HANN FJÁRFESTI Í BÆTTUM HAG ANNARRA
Um Guðna voru skrifaðar minningargreinar sem lýsa hlýjum og gáfuðum manni, síðasta „alvörukommúnistanum" á Íslandi; manni „sem lifði í góðu samræmi við lífsskoðun sína, gerði litlar kröfur til lífsgæða, þurfti lítið, gaf ríkulega, eignaðist ekkert." Í einni greininni segir: „Ef lýsa ætti Guðna með hliðsjón af almennri viðmiðun væri sannarlega rétt að segja að hann hafi verið félagshyggjumaður sem lifði alla tíð samkvæmt þeirri sannfæringu sinni að jöfnuður ætti að ríkja milli manna. Þetta endurspeglaðist meðal annars í líferni Guðna sem fór mjög vel með og fjárfesti ekki í öðru en bættum hag annarra, bæði með því að styrkja góð málefni og fólk sem á þurfti að halda..." Hann var fróður og víðlesinn og mikill bókamaður en „hafði þann sið að gefa bækurnar sínar öðrum svo þeir mættu líka hafa gagn af."
Guðni Guðnason er sagður hafa tekið þátt í fleiri 1. maí göngum en flestir ef ekki allir Íslendingar fyrr og síðar. Oft tókum við tal saman þegar við hittumst á förnum vegi og eftirminnilegt er mér nokkurra klukkustunda spjall þegar ég fyrir nokkrum árum bauð honum til fundar á skrifstofu minni í Alþingi. Þá flaug tíminn.
Æviágrip Guðna Guðnasonar segir sína sögu. Þar kemur fram hvernig hann gegndi jöfnum höndum starfi lögfræðings, sjómanns og verkamanns. Ég þykist vita að innheimtustörf hafi ekki verið honum að skapi.
Ég minnist þess hve gott orð lá ætíð til Guðna Guðnasonar þegar ég heyrði á hann minnst í uppvexti mínum. Móðir mín og Guðni voru systkinabörn, ættuð frá Hurðarbaki í Kjós.
Við lestur minningargreinanna og við athöfnina í Fossvogskirkju fylltist hugur minn væntumþykju í garð þessa heiðursmanns og í senn trú á framtíðina. Það gerist þegar maður kynnist mönnum sem með eigin breytni gefa boðskap sínum inntak.
Sjá æviágrip og minningargreinar, Morgunblaðið 24. janúar 2014.
Guðni Guðnason
Guðni Guðnason fæddist á Eyjum í Kjós 2. ágúst 1915. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík miðvikudaginn 15. janúar 2014.
Foreldrar hans voru Guðrún Hansdóttir Stephensen húsfreyja, fædd 8. ágúst 1877, dáin 15. apríl 1956, og Guðni Guðnason, bóndi í Eyjum, fæddur 28. maí 1877, dáinn 2. nóvember 1964. Systkini Guðna voru. 1) Hans, fæddur 27. ágúst 1911, dáinn 22. september 1983. 2) Lilja, fædd 4. apríl 1913, dáin 25. febrúar 1961. 3) Rósa, fædd 4. apríl 1913, dáin 8. desember 2003, 4) Guðrún, fædd 30. maí 1917, dáin 4. desember 1987. 5) Ingólfur, fæddur 27. október 1919, dáinn 28. nóvember 2011.
Guðni giftist 6. desember 1961, Guðrúnu Antonsdóttur húsfreyju, fæddri 2. maí 1902, dáinni 29. ágúst 1985. Fyrri eiginmaður Guðrúnar var Gestur Ámundason, fæddur 29. júní 1878, dáinn 4. mars 1937. Börn Guðrúnar og Gests. 1) Sigríður, fædd 10. júní 1924, dáin 30. september 2003. 2) Guðmundur Ingólfur, fæddur 11. desember 1925, dáinn 28. desember 2001. 3) Magnea Gestrún, fædd 18. ágúst 1928. 4) Andrea Guðrún Erla, fædd 11. janúar 1934.
