Fara í efni

GUÐLAUGUR ÞÓR TALAR, SAMFYLKING ÞEGIR

24 stundir
24 stundir

Birtist í 24 stundum 30.07.08.
Annað veifið birtast stór helluviðtöl  við Guðlaug Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, í dagblöðum, nú síðast í þessu blaði, 24 stundum, 26. júlí.
Í þessu viðtali sem og öðrum við þennan ráðherra,  kemur fram mótsagnakennd afstaða. Annars vegar sendir Guðlaugur Þór út merkjasendingar til gamalla félaga sinna í SUS um að hann sé maður einkamarkaðar. Þannig  segir hann, svo dæmi sé tekið, að mikilvægt sé að kennsluhlutverki í læknavísindum sé ekki aðeins sinnt á almennum sjúkrastofnunum, því hann telji „gott fyrir nemendur að kynnast öðru en opinberum stofnunum." Þannig lætur ráðherrann á sér skilja að búa þurfi upprennandi kynslóð undir að starfa í einkavæddu kerfi.

Ekkert að gerast?

Á hinn bóginn er svo reynt að sannfæra landslýð um að akkúrat ekkert sé að gerast í heilbrigðiskerfinu annað en markvissar aðgerðir Guðlaugs Þórs til að tryggja að fleiri komist í hjartaþræðingu  en áður.  Ráðherrann þrástagast á að allt  sé í lukkunnar velstandi hvarvetna þar sem hann kemur nærri. Þannig hafi fjárveitingarvaldið undir forræði hans sjálfs sýnt Landspítala skilning, það sé bara óhagstætt gengi krónunnar sem trufli. Nýir stjórnendur hafi tryggt aukna framleiðni. Þetta er að vísu afvegaleiðandi málflutningur hjá ráðherranum því bæði er það svo að mörg undanfarin ár hefur spítalinn sætt niðurskurði  og á sama tíma hefur „framleiðni" á þeim bænum verið aukin jafnt  og þétt. Þykja mér þetta fyrir bragðið vera ómaklegar árásir á þá stjórnendur  Landspítalans, sem Guðlaugur Þór hefur hrakið úr starfi.

Nýr einkaspítali

En er ekkert að breytast í heilbrigðisþjónustunni? Er ekki að verða til nýr einkaspítali við Barónsstíginn í Reykjavík, Heilsuverndarstöðin ehf; stöð þar sem pólitískir félagar Guðlaugs Þórs hafa nú hreiðrað um sig og fá nú verkefnin afhent á einkavinavæðingarfæribandinu án afláts?
Þannig blasir þetta við mér. Það sem veldur mestum heilabrotum hvað þetta allt varðar,  er þögn Samfylkingarinnar. Hún þegir á meðan Guðlaugur Þór framkvæmir. Hann framkvæmir í anda Thatchers og síðar Blairs. Þessir bresku stjórnmálamenn komust vel áleiðis að eyðileggja bresku heilbrigðisþjónustuna. Alltaf sögðust þau vera að gera minni háttar breytingar. Tæknilegs eðlis. Þau bjuggu til hina pólitísku friðþægingarformúlu sem  Guðlaugur Þór fylgir. „Bara smávægilegar tæknilegar breytingar í hagræðingarskyni." En svo gerist það einn daginn að menn vakna sem af vondum draumi við það að kerfið hefur verið eyðilagt.

Bókhald og mannréttindi

Stundum koma upp atvik sem fá fólk til að hugsa. Fötluðum á Sléttuvegi í Reykjavík er ekki sérlega skemmt þessa dagana. Ríkisstjórnin hefur boðið út umönnun þeirra. Að sjálfsögðu  í anda meints hagræðis og nýrra bókhaldskúnsta. Vandinn er sá að í því bókhaldi er  lítið tillit tekið til mannlegrar reisnar. Það þótti ekki ástæða til að ræða við hina fötluðu áður en Ríkiskaupum var skipað að setja á vefinn skilmála um hvernig ætti að sinna þörfum þeirra.  Íhaldið stýrir. Og Samfylkingin þegir. Vesalings Samfylkingin.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG