HÆGT AÐ FLETTA UPP Í BOÐORÐUNUM SÉR AÐ KOSTNAÐARLAUSU
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 24/25.06.23.
Fyrr í mánuðinum var greint frá því í fréttum að ríkisstjórnin hefði gert samning við Háskóla Íslands um siðferðilega ráðgjöf og að fyrir hana skyldi greitt með sjö milljónum króna. Ekki kom fram hvort virðisaukaskattur bættist þar ofan á.
Ekki er ljóst hvaða viðfangsefni Háskóli Íslands eigi að skoða sérstaklega. Varla þó rekstur spilavíta, en þar gæti HÍ miðlað af eigin reynslu um allar hliðar mála nema þá helst siðferðið. Ekki meira um það að sinni.
Við þetta vakna ýmsar spurningar. Er yfirleitt hægt að kaupa sér siðferði? Getur maður orðið dyggðugur fyrir peninga? Verður maður ef til vill dyggðugri í réttu hlutfalli við það sem greitt er? Á ríkt fólk meiri möguleika en hinir fátæku að finna þrönga vegi dyggðugs lífs? Skyldi þá vera hægt með einhverjum hætti að hjálpa fátæklingunum sem ekki eiga fyrir siðgæði; myndi það vera til góðs að setja lög um dyggðir og þá kannski líka banna siðleysi? Spyr sá sem ekki veit.
Spurningarnar sem vakna eru margar enda ekki um einfalt mál að ræða. Þegar allt kemur til alls hefur það verið viðfangsefni andans manna, heimspekinga, rithöfunda, að ógleymdum trúarbrögðunum, að velta upp ýmsum hliðum á siðferðilegum álitamálum.
Auðvitað á ekki að gera lítið úr því þegar fram kemur vilji til þess hjá stjórnvöldum að efla umræðu um siðferði og siðgæði. Það ætti að vera sjálft grunnstefið í uppeldi fólks og síðan í öllu mannlífinu; um þetta ættu stjórnmálin að hverfast.
Innræti manna er eflaust misjafnlega móttækilegt, hvort sem er fyrir góðu eða illu, en engum blöðum er um það að fletta að miklu máli skiptir hverju er haldið að okkur hvort sem það er í uppvextinum eða síðar í lífinu. Græðgi er góð, sagði þekktur stjórnmálamaður á öldinni sem leið og vildi þar með innræta samfélagi sínu vissa afstöðu til manna og málefna. Lærum að fyrirgefa sagði svo aftur á móti baráttumaður gegn kynþáttastefnunni í Suður Afríku í anda þess sem kennt var í Júdeu forðum daga, fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Það skiptir máli að hugsa um hvað kunni að vera rétt og hvað rangt, gott eða slæmt, siðlegt eða ósiðlegt. Gæti það jafnvel verið svo að það sé helsta meinsemd samtímans að vanrækja að leita svara við siðrænum álitamálum?
Gæti raunin jafnvel verið sú að stjórnmálamenn þurfi beinlinis að setjast á skólabekk, já eða leigja til sín háskólakennara, til þess að minna sig á að alltaf eigi að segja satt, ekki lofa kjósendum einhverju sem aldrei stóð til að efna?
Gæti verið að stjórnmálamenn almennt þurfi að skoða hvort í skjóli laga sem þeir hafi sett þrífist sitthvað misjafnt, spilling og jafnvel þjófnaður, gripdeildir? Gæti verið að stuðningur við vígvæðingu heimsins sé ósiðlegur? Og er það ekki líka ósiðlegt að ágirnast eigur annarra, að ekki sé á það minnst þegar um er að ræða eigur hinna fátæku í heiminum, auðlindir í ríkjum á borð við Namibíu og önnur fátæk ríki Afríku og einnig Asíu? Varla er arðrán siðlegt. Og ef arðrán er ósiðlegt er þá ekki líka ósiðlegt að styðja arðræningja? Gæti verið að íslensk stjórnvöld séu sek um slíkan stuðning?
En þarf virkilega að kaupa ráðgjöf um þessi efni; á okkur ekki að vera þetta allt saman ljóst? Innbyrtum við ekki þessi sannindi nánast með móðurmjólkinni? Varla getur þetta verið horfið úr uppeldi okkar og menningu. Eða er tíðarandinn orðinn allt annar en hann var?
Ef svo er þá skulum við endilega láta þetta framtak Stjórnarráðs Íslands verða okkur hvatning til að bregða siðferðilegu stækkunargleri á öll viðfangsefni.
Það breytir því þó ekki að ég hef efasemdir um að aðkeypt ráðgjöf sé rétta lausnin. Hver og einn verður að vinna með sjálfan sig. Siðferðiskennd þarf að komast inn í mænukerfið, þar á hún heima, í nánast sjálfkrafa viðbrögðum um mat á réttu og röngu. Og hvað sjö milljónirnar varðar, þá mætti spara þær, því að ekki kostar það krónu að fletta upp í Konfúsíusi og náttúrlega boðorðunum sem við þekkjum flest.
Stendur þetta ekki allt þar?