GÓÐ HUGSUN INN Í NÝTT ÁR
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari kvenna í skák, flutti skemmtilegan fyrirlestur í húsakynnum Skáksambandsins um nýliðna helgi.
Fyrirlesturinn var kraftmikill og vekjandi fyrir troðfullum sal Skáksambandsins og mátti kenna þar margan skákmeistarann sem margir hverjir tóku þátt í fjörugri umræðu að fyrirlestri loknum. Við Guðfríður Lilja áttum um skeið samleið á Alþingi en þaðan hvarf hún til starfa hjá Evrópuráðinu þar sem hún nú gegnir stjórnunarstöðu á sviði mannréttindamála.
Í fyrirlestrinum vísaði Guðfríður Lilja í lögmál skáklistarinnar og hvernig þau geti nýst í lífinu almennt.
Inntakið var þetta: Lífið er háð síbreytilegum aðstæðum, við beitum dómgreind og reynslu þegar við bregðumst við þeim en þá kunna að skapast nýjar ófyrirsjáanlegar aðstæður sem krefjast nýrra viðbragða. Hvort sem er við skákborðið eða á taflborði lífsins þurfum við því á árvekni að halda.
Þannig sé skákin og þannig sé lífið, kalli á stöðugt endurmat, jafnvel efasemdir. En aldrei megum við staðna, aldrei hræðast næsta leik, því með honum skapist ný tækifæri með nýjum sóknarfærum. Verkefnið sé að koma auga á þau.
Skilaboðin séu þess vegna: Ekki óttast það sem framundan er. Jafnvel þegar tekin sé röng ákvörðun megi leiðrétta hana síðar. Það séu alltaf úrræði.
Þetta eru góð skilaboð inn í nýtt ár.
--------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.