Guðni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1937 og varð cand. juris. frá Háskóla Íslands 27. janúar 1944. Starfaði að afloknu prófi á Ísafirði sem trúnaðarmaður verðlagsstjóra til ársloka 1944; var síðan ritari húsaleigunefndar Reykjavíkur til október 1946, en réðst þá sem fulltrúi á málflutningsskrifstofu Einars B. Guðmundssonar og Guðlaugs Þorlákssonar og starfaði þar til mars 1949 er hann fór til Danmerkur að kynna sér tryggingamál. Héraðsdómslögmaður 27. apríl 1946. Rak málflutningsstofu í Reykjavík 1950-1953. Stundaði sjómennsku og byggingarvinnu frá júní 1953 til október 1955. Fulltrúi hjá Steini Jónssyni hdl. í Reykjavík frá október 1955 til október 1957. Fulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ritstjóri tímaritsins Sveitarstjórnarmála frá október 1957 til ársloka 1959. Byggingaverkamaður í Reykjavík 1960 - 1963. Fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu frá mars 1964 - mars 1966. Fulltrúi hjá Árna Gunnlaugssyni hrl. í Hafnarfirði frá mars 1966 til júní 1978. Rak eigin málflutningsskrifstofu í Reykjavík frá júní 1978 til júní 1988. Félags- og trúnaðarstörf: Í stjórn Félags róttækra stúdenta 1939-1940. Í stjórn Sósíalistafélags Reykjavíkur 1964-73, formaður 1970-1973. Í stjórn Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar frá 1964-1984.
Útför Guðna verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 24. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 15.
Ég sé fyrir mér mann á besta aldri koma með áætlunarbílnum frá Reykjavík og ganga götuna heim að Eyjum í Kjós. Hann er snyrtilega klæddur í blágráum jakkafötum, hvítri skyrtu með hálsbindi. Yst fata er hann í ljósum rykfrakka. Þannig man ég, sem barn, Guðna föðurbróður minn koma í heimsókn til foreldra sinna og annarra ættingja í Kjósinni þegar ég var þar að alast upp í stórum systkinahópi. Lögfræðingurinn Guðni kom ekki einungis í heimsókn til að hitta ættingja. Hann kom líka í sumarleyfum sínum og gekk að hefðbundnum sveitastörfum við heyskap. Slátt með orfi og ljá, heyþurrkun og hirðingu. Það er eftirminnilegt hve kappsamur hann var og lét ekki sitt eftir liggja þótt svitinn bogaði af honum.
Fyrir utan snyrtimennskuna og kappið við þau verk sem hann tók að sér er ekki síður eftirminnilegt hve fróður hann var um marga hluti. Þeim fróðleik miðlaði hann til okkar sem hlusta vildum með mildri og fremur lágværri rödd sinni og brosti kannski góðlátlega um leið og hann sagði frá. Það átti við hann alla tíð og þegar ég heimsótti hann á Hjúkrunarheimilið Grund eftir að hann var orðinn dvalargestur þar var hann enn óþreytandi að fræða og rifja upp margvíslega hluti frá fyrri árum, sem ánægjulegt var að fá að heyra. Í endurminningabók sinni „Ljósmyndir" segir séra Halldór Jónsson á Reynivöllum í Kjós svo frá; „Það var af mínum hvötum, að þessum unga pilti var komið til mín til náms. Hann var góður námsmaður og mjög minnugur eins og hann á ætt til." Eftir undirbúningsnám hjá séra Halldóri fór Guðni í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1937 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1944. Lengst af sinni starfsævi vann hann sem lögfræðingur, en lagði þó einnig fyrir sig verkamannavinnu og sjómennsku um tíma.
