HÆLISLEITENDUM MISMUNAÐ
Birtist í Morgunblaðinu 20.03.04.23.
Íslensk stjórnvöld mismuna hælisleitendum - það er að segja umsækjendum um alþjóðlega vernd vegna lífshættu heima fyrir - og sú mismunun er pólítísk. Fólk sem NATÓ ríki telja skjólstæðinga sína fær aðrar viðtökur en einstaklingar sem eiga ekki þann bakhjarl. Þannig er fólk frá Úkraínu og Venesúela boðið velkomið án þess að aðstæður hvers og eins séu teknar til skoðunar. Fólk sem kemur annars staðar frá, jafnvel frá átaka- og hörmungarsvæðum, fær hins vegar allt aðrar móttökur. Þá er lagst ítarlega yfir persónulegar aðstæður og kannað hvort viðkomandi sæti í raun og veru ofsóknum í heimalandi sínu eða sé raunveruleg hætta búin.
Hvað Venesúela áhrærir líta íslensk stjórnvöld svo á að allir íbúar Venesúela sem hingað leita búi við lífshættuleg skilyrði sem megi rekja til stjórnarfarsins í heimalandinu. Ekki skal gert lítið úr efnahaglsegum erfiðleikum, skorti og óöld í Venesúela en þegar að er gáð kemur í ljós að þessi niðurstaða er jafnframt pólitísk og byggir á forskrift frá Pentagon, bandaríska “varnarmálaráðuneytinu”.
Auðlindir og mannréttindi
Þetta væri ósvífin fullyrðing væri hún ekki sönn, beinlínis skjalfest í rökstuðningi íslenskrar stjórnsýslu. Í greinargerð Kærunefndar útlendingamála frá 18. júlí sl. þar sem fjallað er um hælisleitendur frá Venesúela er ítarlegur pólitískur kafli um stjórnmálaþróun í Venesúela, samhljóða álitsgerðum bandarísku utanríkisþjónustunnar og stofnunum sem þjóna henni, og jafnframt áþekkur skrifum sem stundum má sjá um flóttann frá “sæluríkjum sósíalismans” eins og það er kallað í háðungarskyni um ríki sem reyna að endurheimta auðlindir lands síns frá alþjóðlegu auðvaldi; er síðan refsað með skelfilegum afleiðingum fyrir efnahaginn, innviðir lagðir í rúst og áður en yfir lýkur mannréttindin einnig skert þegar aðförin að þeim verður blóðug og þau grípa til varna.
Þetta er saga Venesúela undanfarinn áratug. Og flótti þaðan hefur fyrir bragðið þótt skiljanlegur ef þá ekki æskilegur.
Og nú standa Íslendingar frammi fyrir því að þúsundir manna leita til hins skilningsríka Íslands sem hljóti að skjóta skjólshúsi yfir fólk sem ella þyrfti að snúa aftur til sósíalismans heima fyrir og þá væntanlega í opinn dauðann – eða hvað? Eitthvað virðist nú vera að rofa til í Venesúela samkvæmt síðustu fréttum, ekki vegna breytinga í stjórnarfarinu heldur er það, að sögn, vegna þess að slakað hefur verið á viðskiptahömlum á olíusölu frá landinu. NATÓ ríkin þurfa nú meiri olíu en þau hafa aðgang að vegna Úkraínustríðsins og þá þarf að dæla meira upp úr olíulindum Venesúela, en hvergi á jarðríki er meiri olíu að finna í jörðu en þar, sem skýrir hvers vegna góðir þjónar þurfi að sitja þar við stjórnvölinn.
Aðsendur rökstuðningur
Í fyrrnefndum úrskurði Kærunefndar útlendingamála segir að í greinargerðum sem hún byggi álit sitt á, “þ. á m. skýrslum bandarísku utanríkisþjónustunnar frá 2020 og 2022 (og) bandarísku leyniþjónustunnar frá 2022 …” komi fram að Venesúela sé aðeins “lýðræðisríki að nafninu til.” Nicolás Maduro, forseti landsins frá árinu 2013, hafi styrkt eigin völd jafnt og þétt á kostnað lýðræðis: “Forsetatíð Nicolás Maduro hafi lokið hinn 10. janúar 2019, en hann hafi neitað að afsala sér völdum og haldið því fram að hann hafi unnið sigur í forsetakosningum árið áður. Niðurstöður kosninganna, sem hafi sætt mikilli gagnrýni og hvorki talist óháðar né sanngjarnar, hafi verið ógiltar af venesúelska þinginu. Hinn 23. janúar 2019 hafi Juan Guaido, forseti venesúelska þingsins, tekið við embætti forseta til bráðabirgða. Guaido hafi fullt stjórnskipulegt umboð frá þinginu og yfir 50 ríki hafi viðurkennt lögmæti hans sem bráðabirgðaforseta, þ. á m. Bandaríkin og flest ríki innan Evrópusambandsins. Þrátt fyrir það fari Maduro með stjórn allra ríkisstofnana landsins auk þess sem hann njóti stuðnings öryggissveita. Guaido hafi því ekki getað beitt valdheimildum sínum.”
Frelsishúsið – Freedom House
Um stöðu mannréttinda í Venesúela er m.a. sótt í smiðju Frelsishússins, sem svo er nefnt, Freedom House, og um mat á stjórnarháttum í Venesúela er byggt á skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar. Þar komi fram, segir úrskurðarnefndin íslenska, að “hin ólögmæta og sífellt óvinsælli ríkisstjórn Maduro hafi treyst á hersveitir-, leyniþjónustu og vopnahópa (Colectívos) til þess að veikja stöðu stjórnarandstæðinga og draga úr vilja almennings til mótmæla.”
