig langar að senda þér smá samantekt, vegna væntanlegrar umræðu um náttúrupassann, sem kalla mætti árás á grundvallarréttindi Íslendinga, þ.e. almannaréttinn. Það er með ólíkindum að láta sér detta það í hug, að skerða lögbundin grundvallarréttindi almennings, vegna  ótrúlegs vaxtar í einni atvinnugrein.  Þeirri sömu og bjó til þetta vandamál, sem almenningur á nú að gjalda fyrir.

Til að bæta gráu ofan á svart, þá hefur Ragnheiður Elín sagt að „passinn" muni gilda á svæðum í eigu ríkis og sveitarfélaga, en einkaaðilar geti áfram rukkað inn á sín lönd. Veit ráðherra ekki að bæði Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun hafa gefið út þá yfirlýsingu að gjaldtaka einkaaðila, eins og í Kerinu, sé ólögleg !!  Það er greinilegt að almannahagsmunir eru ekki  leiðarljós ráðherra í þessu máli, þar sem hún tekur ítrekað upp hanskann fyrir þessa sjálftökumenn.

Hvernig getur þingheimur látið það vera, að krefja ráðherra  svara um það, hvenær gripið verði til aðgerða gegn þessari ólöglegu miðasölu í Kerinu,  í ljósi fyrrgreindra yfirlýsinga? Ykkur ber skylda til þess að stöðva þessa lögbjóta og standa vörð um rétt almennings.

Hér eru linkar á yfirlýsingar ráðuneytisins og Umhverfistofnunar:

http://www.visir.is/gjaldtaka-vid-kerid-ologmaet-ad-mati-umhverfisstofnunar/article/2014706219956

http://www.althingi.is/altext/143/s/1304.html

Varðandi náttúrupassann, þá vil ég benda ykkur á að líta á þessa skýrslu (http://www.ferdamalastofa.is/static/research/files/fjarmognun_ferdamannastada.pdf), sem ráðgjafafyrirtækið Alta vann að beiðni Ferðamálastofu til að varpa ljósi á það hvernig afla mætti tekna til að fjármagna uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða. 

Ragnheiður Elín hefur ítrekað sagt að þær leiðir sem önnur lönd hafa farið í þessum efnum, gangi ekki upp hér á landi. Það er undarlegt í ljósi þess, að í skýrslunni  eru gistináttargjald og/eða komugjöld taldar bestu leiðirnar, en ekki náttúrupassi.  Erfitt er sjá hvað vakir fyrir ráðherranum, en vonandi  er það ekki hagsmunagæsla.

Í skýrslunni stendur m.a.:

 „Árið 2009 skipaði fjármálaráðherra nefnd um umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu. Gjöldin skyldu renna til „uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áfangastaða ferðamanna og til eflingar ferðaþjónustu". Nefndin fjallaði um fjórar gjaldtökuleiðir:

Gistináttagjald, farþegagjald (sem hér hefur verið nefnt brottfarar- eða komugjald), aðgangsgjald að völdum stöðum og aðgangspassa, og umhverfisgjald sem hluta af tryggingargjaldi. Í áliti sínu mælti nefndin með gistináttagjaldi eða blandaðri leið gistináttagjalds og farþegagjalds" (bls 17 í skýrslu)

Í skýrslunni  stendur einnig. „þessi gjaldtökuleið er að öllum líkindum bæði raunhæf og fremur einföld til notkunar hér á landi"  (bls 18)

Í skýrslunni kemur einnig eftirfarandi fram, varðandi náttúrupassann: „Ekki er vitað til þess að erlendis sé að finna beina samsvörun við þetta fyrirkomulag á aðgangi að náttúrusvæðum sem unnt er að styðjast við" (bls. 21).

Hvað segir ráðherra við þessu? Hvergi annarsstaðar fyrirfinnst sú firra að almenningur  gangi með passa fyrir aðgang að eigin landi, enda stangast það beint á við rétt almennings hér á Íslandi. Væntanlega er það einnig ástæðan fyrir því að „náttúrupassa" er ekki að finna í öðrum löndum.

Einnig leggjast öll ferða- og útivistarfélög gegn þessu, ásamt samtökum ferðaþjónustunnar !!

Náttúrupassinn er þar að auki fullkomið brot á almannaréttinum, þar sem Íslendingum verður meinaður aðgangur að þeim svæðum sem krefjast „ passans", þ.e.a.s  þeirra sem ekki vilja greiða fyrir hann.  Ekki er ég lögfræðingur, en varla er hægt að setja lög sem ganga þvert á fyrirliggjandi lög sem tryggja rétt fólks til frjálsrar farar um landið, án reisupassa.  Mætti ekki kalla slíkt ólög.

„Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða" - ekki satt?

Gefum okkur það, að þessi passi verði að raunveruleika. Hver á að ákveða hvaða svæði verða innan hans?  Hvaða tryggingu hefðu landsmenn að þetta ætti bara við fjölsóttustu ferðamannastaðina, en ekki  önnur svæði.  Í versta falli væri stór hluti landsins orðin „passaskyldur" eftir mörg ár, þar sem erfitt gæti verið að stöðva slíka þróun.  Þetta er kannski svartsýni, en það hljóta allir að sjá hve galið það væri að veita stofnun eða ráðuneyti, rétt til þess að ákveða hvar almenningur má vera, án einhverskonar passa, sem gæti þessvegna tvöfaldast í verði á hverju ári.  Hversu margir öryggisverðir  verða í vinnu við „passaskoðun"?  Verða þeir í sjálfboðavinnu?

Þeir sem ekki vilja greiða, fá sem sagt ekki aðgang að þessum svæðum.  Þetta væri fullkomin skerðing á grundvallarrétti Íslendinga, það sér allt hugsandi fólk.

Nú stígur umhverfisráðuneytið fram með þá yfirlýsingu, að það telji náttúrupassann ekki  skerða almannarétt (hádegisfréttir RÚV 3.des).  Góð yfirlýsing, eða hitt þó heldur, frá sama ráðuneytinu sem lætur lögbrot Kerfélagsins í Grímsnesi óáreitt,  eftir að hafa gefið út yfirlýsingu um ólögmæti þeirrar miðasölu (sbr. Fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur).  

Þetta ráðuneyti vinnur gegn almannahagsmunum, a.m.k. hvað þessi mál varðar. Það er ljóst.

Það sama má segja um ráðherra ferðamála.

Með kveðju,

Stefán Þ. Þórsson, landfræðingur