Guðni var kominn nokkuð á fimmtugsaldur þegar hann hóf sambúð með Guðrúnu Antonsdóttur. Guðrún hafði orðið ekkja 35 ára gömul með fjögur börn á aldrinum þriggja til þrettán ára. Hún sá sér og börnum sínum farborða með því að taka kostgangara og starfa sem matselja á heimili sínu á Ásvallagötu 16 í Reykjavík um langt árabil. Guðni var einn af kostgöngurum hennar um tíma áður en þau hófu sambúð. Eftir að Guðrún féll frá árið 1985 bjó Guðni í skjóli fjölskyldu hennar. Ástæða er til að þakka sérstaklega þá umhyggju og umönnun sem hann naut þar alla tíð. Á síðari árum háði sjóndepra honum og síðustu ár má segja að hann hafi verið orðinn alblindur. Hann fékk dvalarrými á Grund fyrir um það bil þremur árum. Þar leið Guðna vel og sagði aðspurður að þar væri gott að vera. Ég hygg að hann hafi þar verið hvers manns hugljúfi og eftirminnilegt er viðtal við hann sem birtist í Kastljósi Sjónvarpsins í febrúar 2012. Þar lýsti hann lífsviðhorfum sínum eins og honum einum var lagið. Hann var alla tíð mjög róttækur í stjórnmálaskoðunum og í því efni fékk ekkert haggað honum. Ég minnist frænda míns með þakklæti og virðingu nú þegar hann hefur lokið þessari jarðvist rúmlega 98 ára að aldri.
Hermann Hansson.
Guðni Guðnason frá Eyjum í Kjós var dýrmætur hluti af fjölskyldunni okkar og við nutum þess svo sannarlega að eiga hann að. Á heimili Guðna á Ásvallagötunni þar sem hann bjó lengst af með Guðrúnu Antonsdóttur hagaði svo til að tvær íbúðir voru í húsinu auk þeirrar sem Guðni bjó í. Algengast var að börn eða barnabörn Guðrúnar byggju í annarri eða báðum af þessum aukaíbúðum og við vorum svo lánsöm að vera hluti þess fólks og bjuggum þar með Guðna í átta ár.
Þegar við byrjum okkar búskap á Ásvallagötunni 1986 er Guðni rétt í þann mund að hætta störfum, rúmlega sjötugur. Hann var því meira minna heima við og þess nutum við. Sérstaklega er minnisstætt hve góður og tillitssamur hann var við krakkana sem hann lék við og lét allt eftir. Þó svo að við flyttum burtu héldum við áfram nánu sambandi við Guðna og fengum þannig áfram notið þess að eiga samskipti við þennan einstaklega skemmtilega, góða og hjálpsama mann.
Ef lýsa ætti Guðna með hliðsjón af almennari viðmiðum væri sannarlega rétt að segja að hann hafi verið félagshyggjumaður sem lifði alla tíð samkvæmt þeirri sannfæringu sinni að jöfnuður ætti að ríkja á milli manna. Þetta endurspeglaðist meðal annars í líferni Guðna sem fór mjög vel með og fjárfesti ekki í öðru en bættum hag annarra, bæði með því að styrkja góð málefni og fólk sem á þurfti að halda. Þátttaka Guðna í félögum sem höfðu sósíalisma að leiðarljósi var töluverð enda stefna sem samrýmdist hans gildum sem jafnaðarmanns.
Annað sem nefna verður um Guðna er hve fróður og víðlesinn hann var og svo minnugur að af bar. Hann var mikill bókamaður sem hafði þann sið að gefa bækurnar sínar öðrum svo þeir mættu líka hafa gagn af. Ljóðelskur var Guðni með afbrigðum sem meðal annars kom fram í því að hann kunni óteljandi kvæði og heilu kvæðabálkana utan að. Þessi áhugi Guðna á ljóðum og náttúruleg innsýn hans í þau mál náði allt aftur til bernsku hans því í uppvexti sínum naut Guðni þess að amma hans kenndi honum að njóta þeirrar listar með daglegri uppfræðslu.
Ættfræði var mikið áhugamál Guðna. Sem dæmi um það er að ef í tal barst við Guðna einhver persóna á landnámsöld þá vissu menn að öll líkindi voru á því að samtalinu lyki ekki fyrr en ættleggur viðkomandi hefði verið rakinn allt til samtímans. Annað áhugamál Guðna voru örnefni og uppruni þeirra en íslensk fræði og sagnfræði voru Guðna líka hugleikin.
