Fara í efni

HAFA SKAL ÞAÐ SEM SANNARA REYNIST


Hér á síðunni hefur nýútkominni Rannsóknarskýrslu Alþingis verið hrósað.  Skýrslan er og  mjög gagnleg þrátt fyrir brotalamir sem kunna að vera á henni. Notagildið er af tvennum toga. Í fyrsta lagi er skýrslan góð kortlagning á umfangi misferlisins innan fjármálakerfisins í aðdraganda hruns og í örðu lagi er í henni  fjallað um fjölmarga þætti hjá stjórnvöldum, ríkisstjórn og Alþingi, eftirlitsstofnunum og fjölmiðlum sem varpa ljósi á gang mála.
En því miður er einnig rangfærslur að finna í skýrslunni. Þær verður að leiðrétta.
Í dag var ítarlegt viðtal við forseta Íslands í fjölmiðlum. Þar hélt hann því fram að í veigamiklum atriðum hefði verið farið ranglega með staðreyndir um forsetaembættið í Rannsóknarskýrslunni. Þetta er alvarlegt ef rétt er. En þó ekki alvarlegra en svo að hægt er að bæta um með því að koma við leiðréttingum. Það verður Alþingi að sjá til að verði gert og þá einnig varðandi aðra þætti sem misfarið er með í skýrslunni. þetta þarf að gerast með markvissum hætti.
Góða skýrslu má ekki eyðileggja með aðgerðaleysi í þessu efni. Heildarmyndin sem dregin er upp í skýrslunni hygg ég að sé rétt. Á hana getur hins vegar fallið skuggi ef rangfærslur eru ekki leiðréttar.  Hafa skal það sem sannara reynist var sagt forðum og á það við enn þann dag í dag, ekki síst í skýrslu sem er skrifuð sérstaklega til að leiða sannleikann í ljós.