GÓÐ SKILABOÐ FRÁ BESSASTÖÐUM
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands flutti góða ræðu við setningu Alþingis í gær. Orð hans voru í tíma töluð. Hann sagði að við yrðum að hlúa að menningararfi þjóðarinnar ekki aðeins sem þakkargjörð við liðinn tíma, "heldur til þess að við glötum ekki sálu okkar, slítum ekki upp ræturnar í umrótinu sem fylgja mun hinni nýju öld.
Sjálfsmynd og staðfesta íslenskrar þjóðar hvílir einkum á þremur stoðum:
- Arfleifðinni sem íbúar dreifðra byggða hafa skapað.
- Samkenndinni sem hliðstæð lífskjör festu í sessi.
- Tungumáli sem gaf menningunni ávallt nýjan sköpunarkraft.
Þessi þrenning arfleifðar, samkenndar og tungu á nú í vök að verjast og því áríðandi að hugað sé vel að stefnumótun og ákvörðunum."
Ég finn það að Íslendingar skynja að nú þarf í alvöru að rísa upp til varnar íslenskum menningararfi. Peningamennirnir sem sýsla með sálarlaust silfrið og þjónar þeirra gefa lítið fyrir íslenska tungu og íslenska menningu og þótti mér gott að hlýða á orð forseta lýðveldisins sem ganga þvert á þennan vesala innihaldsrýra tíðaranda.
Ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, birti ég hér að neðan:
"Þegar þingmenn koma að nýju saman eru að venju fagnaðarfundir en um leið sorg og söknuður í hugum allra því einstakur þingskörungur er ekki lengur á meðal okkar, féll frá á fögrum degi, hné að moldu þegar hann var að klífa fegursta fjall sinnar heimabyggðar. Í síðasta viðtalinu sem tekið var við Einar Odd Kristjánsson, fáeinum dögum fyrir andlát hans og birt í höfuðblaði Vestfirðinga, brýndi hann menn til dáða í baráttunni fyrir lífskjörum fólksins á landsbyggðinni, áréttaði að í raun væri í húfi þjóðarhagur.
Þessi orð urðu í reynd hinsta kveðja hans til Íslendinga:
„En það er ákaflega dýrmætt fyrir framtíð þessarar þjóðar að við berum gæfu til að byggja þetta land. Ef það gengur ekki erum við í mikilli hættu, bæði menningarlega og siðferðislega.“
Orð Einars Odds ættu að verða okkur öllum veganesti, leiðarljós í stefnumótun, grundvöllur í viðhorfum þings og þjóðar.
Þau minna okkur á hverjar eru rætur Íslendinga, hvað hefur umfram annað gert okkur að einni þjóð, skapað samkennd og kraft sem dugðu best þegar á brattann var að sækja, þegar baráttan fyrir sjálfstæði og efnahagslegum rétti var í algleymingi og útfærsla landhelginnar kostaði hörð átök við nágrannaþjóð.
Við lifum nú aðra tíma og njótum árangurs á mörgum sviðum, umsvif atvinnulífsins aldrei verið meiri og útrásin til annarra landa orðin arðsöm á einstæðan hátt. Meiri auður safnast nú á færri hendur en við höfum áður kynnst.
Í þessu umróti öllu, í hraðfleygri sókn á vígstöðvum í ólíkum áttum, er áríðandi að missa ekki sjónar af þeim grundvallarþáttum sem gert hafa
Íslendinga að einni þjóð, skapað sérhverri kynslóð reynslu og vitund sem tengdu fólkið í landinu saman.
Einar Oddur Kristjánsson minnti okkur á að rætur Íslendinga eru á landsbyggðinni, að lífsbarátta bænda og sjómanna, fólksins í dreifðum byggðum skóp jarðveginn sem nærði menningu okkar og siðferðisvitund. Þaðan erum við komin flest. Sveitirnar og sjávarþorpin veittu okkur veganestið sem best hefur dugað.
Framtíð þessara byggða vítt og breitt um landið allt verður því aldrei hægt að meta á arðsemiskvarðann einan, né árangurinn aðeins mældur í ársreikningum. Hér er meira en fjárhagur í húfi – öllu heldur sjálfar rætur þjóðarinnar, uppruni okkar og eðlisþættir.
Þegar spurt er: Hvað hefur dugað Íslendingum einna best og gerir enn á okkar tímum? Þá er svarið næsta einfalt: Arfurinn sem sjómenn og bændur, landsbyggðin gaf okkur í heimanmund.