Á ævi sinni upplifði Guðni þær gríðarlegu þjóðfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað á Íslandi þessa síðustu öld. Allt frá æskuárunum þegar Guðni sat yfir ánum að gömlum sið og fram til tæknisamfélags 21. aldar. Hvað sem þeim umskiptum líður þá var Guðni Guðnason frá Eyjum í Kjós alltaf samur við sig og þess nutum við og aðrir sem voru svo lánsamir að umgangast þennan sómamann.
Jóhannes Sturlaugsson, Eygerður Guðbrandsdóttir, Guðbrandur Jóhannesson og Snæfríður Jóhannesdóttir.
Ég á eftir að sakna elsku Guðna míns. Hans sem var svo hlýr og góður, hans sem ég gat alltaf leitað til. Guðni var gæddur einstakri frásagnargáfu. Annar dýrmætur eiginleiki hans var að maður vildi leita til hans með vandamál því hann sýndi málum manns einlægan skilning og gaf manni ráð ef eftir var leitað.
Mér er minnisstætt á mínum menntaskólaárum þegar ég heimsótti Guðna reglulega og vildi fá innsýn inn í líf hans snemma á 20. öldinni. Þá var sjálfsagt mál að gefa ítarlega lýsingu á því öllu saman, en í stað þeirra krassandi lýsinga sem ég var að fiska eftir þá sat ég uppi með upptalningu á ættartengslum sem vörðuðu frásögnina svo klukkustundum skipti. Það flæði varð nefnilega ekki stöðvað með neinu hefðbundnu móti, frammíköll og annað slíkt stoðuðu ekki, Guðni var kominn á flug.
Guðni hafði alltaf mikinn áhuga á fólki og leitaði alltaf eftir fréttum af fjölskyldunni þegar ég hitti hann. Þegar fréttaflutningurinn hófst af minni hálfu þá ljómaði Guðni alltaf eins og sól í heiði því hann hafði svo einlægan áhuga á fólkinu sem honum þótti vænt um. Þegar honum fannst eitthvað kímið í fréttaflutningnum var stutt í flissið og glottið og hláturinn skammt undan.
Eitt af því sem mér þótti mjög vænt um í háttum Guðna var þegar að hann sönglaði fallega einn með sjálfum sér. Það kom manni fyrir sjónir eins og að hann væri í sínum hugarheimi með söng- og ljóðelskri ömmu sinni upp í Kjós. Minningin um fallega Guðna sönglandi og hans hlýju snertingu mun ég varðveita alla tíð.
Sólrún Jóhannesdóttir.
Látinn er í hárri elli Guðni Guðnason lögfræðingur, síðasti alvöru-kommúnistinn á Íslandi. Guðni lifði í góðu samræmi við lífsskoðun sína, gerði litlar kröfur til lífsgæða, þurfti lítið, gaf ríkulega, eignaðist ekkert.
Guðni var góður námsmaður en efnalítill og kostaði sína skólagöngu sjálfur með verkamannavinnu, m.a. við höfnina í Reykjavík og las gjarnan utanskóla. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1937 og hóf síðan nám í lögfræði við Háskóla Íslands, sem hann lauk í janúar 1942.
Þegar ég kynntist Guðna var hann ríflega hálf-áttræður. Við hittumst alloft enda bjó hann þá lengstum í skjóli dóttur minnar Sigríðar Elfu. Áttum við gjarnan langar samræður um pólitísk átök fyrri áratuga, um heimsmálin og böl hins alþjóðlega kapítalisma. Guðni var skarpgreindur, vel lesinn og fróður, minnugur, rökfastur og óhvikull í pólitískri afstöðu sinni. Hann var lengi virkur í stéttabaráttunni í Reykjavík og hafði skýra sýn í þeim efnum. Aldrei lét hann sig vanta þegar mikið lá við og hann mun líklega hafa tekið þátt í fleiri 1. maí-göngum í Reykjavík en nokkur annar, frá þeirri fyrstu á fjórða áratugnum til hinnar síðustu á liðnu ári.
