Fara í efni

GOTT AÐ FÁ ÁMINNINGU

Þá er ég kominn vestur um haf til sjálfrar höfuðborgar BNA, Washington DC. Margt gott er um þá borg að segja, það er búi maður í góðu hverfi, því hin eru til líka þar sem skorturinn ríkir og óöryggið. Þar þykir vissara að hafa byssu við hendina.

Í stærri matvörubúðum borgarinnar eru vopnaðir verðir þannig að óþarfi er að viðskiptavinirnir séu undir vopnum – eiga reyndar alls ekki að hafa byssu með sér í búðarferð. Eins gott að vera minntur á það. En ennþá betri er þó sú tilhugsun að í Melabúðinni heima þurfi ekki að minna neinn á það að skilja byssuna sína eftir heima.

Það er líka óþarfi í Hagaskólanum. Þar er ekki vopnaleit við skóladyrnar. Það tíðkast hins vegar í þessari borg.

En svo eru söfnin, öllum opin og velvildin skín úr andliti hvers manns sem á vegi manns verður. Almennt eru Kanar gott fólk og þægilegt eins og flest fólk er inn við beinið.

Verst að þingið þeirra Ameríkana skuli nú hafa samþykkt að verja átta þúsund milljörðum króna til vopnakaupa, til viðbótar við allar þær eldflaugar og sprengjur sem áður hafa verið framleiddar fyrir stríðsreksturinn í Úkraínu; til að halda stríðinu þar gangandi með tilheyrandi eyðileggingu og blóðsúthellingum.

Eins og við var að búast brást Selensky Úkraínuforseti glaður við og sagði að þetta myndi bjarga mörgum mannslífum! Það held ég að sé af og frá enda dómgreind og siðferðiskennd þess manns ekki alltaf til að stóla á. Í það minnsta ekki þegar hann lýsir stuðningi við hernaðarofbeldi Ísraels á Gaza.

Meira sannfærandi þótti mér leigubílstjórinn sem sagði að Bandaríkjaþing væri fyrst og fremst að styrkja bandariskan vopnaiðnað. Þetta væru góðar fréttir fyrir þá sem ættu þann iðnað en að sama skapi slæmar fréttir fyrir bandaríska skattgreiðendur og fátækt fólk í Bandaríkjunum, sagði þessi leigubílstjóri og var talsvert niðri fyrir. Og hafði hann þar með alls ekki lokið máli sínu.

Svona er lífið, hugsaði ég, flókið og fullt af mótsögnum.

Eða er þetta kannski ekkert flókið? Það er að segja, taki maður þá afstöðu að hergagnaiðnaðurinn eigi ekki að stjórna heiminum. Og að alltaf eigi að reyna að eiga friðarviðræður við andstæðinginn, það sé alltaf betra en að reyna að drepa hann. Það gæti nefnilega farið svo að við yrðum öll drepin í leiðinni og er ég þá aftur kominn inn í einræðu leigubílstjórans míns sem mér fannst hafa lög að mæla. Og eftir því sem ég hlustaði meira fannst mér málflutningur hans hvorki mótsagnakenndur né flókinn.

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.