Góður Landsfundur VG
Um helgina hélt Vinstrihreyfingin grænt framboð einstaklega vel heppnaðan landsfund. Ályktað var um aðskiljanleg efni og var mikil áhersla á velferðarmál, umhverfismál og alþjóðamál. Umræða um jafnrétti kynjanna setti einnig mjög svip á fundinn. Hann var góður að mjög mörgu leyti. Eftir hann liggur afrakstur mikillar stefnumótunarvinnu og frá fundinum komu mjög jákvæð skilaboð út í þjóðfélagið. Þessi skilaboð um baráttuglaðan vinstrisinnaðan félagshyggjuflokk voru mörgum mjög kærkomin í kjölfar landsfundar Samfylkingarinnar þar sem áherslur voru talsvert lengra til hægri en áður hefur heyrst úr þeim herbúðum. Markaðsvæðing heilbrigðisþjónustunnar virðist komin á dagskrá þar á bæ! Að vísu er okkur sagt að Samfylkingin eigi eftir að kanna málið – en það vekur athygli, að einmitt nú þegar vitað er um átök innan ríkisstjórnarinnar um stefnuna í heilbrigðismálum, skuli Samfylkingin leggja lóð sitt á vogarskálar með markaðshyggjumönnum.
Sterkir innviðir
Landsfundur VG var einnig góður fyrir flokkinn inn á við. Enda þótt mikil eftirsjá sé í Svanhildi Kaaber úr embætti varaformanns flokksins og Kristínu Halldórsdóttur úr embætti ritara ( hún fer reyndar ekki langt því hún er eftir sem áður framkvæmdastjóri VG) þá koma galvaskar ungar konur í þeirra stað: Katrín Jakobsdóttir var kosin varaformaður og
Hvernig á að kjósa í stjórnir?
Talsvert var um kosningar í stjórn VG og komust færri að en vildu. Uppstillingarnefnd var hins vegar með afgerandi vísbendingar sem urðu að endanlegri niðurstöðu. Á undanförnum árum hefur talsvert verið rætt um fyrirkomulag við kosningar í félagasamtökum og er ég í hópi þeirra sem hef vaxandi efasemdir um uppstillingarnefndarformið og gerist æ hlynntari opnum kosningum. Sá sem býður sig fram í stjórnir og ráð án þess að vera tilnefndur af uppstillingarnefnd á yfirleitt litla möguleika á kosningu. Sú spurning vaknar hvort þetta sé nægilega lýðræðislegt form.
Svanhildur með frá fyrstu byrjun
Sem áður segir er mikil eftirsjá í Svanhildi Kaaber sem verið hefur í fremstu víglínu VG frá upphafi. Hún tók þátt í stofnun flokksins og var reyndar með í öllum aðdragandanum. VG á sér margar rætur. Ein heitir Stefna, félag vinstri manna, sem stofnað var á fyrri hluta ársins 1998 með það fyrir augum að búa í haginn fyrir kröftuga baráttu vinstri manna. Niðurstaðan varð Vinstrihreyfingin grænt framboð þar sem fólk úr ýmsum áttum, þar á meðal úr Stefnu, tók höndum saman.
Eftir þennan landsfund og þær líflegu og skemmtilegu umræður sem þar fóru fram, velkist ég ekki í nokkrum vafa um að Vinstrihreyfingin grænt framboð á bjarta framtíð.