GUÐMUNDUR GUÐJÓNSSON KVADDUR
Guðmundi kynntist ég á árunum sem ég starfaði í Sjónvarpinu. Hann var þar sviðsstjóri, skipulagði alla umgjörð í sjónvarpssal og sá til þess að öllum innan hennar liði vel. Það leit hann á sem sitt hlutverk, sem lá náttúrlega ekkert í augum uppi. En hvílíkur meistari! Þessi glæsilegi og fágaði maður kom þannig fram við fólk að hverjum og einum þótti hann vera í öndvegi.
Í meðbyr jafnt sem mótbyr reyndist Guðmundur samstarfsmönnum sínum góður félagi, maður sem við bárum virðingu fyrir og litum upp til. Það gerði ég svo sannarlega. Þegar Guðmundur talaði, þá hlustaði ég.
Væri ég spurður hvað öðru fremur hefði einkennt Guðmund Guðjónsson þá svaraði ég án minnstu umhugsunar, hlýjan. Hann var svo hlýr maður. Í minningunni finn ég enn til hlýjunnar sem stafaði frá honum.