Fara í efni

GUANTANAMÓ Í DAGFARA

Í nýútkomnum Dagfara, tímariti hernaðarandstæðinga, kennir margra grasa.

Minnst er atburðanna á Austurvelli 30. mars árið 1949 þegar meirihluti Alþingis stimplaði, illu heilli, Íslendinga inn í NATÓ að þjóðinni forspurði. Lögreglan gerði síðan aðför að fólki sem kom til að mótmæla þessu gerræði og í kjölfar réttarhalda þar sem ljúgvitni fengu hlutverk voru kveðnir upp fangelsisdómar yfir hópi manna og þeir sviptir kosningarétti og kjörgengi.

Þetta er mál sem aldrei verður of oft rifjað upp, svo alvarlegt víti er það til varnaðar.

Í Dagfara er minnt á þá sorglegu staðreynd að hlutlausum þjóðum fari fækkandi og er þá horft sérstaklega til Svíþjóðar þar sem skoðanakannanir hafi í áránna rás jafnan sýnt að meirihluti sænsku þjóðarinnar hafi verið mótfallinn inngöngu í NATÓ, þar til nú í augnablikinu og er þá í skyndingu hoppað inn í NATÓ meðal annars að áeggjan Íslands og eins og fyrri daginn, - án þess að þjóðin væri spurð.

Hernaðurinn og loftslagið er áhugaverð grein, þar sem við erum minnt á það að í mælingum á mengun eru herir undanþegnir - ekki hafðir með í mælingum! Frá þeim stafi með öðrum orðum engin mengun. Þetta mun hafa verið svo allt fra Kyooto ráðstefnunni í Japan fyrir margt löngu að kröfu bandaríska hersins. Hernaðarmaskínan bandaríska réði eins og fyrri daginn, aðrir hlýddu og þögðu og gera enn. Þökk sé Dagfara að minna á þetta.

Stutta en fróðlega grein um Húta er að finna í tímaritinu, spurt er og síðan svarað hverjir þeir séu.

Dagfari biritr einnig ítarlega grein – þarfa mjög – um kjarnorkuvána eftir Tjörva Schiöth, sagnfræðing.

Ég á eininng grein í Dagfara að þessu sinni og nefnist hún, Guantanamó fangi á Íslandi, og fer hún hér á eftir:

Mohamedou Ould Slahi heitir hann fullu nafni, 53 ára Máritaníumaður sem sagði sögu sína á fundi í Safnahúsinu laugardaginn 9. mars og samdægurs var sýnd kvikmyndin Máritaníumaðurinn sem fjallar um sögu hans og hlutskipti í Guantanamó fangabúðunum.

Í Safnahúsinu kom Mohamedou fram undir merkjum fundaraðar sem ber yfirskriftina Til róttækrar skoðunar en viðburðurinn var einnig í samvinnu við Bíó Paradís sem fékk umrædda bíómynd til sýningar og Samstöðina sem streymdi fundinum og er auk þess með viðtal við Mohamedou og dr. Deepu Govindarajan Driver sem rýnt hefur í upplýsingar, sem meðal annars hafa komið fram í skjölum Wikileaks, um fangabúðirnar í Guantanamó.

Þar með hófst martröðin

Í stuttu máli er ævi Mohamedous á þá leið að hann er níundi af tólf í systkinaröð. Faðirinn var úlfaldahirðir á eyðimerkursöndum Máritaníu en féll frá þegar Mohamedou var á barnsaldri og fluttist fjölskyldan þá til höfuðborgarinnar Nouakchott. Hann þótti snemma afburðanemandi og fékk þýskan námsstyrk til að stunda nám í Duisburg í Þýskalandi í verkfræði. Hann hafði snúið aftur til heimalands síns þegar bandaríska leyniþjónustan bankaði uppá. Þar með hófst martröð sem varði í fimmtán ár – og mun reyndar á sinn hátt vara allt líf þessa manns því áralangar pyntingar hverfa hvorki úr líkama né sál þeirra sem fyrir þeim verða.

Mohamedou var tekinn höndum haustið 2001. Fyrst í stað var hann sendur til Jórdaníu. Þar var hann hafður í haldi í tæpt ár áður en hann var sendur til Guantanamó fangabúðanna á Kúbu. Búðirnar draga heiti sitt af samnefndum flóa sem Bandaríkjamenn hafa yfirráð yfir. Þarna má “yfirheyra” fanga utan mannréttindalögsögu Bandaríkjanna. Slík svarthol, “blackholes”, var víðar að finna utan Bandaríkjanna, en Guantanamó var og er stærsta slíkt svarthol.

