Hafði Davíð rétt fyrir sér, eða hver er díllinn?
Sæll Ögmundur.
Þú varst harður andstæðingur allra fimm útgáfnanna af fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og færðir fyrir því gild rök. Nú er skyndilega komin upp ný staða. Tveir risar hafa slegið sér niður á fjölmiðlamarkaðnum og báðir eru símafyrirtæki, dreifendur og framleiðendur efnisins sem fjölmiðlarnir framleiða. Á blaðamarkaðnum ráða Norðurljós yfir dreifingunni, og í ljósvakanum eru Síminn og Og fjarskipti dreifendur og framleiðendur efnis. Brynjólfur Bjarnason forstjóri Símans er aðal talsmaður Skjás eins og norðurljósabatteríð, eða fjölmiðlarnir sem eru undir því skilti, eru nú undir stjórn eins manns sem að því er virðist er bæði handgenginn aðaleigendum samsteypunnar og er þarf fyrir utan einn af eigendum fyrirtækisins. Fer nú lítið fyrir málflutningi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í morgunblaðsgrein fyrr á árinu um fjölmiðla og heitstrenginga um sjálfstæði og aðgreiningu miðla sem eru í eigu sömu eigenda. Því er spurt hvort Davíð Oddsson og sjálfstæðismenn hafi í grunninn haft rétt fyrir sér þegar þeir reyndu að þvinga í gegn ófullburða frumvarp fyrr á árinu? Davíð og félagar guldu að vísu fjölmiðlanefndarinnar margfrægu og talsmanns hennar sem rann í bananahýði við hvert fótmál þegar skýrsla hennar var gerð opinber, en taki maður viljann fyrir verkið skyldi Davíð þá hafa haft rétt fyrir sér? Nú er komin ný fjölmiðlanefnd og hvernig hyggstu fóta þig í þeim nýja veruleika sem blasir nú við? Eru ekki einmitt nú orðnar til forsendur í fjölmiðlaheiminum íslenska þar sem veruleg hætta er á að matseðlar berist inn á ritstjórnirnar þar sem lagðar eru línur um morgun-, hádegis- og fréttakvöldverð þjóðarinnar? Eru ekki líka komnar upp aðstæður sem munu valda því að ríkisútvarpið losnar ekki af því skeri sem því hefur verið siglt upp á? Annars vegar ertu með ógegnsætt ríkissímafyrirtæki sem hefur alla burði til að dreifa kostnaði við sjónvarp yfir í gjaldskrá síma og hins vegar ertu með einkasíma sem getur sótt fram og notið þess að Símanum eru settar skorður af samkeppnisyfirvöldum. Þú ert sem sé með tvö fyrirtæki sem eru á sama markaði og ríkisútvarpið, en aðskilja sig frá því með því að bæði eru að byggja upp dreifikerfi og fjölbreyttan rekstur sem ríkisútvarpið á engan kost á. Með öðrum orðum er ekki ríkisútvarpið að lenda í nákvæmlega sömu stöðunni gagnvart Símanum og OG fjarskiptum og Morgunblaðið gagnvart Fréttablaðinu, þ.e. það lamast smám saman. Í stuttu máli langar mig að spyrja þig hvernig þú hyggst snúa þér í málinu. Ekki geri ég ráð fyrir að þú viljir snúa þér til veggjar. Eitt smáatriði í lokin. Fyrir okkur sem eru áhorfendur er eitt atriði í símabyltingunni óskiljanlegt. Talsmenn Norðurljósa halda ekki vatni yfir stjórnvisku Sigurðar G. Guðjónssonar, sem nú hefur verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Við höfum fylgst með honum skylmast við forkólfa sjálfstæðismanna árum saman opinberlega, í blöðum, fjölmiðlum og í réttarsölum. Ef marka má yfirlýsingar norðurljósamanna á hann stærstan þátt í að koma í veg fyrir endanlegt gjaldþrot Norðurljósa. Af hverju var hann þá rekinn, eða af hverju þurfti að fórna honum? Getur verið að hann sé skiptimynt í vopnahléi eigenda Norðurljósa og pólitíska valdsins í landinu, eða hver er eiginlega díllinn? Þetta eru jú verslunarmenn.
Stefán
Þakka þér bréfið Stefán. Það er vissulega mjög umhugsunarvert. Ég er enn við sama heygarðshornið varðandi fjölmiðlafrumvarpið frá í vor. Það er ekkert samasemmerki þar á milli og að vera fráhverfur allri löggjöf. Síður en svo. Við látum hins vegar ekki mata okkur og tökum þann tíma sem þarf til að gaumgæfa málin. Ég verð hins vegar mjög hugsi yfir þessari framvindu. Framkoman gagnvart Sigurði G. Guðjónssyni er náttúrlega svívirðileg og kapítuli út af fyrir sig. En þá er komið að "dílnum" sem þú nefnir svo. Í framhaldinu spyr ég: Hvar er umræðan í fjölmiðlum um þessar vendingar allar. Ég hef ekki orðið var við neinar forsíðufréttir í DV, Fréttablaðinu eða ljósvakamiðlunum. Ekki heldur í Mogga. Allt á innsíðum. Hugmyndin um samkomulag gerist áleitin. Annars er þetta kannski bara venjuleg verslun og viðskipti þar sem maður rekur mann og annan. Spurning hvað er gert meira - svona á bak við tjöldin. Það væri fróðlegt að vita. Þetta eru nú einu sinni fjölmiðlar. En eitthvað eru fjölmiðlarnir feimnir þegar þeir sjálfir eiga í hlut. Kannski er þetta bara hæverska hjá fjölmiðlamönnum? Það væri þeim líkt.
Kveðja, Ögmundur