GOTT FRAMTAK HJÁ MÚRNUM
Undir það skal tekið með vefritinu Múrnum að á meðan leynd hvílir yfir sjóðum stjórnmálaflokka er líka hægt að hafa áhyggjur af samskiptum peningamanna og stjórnmálamanna.
Múrinn hefur látið fyrirtækið Auglýsingamiðlun taka saman tölur um áætlaða eyðslu stjórnmálaflokka vegna komandi kosninga til sveitarstjórna. Í þessari áætlun er ekki að finna mat á kostnaði við gerð bæklinga og auglýsinga, leigu á jeppum, flettiskiltum, né neinum þeim varningi sem framboðin bjóða upp á. Einungis er um að ræða birtingar í stærstu fjölmiðlum landsins þannig að hér eru á ferð algjörar lágmarkstölur um kostnaði við kynningarstarf flokkanna. Niðurstöðurnar eru athyglisverðar. Mestur er auglýsingakostnaður Framsóknarflokksins, á hæla hans kemur Sjálfstæðisflokkurinn en Vinstrihreyfinigin grænt framboð rekur lestina.
Múrinn segir ástæðurnar fyrir því að þessi gögn hafi verið tekin saman séu einkum tvær.
Í fyrsta lagi vilji Múrinn með þessu móti stuðla að umræðu um mjög mikilvægt málefni. Múrarar spyrja hvort það sé "jákvæð þróun fyrir lýðræði á Íslandi að sífellt meira fé sé veitt í auglýsingar skömmu fyrir kosningar? " Þetta þurfi að fá umræðu í þjóðfélaginu.
Hin ástæðan er þessi: "Á Íslandi eru stjórnmálaflokkar ekki skyldugir til að hafa bókhald sitt opið eins og í mörgum nágrannaríkjum okkar. Þar af leiðandi er ekki um gagnsæi að ræða þegar kemur að fjármögnun kosningabaráttu á Íslandi. Má það teljast alvarlegur ágalli á lýðræðislegum stjórnarháttum. Á meðan leynd hvílir yfir sjóðum stjórnmálaflokka er líka hægt að hafa áhyggjur af samskiptum peningamanna og stjórnmálamanna."
Sjá nánar HÉR