HALLGRÍMS MINNST
Í dag var borinn til grafar góður vinur, Hallgrímur B. Geirsson, einstakt ljúfmenni. Við Ólafur Kvaran, annar góður vinur, minntumst hans í minningargrein sem birtist í Mrgunblaðinu í dag:
Fyrir rúmlega hálfri öld þótti það orðið nokkuð fyrirsjáanlegt að við félagarnir þrír, bekkjarfélagar og sessunautar í MR, yrðum ekki samstiga að öllu leyti á lífsleiðinni. Það ætti í það minnsta við um stjórnmálin. Þar kæmum við ekki til með að róa á sama báti. Hitt hefðum við mátt vita að aldrei myndu trosna þau vinabönd sem við bundumst á þeim árum sem við vorum að komast til vits og þroska. Sú reyndist og raunin. Um árabil vorum við nánast óaðskiljanlegir, aldrei sammála um allt, en þó flest sem eftir á að hyggja skiptir mestu máli. Í félagslífi skólans stóðum við þétt saman og Hallgrímur var þar í forystu; naut trausts og virðingar sem forseti Framtíðarinnar, málfundafélags skólans.
Ár og áratugir liðu þar sem samskiptin voru stopul. En þannig er það með vináttu æskuáranna að hún þarf ekki reglulega næringu til að lifa. Síðustu árin hittumst við síðan aftur reglulega í hádegismat á Þremur Frökkum, allir fullkomnir íhaldsmenn að því leyti að hver um sig pantaði alltaf sama réttinn og alltaf var umræðan á einn veg. Við ræddum það sem efst var á baugi hverju sinni, rifjuðum upp gamla tíma og horfðum til framtíðar. Nú var allt eins og í gamla daga. Allir eins og áður var. Ekkert hafði breyst. Þannig uppgötvar maður hvað það er sem manni finnst skipta raunverulegu máli í lífinu. Það er vináttan.
Í samræðum okkar á Þremur Frökkum yfir saltfiski, gellum og plokkfiski vorum við minntir á það hver Hallgrímur var og hafði alltaf verið. Hógvær og sanngjarn í dómum um menn og málefni; sá alltaf hið góða í hverjum manni. Það brást ekki að ætíð tókst honum að lyfta okkur hinum þrepi ofar en við lögðum upp með.
Hallgrímur var mildur maður, jafnvel viðkvæmur í lund sem oft gerist hjá þeim sem finna til samkenndar með öðru fólki. Hann stóð hins vegar fast á sínu, gaf hvergi eftir í því sem hann taldi vera grundvallarmál. Þar var enginn afsláttur veittur. Mannkostir hans sem hann hafði í svo ríkum mæli; umburðarlyndi, góð dómgreind og trygglyndi voru þeir þræðir í okkar löngu vináttu sem við mátum mikils en þeir voru líka mikilvægt framlag hans á þeim sviðum samfélagsins þar sem hann valdist til margvíslegra trúnaðarstarfa. Það eru þessir mannkostir hans sem við vinir hans og bekkjarsystkini í MR viljum minnast og þakka fyrir að leiðarlokum.
Blessuð sé minning Hallgríms.
Við sendum Öbbu og fjölskyldunni hjartanlegar samúðarkveðjur,
Ólafur Kvaran
og Ögmundur Jónasson
-----------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/