Það verður því að hlúa að honum, ekki aðeins sem þakkargjörð við liðna tíma, heldur fyrst og fremst til að við glötum ekki sálu okkar, slítum ekki upp ræturnar í umrótinu sem fylgja mun hinni nýju öld.
Sjálfsmynd og staðfesta íslenskrar þjóðar hvílir einkum á þremur stoðum:
- Arfleifðinni sem íbúar dreifðra byggða hafa skapað.
- Samkenndinni sem hliðstæð lífskjör festu í sessi.
- Tungumáli sem gaf menningunni ávallt nýjan sköpunarkraft.
Þessi þrenning arfleifðar, samkenndar og tungu á nú í vök að verjast og því áríðandi að hugað sé vel að stefnumótun og ákvörðunum.
Líkt og landsbyggðin glímir við margslunginn vanda þá á samkenndin undir högg að sækja því sífellt breikkar bilið í lífskjörunum. Hinn mikli auður sem umsvifin á erlendum vettvangi hafa skapað má ekki verða til að böndin trosni sem bundið hafa þjóðina saman. Hitt væri miklu frekar óskandi, að vaxandi auðlegð verði til að útrýma fátæktinni meðal okkar og styrkja verkefni sem gefa sem flestum ný tækifæri – og einnig að hún nýtist okkur til að veita öflugt liðsinni öðrum þjóðum sem eru í vanda, þjóðum sem nú takast á við áskoranir sem við þekkjum margar frá fyrri tíð, erfiðleika sem Íslendingar glímdu við.
Ábyrgð þeirra sem skara framúr er jafnan rík en sérstaklega á það þó við um okkur Íslendinga því öll erum við sprottin úr sama jarðveginum, eigum samkennd og samstöðu kynslóðanna mikið að þakka. Án hennar hefðum við litlum árangri náð.
Um leið og hin mikla sigling atvinnulífsins heldur áfram verða stjórnendur hennar ávallt að hafa hugfast að það var þjóðin öll sem gerði þeim kleift að ýta úr vör. Keppnisandinn, þótt gagnlegur sé, má aldrei slíta véböndin sem tengt hafa fólkið í landinu hvert við annað, gert okkur að einni þjóð.
Ef ólík lífskjör spilla friði á heimavelli er hætta á að vindurinn fari fyrr en varir úr seglum íslenskra fleyja á mörkuðum heimsins.
Það skildi Einar Oddur manna best, oddviti atvinnulífsins sem ávallt bjó með sínu fólki í Önundarfirði, þekkti ræturnar og gætti þeirra af einstakri natni. Það var tungutakið vestan af fjörðum sem gerði honum kleift að móta nýjan þjóðarvilja.
Íslenskan, móðurmálið, hefur verið akkeri og nægtabrunnur, auðlegð í aldanna rás þegar erlend áþján, kúgun og arðrán sviptu háa sem lága nær allri björg, lífæð baráttunnar fyrir sjálfstæðum rétti, uppspretta bókmennta sem gáfu Íslendingum aukinn kjark, efldi sjálfstraust sem til þurfti þegar hin fátæka þjóð var að hasla sér völl meðal ríkja heims.
Með íslenskuna að vopni höfum við tileinkað okkur þekkinguna sem vísindamenn hafa hingað til aflað, gert æ fleiri fræðasvið að vettvangi okkar, auðgað menninguna í ríkum mæli.
Engin efnisrök eru fyrir því að nú verði að víkja íslenskunni til hliðar ef háskólar og fyrirtæki eiga að ná í fremstu röð og hæpið að halda því fram að íslenskan geti ekki áfram verið jafnoki heimsmálanna í þekkingarsköpun og atvinnulífi. Þvert á móti ber að efla íslenskukennslu í skólum landsins um leið og við aukum leikni námsfólks í erlendum málum og hjálpum þeim sem hingað koma frá öðrum löndum að læra íslenskuna.
Þótt hnattvæðingin skapi okkur fjölda nýrra tækifæra og gagnlegt sé að auðvelda aðgang erlendra manna að samvinnu við Íslendinga skulum við ekki gleyma því að sérstaðan gefur okkur gildi; ekki það að falla inn í fjöldann mikla, verða eins og allir hinir. Landsbyggðin, samkenndin, móðurmálið – þrenning sönn og ein; þjóðargæfa að þessir þræðir ófust saman.
Með þeim orðum bið ég alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar."