GÖMLU FÖTIN KEISARANS?
19.03.2010
Aðferðafræði skiptir máli. Stundum virðist manni hægt að færa sönnur á hvað sem er með mismunandi framsetningu á tölum og líkindum. Í tengslum við Icesave er hafið mikið trúarbragðastríð þar sem sjónhverfingum talnafræðinnar er óspart beitt og kanínur dregnar upp úr hatti í gríð og erg.
Menn skiptast í fylkingar yfir meintum sparnaði eða tilkostnaði af frestun Icesave samninga. Sitt sýnist hverjum.
Ég hef verið í hópi þeirra sem telja að frestunin hafi ekki verið til ills, ekki bara vegna þess að kjörin á Icesave hafa farið stórbatnandi heldur vegna hins að frestunin hefur komið bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og íslenskum stjórnvöldum niður á jörðina hvað varðar áætlaða þörf á gjaldeyrisvaraforða. Gjaldeyrisforðinn hefði kostað okkur upp undir 20 milljarða í erlendum gjaldeyri í vexti á ári hverju ef farið hefði verið í þá vegferð sem upphaflega var ráðgerð. Munar um minna þegar nú er talað um að draga verulega úr þessari lántöku og spara okkur þarmeð gríðarháar upphæðir í vaxtakostnaði.
Hitt er svo annað mál að íslenska peningakerfið hrundi með hrikalegum afleiðingum fyrir efnahagslífið í heild sinni. Mikilvægt er að menn sjái orsakasamhengið í réttu ljósi.
Ég skal játa að fræðimenn við háskólana og pennaliprir talnaspekúlantar hafa stundum sett fram staðhæfingar um þetta málefni sem ég hef átt erfitt með að átta mig á. Ekki hef ég orðið var við mikla sjálfsgagnrýni á þessum bæjum og ekki séð andæft staðhæfingum um að frestun á Icesave hafi leitt til taps upp á 75 milljarða á mánuði hverjum - 900 milljarða á ári! - einsog einn hagspekingur hefur haldið fram. http://www.visir.is/article/20100129/SKODANIR03/77462004/1165
Þetta eru ævintýralegar tölur og sannast sagna þykja mér þær eiga heima í ævintýralandi en ekki neinu sem nálgast veruleikann. Það finnst líka Frosta. Gæti verið að hann hafi hitt naglann á höfuðið í lesendabréfi hér á síðunni sem er býsna afhjúpandi: https://www.ogmundur.is/is/greinar/tvo-reikningsdaemi-frosta Fróðlegt væri að heyra hagfræðinga háskólanna tjá sig um hvers vegna lánshæfismatið er á uppleið fyrir Ísland, vextir fara lækkandi, gengið styrkist ....en samt er ósamið.