Að hætti sadista

Við flutninginn frá Jórdaníu var Mohamedou sagt að til stæði að láta hann lausan. Annað kom á daginn því nú hófst martröðin fyrir alvöru. Bandarískir kvalarar hans tóku nú alfarið við honum. Við brottför á flugvellinum í Jórdaníu voru fötin klippt utan af honum með skærum – augljóslega allt að hætti sadista - þar til hann var kviknakinn. Þá var hetta sett yfir höfuð hans, hann færður í bleyju og síðan járnaður á höndum og fótum áður en hann var leiddur upp í herflutningavél sem flaug með hann til Guantanamó – fangabúðanna sem nú var verið að opna.

Mohamedou var gefið að sök að hafa safnað saman liðsveit sem hefði síðan ráðist á tvíburaturnana og fleiri byggingar í New York svo og á Pentagon hinn 11 september 2001. Hann var með öðrum orðum skilgreindur sem sá versti af öllum illum, höfuðóvinur Bandaríkjanna. Með góðu eða illu skyldi hann játa á sig þessar sakir og hljóta fyrir dauðadóm. Verkefnið var að láta hann gangast við því sem upp á hann var borið.

Í Guantanamó undirgekkst Mohamedou yfirheyrslur með pyntingum, svo grimmilegum að orð fá þeim varla lýst. En einmitt þess vegna var ekkert látið heita sínum réttu nöfnum. “Enhanced interregation techniques” hét það þegar fangarnir voru kvaldir sem mest. Spurning er hvernig best væri að snúa þessu yfir á íslensku, en þróuð eða framsækin yfirheyrslutækni væri eflaust í áttina. Tæknin fólst í því að niðurlægja og meiða sem mest og ganga þar alveg að mörkum lífs og dauða.

Í gögnum sem lögð hafa verið fyrir alþjóðaglæpadómstólinn í Haag liggur fyrir skjalfest að tillögur bandarísku leyniþjónustunnar CIA um pyntingar hafa fengið samþykki í efstu stjórnsýslu Bandaríkjanna, eins og til dæmis þetta:” … the following ten techniques on an “as-needed basis” and in an “escalating fashion” was approved: attention grasp, walling, facial hold, facial slap (insult slap), cramped confinement, wall standing, stress positions, sleep deprivation, insects placed in confinement box, and waterboarding.” (International Criminal Court No. ICC- 02/17, paragraph 237)

Kvalararnir voru hinir seku

Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi yfir pyntingaraðferðir en þarna er talað um að banka höfði fórnarlambsins í vegg en þetta mun hafa verið tíðkað mikið í Guantanamó auk þess sem dæmi voru um að einstaklingum sem óttuðust tvennt, dauðann og skordýr, var komið fyrir í líkkistu, skordýr sett ofan í hana og lokið á svo skorkvikindin fengju ráðrúm til að skríða sem víðast um manninn sem átti að játa það sem á hann var borið. Af 780 manns sem gengu í gegnum þetta víti á jörðu reyndust sárafáir sekir um nokkur illvirki.
Hinir seku voru kvalarar þeirra.

Mohamedou lét ekki undan kvölurum sínum þrátt fyrir áralangar misþyrmingar svo villimannlegar að orð fá þeim varla lýst. Hann hélt fram sakleysi sínu, tilbúinn að láta allt yfir sjálfan sig ganga til að halda sannleikanum til streitu. En það var þegar komið var að öðrum, og þá þeirri manneskju sem honum var kærust, að hann gafst upp. Það var þegar honum var sagt að búið væri að taka móður hans höndum heima í Máritaníu og að til stæði að flytja hana til Guantanamó. Þar yrðu fangar látnir nauðga henni kerfisbundið þar til hann játaði. Þarna voru mörkin. Mohamedou kvaðst ekki geta afborið þetta, hann myndi skrifa undir allar þær játningar sem óskað væri eftir.

Obama áfrýjar

Upplýsingar um að Mohamedou væri í Guantanamó bárust um síðir Nancy Hollander sem varið hefur Chelsea Manning og fleiri uppljóstrara um stríðsglæpi Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra. Nancy Hollander tókst að sýna fram á að játningar Mohamedous hefðu verið knúnar fram með pyntingum. Bandarískur dómstóll úrskurðaði í framhaldinu að hann skyldi látinn laus. Við svo búið áfrýjaði Obama-stjórnin en náði ekki að hnekkja þessum úrskurði. Engu að síður var Mohamedou haldið í Guantanamó í 7 ár til viðbótar – en nú án pyntinga.
En hver er hin pólitíska umgjörð Guantanamó og mannréttindabrota þar og í öðrum svartholum?

“Stríð gegn hryðjuverkum”

Umgjörðin er sú að George Bush junior, þáverandi Bandaríkjaforseti lýsti yfir stríði á hendur hryðjuverkum, “war on terrorism”, skömmu eftir að tvíburaturnarnir ásamt fleiri byggingum voru jafnaðir við jörðu hinn ellefta september árið 2001. Í stríði gegn hryðjuverkum þurfti að sjálfsögðu að finna hryðjuverkamenn til að berjast gegn og stað til að geyma þá á og knýja til sagna. Nú varð til Homeland security, hert var á allri löggjöf sem varðaði öryggi ríkisins og þess var skammt að bíða að Guantanamó búðirnar væru opnaðar.