Með Guðna Guðnasyni er genginn heilsteyptur og hógvær hugsjónamaður, baráttumaður í þágu alþýðu, alþjóðasinni með skarpa heimssýn og einstakt ljúfmenni. Kynnin af fágætum öðlingsmanni voru lærdómsrík og dýrmæt.
Sigurður Hjartarson og Jóna Kristín Sigurðardóttir.
Minningabrot.
Guðni var sambýlismaður Guðrúnar langömmu minnar, en hún lést áður en ég kom til sögunnar og því fékk ég því miður ekki að kynnast henni. Ég er hins vegar ótrúlega lánsöm að hafa haft Guðna í mínu lífi. Guðni var ekki skyldur mér blóðböndum en alla tíð leit ég á hann sem afa. Þegar ég var fjögurra mánaða gömul fluttum við, ég og foreldrar mínir, á miðhæðina á Ásvallagötu 16. Guðni bjó í kjallaraíbúðinni og á efstu hæðinni bjó frændfólk okkar. Árin á Ásvallagötu voru yndisleg. Ég, Loki bróðir minn og Magnea og Ólafía frænkur okkar af efstu hæðinni eyddum oft heilu dögunum niðri hjá Guðna. Þar klifruðum við upp á allt og útum allt, á meðan sat Guðni hinn rólegasti og hló. Við Magnea tókum okkur stundum til og földum hlutina hans Guðna og létum hann svo leita. Guðni var þá áttræður og lögblindur. Hann kippti sér þó ekkert upp við þetta því þegar við vorum glöð var Guðni glaður. Þegar ég var fjögurra ára fluttum við fjölskyldan til Englands. Þrátt fyrir blindu Guðna skrifaði hann okkur löng, skemmtileg bréf. Þessi dásamlegu bréf á ég enn, og mun geyma um aldur og ævi. Þegar við fluttum heim, fluttum við á Kárastíg og Guðni kom að sjálfsögðu með og bjó í kjallaraíbúðinni. Stöku sinnum þegar mamma og pabbi fóru út á kvöldin, kom Guðni upp og passaði okkur systkinin. Ég átti oft erfitt með að sofna sem barn og þótti vont að vera ein. Svefnherbergin voru öll á efri hæð hússins en stigarnir voru ekki greiðfærir. Tröppurnar voru brattar og gangurinn þröngur. Guðni, þá 84 ára staulaðist í hvert sinn upp á eftir mér og þar sat hann á hörðum kolli þar til ég sofnaði. Nú, 14 árum síðar sé ég mikið eftir því að hafa látið Guðna hafa svona mikið fyrir mér en er á sama tíma alveg óendanlega þakklát fyrir góðmennsku hans. Eftir nokkur ár á Kárastíg fluttum við á Grettisgötuna. Eins og áður kom Guðni með, enda löngu orðinn einn af fjölskyldunni. Þegar ég var komin í menntaskóla átti ég að skrifa ritgerð um námsár eldri borgara. Ég hugsaði að sjálfsögðu til Guðna og fór heim og ræddi við hann. Guðni var minnugasti maður sem ég hef kynnst. Þennan dag rakti hann alla ævi sína, allt frá fæðingu. Hann mundi hin minnstu smáatriði og mér þótti dásamlegt að hlusta á hann. Fyrir ritgerðina fékk ég hæstu einkunn. Ég sagði Guðna fréttirnar og þakkaði fyrir alla aðstoðina. Guðni var glaður og þakkaði mér fyrir að hafa skrifað brot af ævisögu sinni og vildi borga mér fyrir, ég afþakkaði, enda var það mitt að þakka. Guðni var góður maður sem hugsaði alltaf vel um fólkið í kringum sig. Hann var afar vel gefinn maður sem þótti gaman að fræða aðra og segja sögur. Ég verð einnig að taka það fram hversu fagur maður Guðni var. Hann var smágerður, með mikið, fallegt, snjóhvítt hár. Guðni elskaði lífið og naut þess, því var alltaf bjart yfir honum. Þrátt fyrir mikinn aldursmun get ég með stolti sagt að Guðni hafi verið einn af mínum bestu vinum. Ég mun sakna Guðna sárt en ég hugsa til hans með bros á vör.
Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir.