Fara í efni

HALDIÐ TIL TYRKLANDS TIL AÐ NÁ TALI AF ÖCALAN!

Tyrkland - Kúrdar
Tyrkland - Kúrdar

Samkvæmt áætlun verð ég  í Tyrklandi alla næstu viku - held af landi brott eldsnemma á mánudagsmorgun og kem aftur á sunnudagskvöld.

Ég verð í ellefu manna hópi stjórnmálamanna, núverandi og fyrrverandi, blaðamanna, vísindamanna, rithöfunda, og annarra einstaklinga sem barist hafa fyrir mannréttindum.

Markmið okkar með þessari för er að kynna okkur stöðu mannréttindamála í austanverðu Tyrklandi, í byggðum Kúrda en þeir hafa mátt sæta miklum ofsóknum í seinni tíð, einkum frá því um sumarið  2015.
Á fyrsta degi verður haldið til Diyarbakir og farið nokkuð um á því svæði, rætt við mannréttindasamtök og fulltrúa fjölmiðla og pólitískra samtaka.

Að þessu loknu verður haldið til Istanbúl og fylgt eftir formlegri kröfu okkar um að fá að hitta Öcalan, leiðtoga Kúrda að máli en honum hefur verið haldið í einangrunarfangelsi á Imrali eyju, á Marmarahafinu, ekki langt frá Istanbúl, síðan 1999.

Einnig höfum við óskað eftir samtali við dómsmálaráðherra Tyrklands. Ekki hefur okkur borist svar við þeirri beiðni en mun hún verða ítrekuð á vettvangi.