Yfir Bandaríkjunum sveif nú skyndilega allt annar andi en lengi hafði þekkst þar. Þeir sem voguðu sér að gagnrýna stjórnvöld og stríðsrekstur þeirra í Afganistan og síðar Írak voru sagðir vera föðurlandssvikarar sem ógnuðu öryggi bandarískra borgara. Hefur eimt af þessu allar götur síðan og er það ekki fyrr en nú að raddir eru að byrja að heyrast sem láta ekki kveða sig í kútinn þrátt fyrir vaxandi viðleitni til að gera einmitt það á nýjan leik.

Gagnrýnendur heimsvaldastefnu Bandaríkjanna eiga ekki alltaf auðvelt en þar er að finna það fólk sem ég tel helst virðingarvert og horfi ég ekki síst nú þessa dagana til gyðinga sem gagnrýna zíonismann og ísraelsk stjórnvöld vegna ódæðisverkanna á Gaza. Þá eiga þeir Bandaríkjamenn lof skilið sem gagnrýna hergagnaiðnaðinn fyrir að kynda undir ótta fólks svo auðvelda megi aukna vígvæðingu í heiminum.

En á þeim tíma sem martröð Máritaníumannsins Mohamedous var að hefjast, í upphafi aldarinnar, bar allt að sama brunni. Nú þurfti að sanna að sömu öfl og Bandaríkin höfðu áður stutt í Afganistan, væru ábyrg fyrir öllu illu, Al Qaeda hefðu fengið athvarf hjá Talibönum í Afganistan sem þannig hefði sýnt sig að vera árásarríki sem réttmætt væri að ráðast á.

Mohamedou var sem áður segir gefið að sök að hafa tekið þátt í að safna liði fyrir Al Qaeda og skipuleggja hryðjuverk. Allt þetta var rangt og upplogið. Hins vegar hafði hann sem kornungur maður um tvítugt haldið til Afganistan til að taka þátt í baráttu þar. Aftur var hann sömu erinda í Afganistan tveimur árum síðar, þá tuttugu og tveggja ára, en sagði sig eftir það frá öllum samskiptum við pólitísk öfl í Afganistan.

Ábatasamar lygar

Ég hef hitt fleiri fanga frá Guantanamó sem höfðu hafnað þar eftir að þeir höfðu í orðsins fyllstu merkingu verið seldir í hendur Bandaríkjamanna. Bandaríkjamenn buðu nefnilega álitlegar peningaupphæðir fyrir að segja til hryðjuverkamanna. Létu þá margir freistast til að ná sér í slíkt mútufé eða húsnæði viðkomandi ef því var að skipta.

Guantanamó er ekki einu “mannréttindalausu” fangabúðirnar utan lögsögu Bandaríkjanna. Slíkar búðir hafa verið víðar og oft vísað til þeirra sem svarthola, blackholes.

Þegar Mohamedou var látinn laus haustið 2016 hafði hann verið í einangrunarfangelsi þriðjung ævi sinnar, í fimmtán ár. Helminginn af þeim tíma mátti hann þola grófar misþyrmingar, andlegar og líkamlegar, þróaða yfirheyrslutækni bandaríska hersins, til þess að fá hann til að játa á sig upplognar sakir. Aldrei voru glæpir eða misferli sönnuð á Mohamedou, honum var því aldrei birt ákæra, þaðan af síður hlaut hann dóm.

Hann var sendur til heimalands síns, og skipað að halda sér þar næstu árin, en er nú um sinn í Hollandi og er hann á góðri leið að verða heimsþekktur rithöfundur.

Hafnar hatrinu

Í Íslandsheimsókn Mohamedous kom fram hve aðdáunarlega honum hefur tekist að sigrast á hatri og óvild í garð kúgara sinna. Hann hefur sagt að losni menn ekki undan slíkum hugrenningum sé þeim voði búinn. Með velvildinni megi hins vegar græða sár, eigin sár og annarra. Það þýði hins vegar ekki að okkur beri ekki að beita okkur gegn rangæti og ofbeldi, þvert á móti beri okkur að sjálfsögðu að gera það en ekki með hatursfullum hætti.

Íslendingar eru ekki saklausir í þessum efnum. Þögn stjórnvalda fyrr og nú er ærandi. Guantanamó fangabúðirnar eru enn starfræktar, þar viðgangast enn pyntingar af hálfu ríkis sem þykist vera málsvari mannréttinda og frelsis. Svo er hins vegar ekki og það á að segja hátt og skýrt auk þess að Íslendingar eiga að segja sig frá allri samvinnu við þetta ríki á þeim sviðum sem tengjast hernaðarofbeldi og mannréttindabrotum. Á íslensku hefur þetta stundum verið orðað áður og þá með þessum hætti: Ísland úr NATÓ herinn burt!

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.