GUNNARS GEIRSSONAR MINNST
Í dag fór fram útför Gunnars Geirssonar bekkjarfélaga og vinar frá menntaskólaárunum. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur útför hans en skrifaði eftirfarandi minningarorð um hann í Morgunblaðið:
Við Gunnar Geirsson kynntumst á menntaskólaárum okkar fyrir rúmlega hálfri öld.
Margar fallegar mannlýsingar er að finna í íslensku máli. Fegurst þeirra er þó sennilega sú að segja um mann að hann hafi verið hvers manns hugljúfi. Slíka einkunn fá aðeins þeir sem búa yfir velvilja til samferðarmanna sinna og framkalla jafnan það sem gott er í þeirra fari. Þannig er lífið, okkur líður best með þeim sem gera okkur sjálf blíð.
Slíkur maður var Gunnar Geirsson, lagði alltaf gott orð til annarra og reyndi ætíð að sjá bjarta fleti á öllum málum. Það var án efa ekki alltaf auðvelt fyrir mann sem átti við veikindi að stríða og andstreymi þeirra vegna nánast öll sín fullorðinsár. Fyrir þær sakir fékk hann heldur aldrei notið til fulls góðra gáfna og hæfileika og ef til vill ekki alltaf í færum til að vera sá maður sem hann að upplagi var.
Gunnar bjó yfir góðum tónlistarhæfileikum og lék á sínum yngri árum í danshljómsveitum, mætti oft örþreyttur í skólann eftir dansiböll gærdagsins sem stundum stóðu langt fram á kvöldið eða jafnvel fram eftir nóttu. Eftirminnilegt er mér þó að alltaf var að sjá kankvíst blik í þreyttu auga.
Á síðustu árum hafa bekkjarsystkinin úr menntaskóla færst nær hvert öðru á nýjan leik þegar haldið er upp á afmæli árgangs eða einfaldlega til að skemmta sér. Oftar en ekki var Gunnar þá með í hópnum enda ómissandi maður að allra mati.
Ég veit að ég mæli fyrir munn bekkjarfélaga Gunnars, sem nú syrgja kæran félaga og góðan dreng, þegar ég færi fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.
---------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.