HAFNFIRÐINGAR HAFA GEFIÐ TÓNINN
Með niðurstöðu úr atkvæðagreiðslunni í Hafnarfirði hafa orðið þáttaskil í langvarandi deilum um virkjanastefnu/ stóriðjustefnu/atvinnustefnu/efnahagsstefnu á Íslandi. Meirihlutinn valdi varfærni, telur greinilega nóg komið af stóriðju innan bæjarmarkanna. Þá er ég ekki í vafa um að fólk hefur horft heildstætt á málin, með tilliti til virkjana sem þyrftu að koma til sögunnar svo fóðra mætti hina stækkuðu verksmiðju og þá einnig til efnahagslegra afleiðinga. Menn vita hvað áframhaldandi hávaxtastefna þýðir fyrir fjárhag fyrirtækja og einnig heimilsbókhaldið.
Þjóðin hefur þurft að búa við ríkisstjórn sem ekkert hefur séð annað í kortum framtíðarinnar en ál og aftur ál. Þannig hefur Framsóknarflokkurinn lýst því yfir að álframleiðsla eigi að verða að minnsta kosti þriðjungurinn af efnahagsstarfsemi þjóðarinnar! Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið undir með gjörðum sínum.
Þetta er daparleg framtíðarsýn í ljósi þess að:
a) álframleiðsla mengar umfram aðra atvinnustarfsemi,
b) álframleiðsla kallar á virkjanir og bindingu orkunnar um áratugi,
c) álframleiðsla í eigu útlendinga gefur þjóðinni minni virðisauka en önnur atvinnustarfsemi.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur álfyrirtækjum tekist að vinna stóran hluta þjóðarinnar á sitt band og telja mörgum trú um að allt færi á vonarvöl ef ekki kæmi meira ál. Sama gerðist í álinu og hermálinu hér fyrr á tíð. Á Suðurnesjum var það beinlínis atvinnustefna heilla stjórnmálaflokka um áratugaskeið að viðhalda her í landi. Það var talið fullkomið ábyrgðarleysi að vilja herinn á braut. Svo fór herinn. Þá var sem allir losnuðu úr klakaböndum. Nýjar hugmyndir urðu til með nýjum tækifærum. Nú ríkir meiri bjartsýni á Suðurnesjum en um langt skeið.
Umhugsunarefni fyrir áláhugamenn er eftirfarandi: Forstjórinn í Straumsvík segir að vel komi til greina að álverinu verði lokað á komandi árum. Þessi stærð álvers sé ekki hagkvæm. Álverið í Straumsvík framleiðir 180 þúsund tonn, eða litlu minna en álverin sem menn vilja reisa á Húsavík, Helguvík og Þorlákshöfn. Alcoa-menn, sem áælast Húsavík, létu reyndar á sér skilja að þeir vildu gjarnan helmingi stærra álver í Húsavík en um væri rætt. Þá höfum við núna vísbendingu um líklega framvindu. Fyrst er reist 250 þúsund tonna álver. Síðan kemur krafa um að stækka um helming, "annars erum við farin, lokum.." Þá er stækkað, eða hvað, jafnvel þótt fórna þurfi Skjálfandafljóti með sínum Goðafossi?
Stærsti lærdómurinn sem draga má af kosningabaráttunni í Hafnarfirði er hættan sem stafar af inngripi erlendra auðhringa í íslenskt lýðræði. Hafnfirðingar sýndu meiri styrk en svo að Alcan næði sínu fram. Auðvitað var mikill fjöldi fólks sem hefur sannfæringu fyrir því að stækkun álversins skipti máli í atvinnulegu tilliti og ýmsu væri fórnandi af þeim sökum. Þessi sjónarmið ber að virða. Það er hins vegar staðreynd að Alcan ýtti undir þau með skefjalausum fjáraustri og áróðri. Engum duldist að févana áhugamannasamtök áttu í höggi við fjárhagslegan ofjarl sinn. Málstaður Sólar í Straumi reyndist hins vegar eiga meiri hljómgrunn hjá Hafnfirðingum. Þeir hafa nú gefið tóninn. Þann tón sem vonandi verður sleginn í Alþingiskosningunum 12. maí!