Efnahagsvandann í Venesúela megi samkvæmt heimildum nefndarinnar íslensku rekja til hríðlækkandi olíuverðs frá 2013: “Lækkun olíuverðs hafi, ásamt efnahagsstefnu stjórnvalda og íþyngjandi regluverki atvinnulífsins, átt þátt í niðursveiflu hagkerfisins í Venesúela. Óðaverðbólga og kreppa hafi dregið verulega úr kaupmætti almennings í landinu og orsakað skort á matvælum, lyfjum og öðrum nauðsynjavörum.” Við svo búið hafi milljónir lagt á flótta. Landstjórninni í Venesúela sé um að kenna. Hún sé “að mestu ábyrg fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem ríkir þar …”
Hver ofsækir hvern?
Það skal tekið fram að heimildir kærunefndar eru fleiri en hér eru nefndar en fyrirferðarmiklar eru þær sem runnar eru undan rifjum bandarískra stjórnvalda. Athygli vekur vægi Freedom House en ráðandi aðilar þar hafa verið innanbúðarmenn í Homeland Security sem fékk stórt hlutverk eftir að Tvíburaturnarnir vou sprengdir, Guantanamó fangabúðirnar settar á laggirnar og stríð þeirra Bush, Cheeney og Rumsfield við hryðjuverkin hófst með tilheyrandi mannréttindabrotum, m. a. undir verkstjórn Homeland security.
Staðreyndin er sú að bandarísk stjórnvöld hafa ofsótt yfirvöld í Venesúela allar götur frá því að Hugo Chavez var kjörinn forseti í Venesúela árið 1999. Hann reyndi að ná olíuauðlindum landsins úr höndum erlendra auðhringa, aðallega bandarískra. Eigin olíu hafa Venesúelamenn að verulegu leyti hreinsað í Bandaríkjunum en eftir að farið var að herða á viðskiptahömlunum var þeim meinað að flytja arðinn af olíusölu til Venesúela. Evrópusambandsríkin komu til liðs við Bandaríkjastjórn í aðförinni að Venesúela, m.a. frysti Englandsbanki gullforða landsins sem þar er geymdur og svo kom smiðshöggið þegar þessi ríki afsögðu Maduro, réttkjörinn forseta Venesúela á þeirri forsendu að hann hafi komist að með svindli, nokkuð sem “Íslandsvinurinn” Pompeo, fyrrum CIA forstjóri, síðar utanríkisráðherra BNA, hafði forgöngu um, en fljótlega tóku samherjarnir undir. Þáverandi utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugur Þór, tísti á Twitter að Ísland styddi forseta Pompeos, hann hefði verið kjörinn af þinginu í Caracass. Vandinn er hins vegar sá að samkvæmt stjórnarskrá Venesúela hefur þingið þar í landi ekkert með forsetakjör að gera heldur er forsetinn kosinn í beinum kosningum. Andstæðingar Maduros þóttust vita að þeir væru í minnihluta og hvöttu kjósendur því til að sitja heima. Í klofnu landi gerðu margir kjósendur það. Það jók á sigur Maduros.
Í Washington marglýstu stjórnvöld því yfir að það yrði aldrei liðið að Maduro yrði áfram forseti Venesúela!
Varað við refsiaðgerðum
Efnahagsþvinganirnar gagnvart Venesúela hafa verið af þeirri stærðargráðu að sérfræðingar hjá Sameinuðu þjóðunum hafa sagt þær ekki standast grundvallarreglur um mannréttindi og séu auk þess alvarlegt brot á alþjóðalögum.
Idriss Jazairy, sérstakur sendiherra á skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, sem rannsakar neikvæð áhrif einhliða refsiaðgerða, sagði í yfirlýsingu árið 2019 að aðgerðir Bandaríkjanna, sem miðuðu að því að fella ríkisstjórn Venesúela, væru ólöglegar og myndu hafa skelfilegar afleiðingar fyrir almenning í Venesúela.
Undir þetta sjónarmið tóku margir þekktir fræðimenn, blaðamenn og ýmsir nafnkunnir andans menn sem mótmæltu tilraunum Bandaríkjastjórnar að þvinga fram stjórnarskipti. Það myndi leiða af sér enn meira ofbeldi og mannlega þjáningu en þegar væri við að etja.
Varnaðarorðin reyndust rétt. Og nú þegar slakað er á viðskiptahömlunum heyrum við í fréttum að efnahagsástandið hafi lagast. Samt átti vandinn allur að vera heimatilbúinn!
Svo eru það öll hin …
Framangreindar ábendingar og hugleiðingar hafa ekkert með það að gera hvort hingað eigi að bjóða velkomið fólk til að lifa og starfa á Íslandi, heldur um grunn hæliskerfisins. Alþjóðleg vernd byggir á flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem var samþykktur eftir seinna stríð. “Aldrei aftur” var þá viðkvæðið og fólk skyldi njóta verndar til skjóls væri það á flótta undan ofsóknum og stríði. Við eigum að standa við þessar skuldbindingar og gera það vel. En við eigum líka að verja þessa skipan fyrir misnotkun. Þegar ríkisborgarar ákveðinna ríkja eru teknir fram fyrir aðra á pólitískum forsendum þá er það misnotkun.
Ég segi þetta allt að gefnu tilefni. Ég hef nefnilega horft upp á einstaklinga og fjölskyldur annars staðar frá rekið úr landi og að því er ég óttast, út í opinn dauðann.
Þetta fólk á sér hins vegar engan bakhjarl í ráðandi öflum veraldar. Og það eru þau öfl sem stilla mannréttindakompás íslenskra stjórnvalda.