HÆKKA ÞARF LAUNIN HJÁ REYKJAVÍKURBORG
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs Reykjavíkur, lýsir áhuga á því að fá fyrirtæki og félagasamtök til að reka leikskóla borgarinnar. Með þessu móti mætti ráða bót á manneklu í starfsmannahaldi leikskólanna. Það gæti “breyst ef fyrirtæki kæmu að rekstrinum í meiri mæli og haft þau áhrif að kerfið þróaðist í takt við markaðinn.” Og hvða kerfi skyldi það vera sem þessi forsvarsskona leikskólanna og fulltrúi borgarstjórnar er að ræða um? Það er launakerfið. Hún segir að “ekki séu miklir möguleikar fyrir hendi að hækka laun leikskólakennara einsog staðan sé nú. “
Allt þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag.
Er þá verið að boða einkavæðingu leikskólanna og er verið að boða fráhvarf frá þeirri stefnu að leikskólarnir séu samfélagslega reknir? Nei. Ekki segir Þorbjörg Helga. Hún segir að “ekki sé um að ræða einkavæðingu leikskóla heldur einkarekstur.” Þetta þýðir að borgin mun eftir sem áður borga rekstur leikskólanna þótt Samskip eða önnur fyrirtæki reki þá. Annar kostur sem Þorbjörg Helga sér við það að færa leikskólana í einkarekstur er að með því móti yrði allt kerfið “sveigjanlegra”, sem hún kallar svo. Hér er trúlega átt við það að stífir kjarasamningar um réttindi starfsfólks sem eru í gildi við borgina, myndu ekki flækjast eins fyrir. Eða hvað? Hvað skyldi það vera sem kemur í veg fyrir “sveigjanlegan” rekstur?
Þegar þetta er allt tekið saman er niðurstaðan þessi: Reykjavíkurborg viðurkennir að laun starfsmanna eru allt of lág. Hún er tilbúinn að ráða á því bót að því tilskildu að greiðslur skattborgarans renni í gegnum bókhald einkafyrirtækis.
Ég spyr, er borgarfulltrúi sem svona talar þjónn skattborgarans eða fyrirtækja?
Hinu fagna ég að fulltrúi borgarstjórnar skuli afdráttarlaust lýsa því yfir að laun starfsmanna séu allt of lág að á því verði að ráða bót. Til þess gefst tækifæri í komandi kjarasamningum. Þá gefst Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og félögum í borgarstjórn Reykjavíkur tækifæri til að sýna vilja sinn í verki.